Skráning skipa

Mánudaginn 10. febrúar 2003, kl. 16:13:57 (3668)

2003-02-10 16:13:57# 128. lþ. 75.29 fundur 157. mál: #A skráning skipa# (þurrleiguskráning fiskiskipa) frv., Frsm. meiri hluta HjÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 75. fundur, 128. lþ.

[16:13]

Frsm. meiri hluta samgn. (Hjálmar Árnason) (andsvar):

Herra forseti. Ég tel að ekki sé nú alveg rétt með farið hjá hv. þm. að hér sé um mikla stefnubreytingu að ræða því að við höfum verið að veiða í fiskveiðilögsögu annarra þjóða. Það liggur líka fyrir að útgerðir fá ekki heimildir til þess að flagga út skipi með þeim hætti sem frv. fjallar um nema um það sé samkomulag við stjórnvöld í viðkomandi ríki.

Ég vil líka draga það fram að með frv. og breytingum meiri hluta samgn. er verið að skerpa á eftirliti, annars vegar eftirliti sjútvrn., þar sem útgerðirnar eru tilkynningaskyldar þangað, og eins til Siglingamálastofnunar. Báðar þessar stofnanir hafa síðan fulla heimild til þess að afturkalla þurrskráningarheimildina ef þeim sýnist svo, ef þær stofnanir meta það svo að verið sé að fara á svig við það sem samræmist íslenskum hefðum og íslenskum lögum.

Hv. þm. gerði rússneska tvíflöggunarflotann nokkuð að umtalsefni og spyr: ,,Í hvernig félagsskap erum við að stefna?`` Ég nefndi það í framsöguræðu minni að við erum að stefna í félagsskap með Færeyingum. Það er kannski þangað frekar sem við sækjum fyrirmyndina. Hafi hv. þm. komið til Þórshafnar í Færeyjum hefur hann væntanlega séð þar stóran rússneskan flota sem landar þar, ýmist á milli skipa eða í land og skapar mikla atvinnu. En ekki síst má nefna að helmingurinn af veiðum færeyska flotans byggir á veiðum í efnahagslögsögu erlendra ríkja. Það er beinlínis stefna þeirra til þess að skapa flota sínum aukin verðmæti og verðmæti fyrir færeyska þjóðarbúið.