Afkomutrygging aldraðra og öryrkja

Mánudaginn 10. febrúar 2003, kl. 17:48:37 (3692)

2003-02-10 17:48:37# 128. lþ. 75.31 fundur 149. mál: #A afkomutrygging aldraðra og öryrkja# þál., Flm. JóhS (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 75. fundur, 128. lþ.

[17:48]

Flm. (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Samfylkingin hefur um langan tíma haft efni þeirrar þáltill. sem hér er tekin á dagskrá í stefnu sinni en hún felur í sér að komið verði á afkomutryggingu svo enginn þurfi að una fátækt og óvissu um kjör sín. Með þeirri tillögu sem hér er flutt er stigið fyrsta skrefið í þessa átt og hún lýtur að afkomutryggingu aldraðra og öryrkja. Til að ná því markmiði sem er stefnt að er hér lagt til að teknar verði upp viðræður milli stjórnvalda og samtaka lífeyrisþega um nýjan samning um afkomutryggingu sem komi til framkvæmda, eins og hér er lagt til, 1. janúar 2003. Síðan verði þessi afkomutrygging undirstaða nýrra laga um almannatryggingar.

Þingmenn Samfylkingarinnar hafa á þessu þingi einnig lagt fram till. til þál. um skattfrelsi lágtekjufólks sem felur m.a. í sér að atvinnuleysisbætur og fjárhagsaðstoð sveitarfélaga verði ekki skattlögð. Markmið beggja þessara tillagna er að enginn þurfi að una því að eiga ekki fyrir nauðþurftum.

Herra forseti. Svo lengi sem ég hef verið á þingi man ég ekki eftir því að eins mikið hafi verið rætt um fátækt í þjóðfélaginu, bæði innan þessara veggja og úti í samfélaginu. Ég hygg að það sé ljóst að það er allt of stór hópur fólks sem þarf að lifa við kjör sem ekki duga fyrir brýnustu nauðþurftum, þar á meðal allt of stór hópur aldraðra og öryrkja, og í heild hefur þessi hópur aldraðra og öryrkja ekki fengið sanngjarnan eða eðlilegan hlut í góðæri liðinna ára. Í því efni hefur verulega dregið sundur með lífeyrisþegum og þeim sem verst hafa kjörin á vinnumarkaðnum og sama gildir um bilið milli meðallauna verkamanna og lífeyrisgreiðslna. Þegar á allt er litið fer því fjarri að afkoma og aðbúnaður margra aldraðra hér á landi sé mannsæmandi. Sú staðreynd að meira en helmingur aldraðra er með framfærslulífeyri undir lágmarkslaunum staðfestir bág kjör allt of stórs hóps aldraðra í íslensku þjóðfélagi. Það segir líka sína sögu að 40% lífeyrisþega hafa óskerta tekjutryggingu en í skýrslu sem lögð var fram á hv. Alþingi fyrir nokkrum missirum kom fram að 43% allra öryrkja fá engar greiðslur úr lífeyrissjóði.

Herra forseti. Fyrir einu ári eða einu og hálfu ári tók Þjóðhagsstofnun saman fyrir mig hækkanir á grunnlífeyri og tekjutryggingu aldraðra samanborið við lágmarkslaun. Einnig var tekið saman fyrir mig hvernig kaupmáttur lífeyris hefur þróast samanborið við kaupmátt lágmarkslauna. Við þessa umræðu, herra forseti, er full ástæða til að fara aðeins yfir það talnaverk sem ekki er langt, ekki síst í ljósi þess að hæstv. forsrh. barði sér á brjóst í síðustu viku og gerði þar mikið úr því að kaupmáttur atvinnulausra, eins og hann nefndi það, hefði vaxið um 13%. Það var hálfömurlegt, herra forseti, að hlusta á hæstv. forsrh. þegar verið var að ræða hlutskipti fátækra og hvort ekki væri eðlilegt að skilgreina lágmarksframfærsluviðmið fólks í þjóðfélaginu. Hann vísaði þessu frá, ríkisstjórninni reyndar, yfir á sveitarfélögin og sagði að það væri í verkahring sveitarfélaganna að sjá um lágmarksframfærslu þessara hópa.

Staðreyndin er sú, herra forseti, að vegna þess að kjör þessara hópa sem ég hef hér nefnt hafa verið skert hefur framfærslueyri þeirra í auknum mæli verið ýtt yfir á sveitarfélögin sem í vaxandi mæli hafa þurft að láta aukið fjármagn í fjárhagsaðstoð sem vaxið hefur, í Reykjavík einni saman, 40--50% á einu ári. Það er bein afleiðing þess að kjör þessara hópa í gegnum almannatryggingakerfið og gegnum skerðingu á atvinnuleysisbótum hafa verið skert. Þessir hópar hafa ekki fengið hlutdeild sína í því góðæri sem við höfum búið við.

Ég nefni hér, herra forseti, t.d. kaupmátt grunnlífeyris og tekjutryggingar. Hann hefur, eins og sjá má á þessari súlu sem ég hef látið útbúa á grundvelli þeirra upplýsinga sem ég fékk frá Þjóðhagsstofnun, hækkað á árabilinu 1995--2001 um rúm 11% á sama tíma og kaupmáttur lágmarkslauna hefur hækkað um tæp 42%. Aukning á kaupmætti lágmarkslauna er því 28% umfram aukningu á kaupmætti grunnlífeyris og tekjutryggingar á þessu árabili.

Sama gildir um hina atvinnulausu. Hæstv. forsrh. taldi sérstaka ástæðu til að draga þann hóp fram með ummælum sínum í síðustu viku og taldi þessari ríkisstjórn sérstaklega til ágætis að kaupmáttur atvinnulausra hefði hækkað um 13% á síðustu árum. Staðreyndin er sú, og það staðfesti hæstv. félmrh. með svari við fyrirspurn minni í nóvembermánuði, að með því að ríkisstjórnin aftengdi atvinnuleysisbætur kjörum fiskverkafólks á árinu 1996 hafa atvinnulausir verið snuðaðir um 15 þús. kr. á hverjum mánuði, þ.e. 180 þús. kr. á ári. Það kæmu sem sagt 180 þús. kr. meira á ári í buddu atvinnulausra nú ef ríkisstjórnin hefði ekki farið þá leið að slíta þessi tengsl við lágmarkslaun fiskverkafólks og slíta á tengingu þá sem var við kjör aldraðra og öryrkja á sínum tíma, 1995, þegar ríkisstjórnin tók við. Það sést á þessu línuriti sem ég hef hér undir höndum að þróun atvinnuleysisbóta er með allt öðrum hætti en bæði þróun launavísitölu sem er verulega hærri að ekki sé talað um þróun lágmarkslauna fiskvinnslufólks. Hér sést í hnotskurn, herra forseti, á þessu línuriti hvernig ríkisstjórnin hefur farið með atvinnulausa á því tímabili sem hún hefur setið við völd.

Fólk verður að gæta þess við hvað þessi ríkisstjórn miðar þegar hún talar um kaupmátt. Þegar hún talar um kaupmátt elli- og örorkulífeyrisþega hefur hún farið í þann nöturlega talnaleik, herra forseti, að blekkja með tölum og taka í þá útreikninga bæði heimilisuppbót og tekjutryggingarauka sem aðeins lítill hluti aldraðra og öryrkja fær. Má t.d. nefna að aðeins 1,3% aldraðra fengu á árinu 2001 tekjutryggingarauka, þ.e. 330 aldraðir, og 9,3% öryrkja, þ.e. 908. Einnig fá einungis 16--20% aldraðra og öryrkja heimilisuppbót. Langstærstur hluti lífeyrisþega fær því ekki heimilisuppbót eða tekjutryggingarauka en það er einmitt við þennan fámenna hóp sem ég var hér að nefna, örfá hundruð aldraðra sem fá eðli máls samkvæmt meira úr Tryggingastofnun af því að þeir fá ekki úr lífeyrissjóði, sem kaupmáttarútreikningar ríkisstjórnarinnar eru ávallt miðaðir meðan hinn hópurinn telur sennilega um 30 þús. manns. Síðan er alhæft yfir allan hópinn að kaupmáttur öryrkja og aldraðra hafi hækkað um svo og svo mikið. Þetta er brýnt, herra forseti, að hafa í huga þegar við ræðum um kjör aldraðra, og öryrkja reyndar líka eins og þessi tillaga gengur út á.

Samtök aldraðra hafa verið ötul í að berjast fyrir kjörum aldraðra og náðu því m.a. fram, herra forseti, núna í nóvembermánuði að kjör aldraðra voru eilítið hækkuð fyrir tilstuðlan þeirra. En það var líka nöturlegt að horfa upp á það, herra forseti, að nokkrum vikum síðar, í janúar, gaf hæstv. heilbrrh. út reglugerð sem hækkaði verulega bæði lyfja- og lækniskostnað sem ekki síst aldraðir og öryrkjar þurfa að nota mikið. Því var umtalsverður hluti þeirrar hækkunar á lífeyrisgreiðslum sem þeir fengu í nóvember tekinn aftur í janúarmánuði. Það er einmitt sá leikur sem þessi ríkisstjórn hefur leikið allt frá árinu 1995 að það hafa orðið verulegar kostnaðarhækkanir, herra forseti, í heilbrigðiskerfinu, ekki síst í lyfjakostnaði. Svo er nú komið, herra forseti, að einhver hópur öryrkja og aldraðra getur ekki leyst út lyfin sín og hefur það komið fram, bæði hjá forustumönnum verkalýðsfélaga og heilbrigðisstéttunum og einnig frá þeim sem aðstoða þetta fólk þegar það á ekki orðið fyrir mat, að það hefur oft þurft að leita til hjálparstofnana til þess að geta leyst út lyfin sín. Ég er ekki að segja, herra forseti, að hér sé um stóran hóp að ræða en það er nöturlegt í velferðarsamfélaginu Íslandi að fátækt verður sífellt sýnilegri í þessu þjóðfélagi og sífellt koma fram fleiri og fleiri dæmi um það að fólk geti ekki leyst út lyfin sín.

Ég hef heyrt þó nokkur dæmi um það varðandi öryrkja, herra forseti, sem þurfa á miklum lyfjum að halda að þeir fara með samtals eins mánaðar lífeyri í lyfjagreiðslur á ári fyrir utan það, sem ber að halda til haga, að eins mánaðar lífeyrisgreiðslur fara líka í að greiða skatt hjá þessum hópi en hann greiddi enga skatta á árinu 1995. Það er ágætt, herra forseti, að halda því til haga í þessari umræðu líka, sem kom fram í haust í fjölmiðlum, hvernig ríkisstjórnin hefur sérstaklega hækkað skatta hjá þessum hópi og sýnt var fram á það á annarri sjónvarpsstöðinni að skattbyrði þeirra sem minnst hafa hefur þyngst verulega. Skattbyrðin í heild hefur þyngst um 24--27% á árunum 1995--2002 og þar var sýnt fram á að verkamenn greiða 6,2% meira af launum sínum í skatt eða um 109 þús. meira á árinu 2002 en þeir gerðu á árinu 1995. Skattbyrði þeirra sem eru á meðallaunum hefur aukist um 2,8% þannig að þeir greiða 77 þús. meira á árinu 2002 en þeir greiddu árið 1995 og þeir sem eru með 344 þús. í tekjur greiða 29 þús. meira á árinu 2002 en á árinu 1995. Með öðrum orðum hefur skattbyrði verkafólks aukist fjórfalt meira á þessu tímabili, á árunum 1995--2002, en hjá hálaunamanninum sem er með 344 þús. Skattbyrði hans hefur aukist um 29 þús. meðan skattbyrði á verkamanninum hefur aukist um 109 þús. Þetta sýnir í hnotskurn, herra forseti, hvernig sífellt er verið að níðast á þessum sama hópi, og því miður er það sá hópur sem verst hefur það í þessu þjóðfélagi.

Þessi tillaga sem ég hef mælt fyrir og flutt er af þingmönnum Samfylkingarinnar gerir ráð fyrir, herra forseti, eins og ég sagði í upphafi máls míns að koma á afkomutryggingu fyrir aldraða og öryrkja. Hún gerir ráð fyrir því líka að kjör ungra öryrkja verði sérstaklega bætt og með því verði sérstaða þeirra viðurkennd. Framfærslubyrði ungra öryrkja er oft mikil, ekki síst ef þeir hafa fyrir fjölskyldu að sjá. Í tillögunni er líka lagt til nýtt ákvæði sem ekki var á síðasta þingi en þar er lagt til að skoðaðir verði möguleikar á því að tryggja öryrkjum sem ekki eru á almenna vinnumarkaðnum aðgang að lífeyrissjóðakerfinu. Tæplega 49% öryrkja eða 4.700 af 9.780 fengu óskertan lífeyri og tekjutryggingu á síðasta ári. Þetta er hópur sem lítið sem ekkert fær út úr almenna lífeyrissjóðakerfinu og 10% iðgjaldagreiðslur vegna þessa hóps væru um 325 millj. kr. á ári sem semja yrði um að kæmi úr ríkissjóði. Þetta tryggði öryrkjum sem ekki geta verið á vinnumarkaði um 100 þús. kr. á ári í 10 ár í aukinn lífeyri. Þetta er tillaga sem mér finnst að eigi að skoða, herra forseti, þegar mál þetta fer til afgreiðslu, væntanlega í heilbr.- og trn.

Ég legg til, herra forseti, að frv. þessu verði að lokinni þessari umræðu vísað til síðari umr. og hv. heilbr.- og trn.