2003-02-10 15:19:05# 128. lþ. 75.1 fundur 415#B afstaða ríkisstjórnarinnar til tillögu Frakka og Þjóðverja í Íraksdeilunni# (óundirbúin fsp.), ÞSveinb
[prenta uppsett í dálka] 75. fundur, 128. lþ.

[15:19]

Þórunn Sveinbjarnardóttir:

Hæstv. forseti. Það er ekki bara Saddam Hussein sem stendur frammi fyrir mjög alvarlegum hlutum. Við gerum það öll. Verði farið í stríð við Írak er það á ábyrgð okkar allra, og ekki síst afleiðingar þess hverjar sem þær verða. Þess vegna hljótum við, ríkisstjórn Íslands sem og aðrar þær stjórnir sem hafa mest um þetta að segja, að beita öllum tiltækum ráðum til að koma í veg fyrir stríð.

Að sjálfsögðu liggur það fyrir að Saddam Hussein hefur verið gert að afvopnast. En er hægt að kaupa þá afvopnun hvaða verði sem er? Það er væntanlega sú spurning sem þjóðir heims þurfa að svara í þessari viku.