Tækni- og iðnmenntun

Þriðjudaginn 11. febrúar 2003, kl. 13:43:51 (3708)

2003-02-11 13:43:51# 128. lþ. 76.94 fundur 421#B tækni- og iðnmenntun# (umræður utan dagskrár), menntmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 76. fundur, 128. lþ.

[13:43]

Menntamálaráðherra (Tómas Ingi Olrich):

Herra forseti. Það er álit hv. fyrirspyrjanda að fækkun sveinsprófa merki að hefðbundnar iðngreinar hafi verið í sívaxandi vörn hér á landi. Þetta er fullkomið álitaefni og verður að skoða í mun víðara samhengi en hér var gert. Aðsókn að námi á framhaldsskólastigi hefur aukist jafnt og þétt undanfarna áratugi. Aðsóknin er nokkuð breytileg frá einu tímabili til annars þegar litið er til einstakra námsbrauta eða tegunda náms. Aðsókn að námi í löggiltum iðngreinum hefur dregist nokkuð saman á tímabilinu 1991--2000, eða um 9,5%. Á þeim tíma fjölgaði nemendum í öðru starfsnámi hins vegar um 10,5%. Iðnnemum fjölgaði um 2% milli áranna 1995 og 2001, og nemendum í öðru starfsnámi fjölgaði þá um 14,5%. Á árunum 1995--2001 fjölgaði nemendum í framhaldsskólum alls um 5,6%. Af þessum tölum sést að aðsókn er nokkuð sveiflukennd að mismunandi tegundum náms en nýjustu innritunartölur benda til þess að aðsóknaraukningin sé mest í öðru starfsnámi. Áhrifa af inntökuskilyrðum í nám í framhaldsskóla er nýlega farið að gæta og ekki ólíklegt að þau breyti aðsókn að námi þegar til nokkuð lengri tíma er litið.

Menntamálayfirvöld hafa beitt sér fyrir margvíslegum aðgerðum til að styrkja undirstöður iðn- og starfsmenntunar í landinu og sá málaflokkur er búinn að vera í forgangi hjá þeim lengi. Það verður að skoða þróun aðsóknar að námi í heild sinni og festast ekki í klisjukenndri umræðu um minnkandi aðsókn að námi í löggiltum iðngreinum. Margt bendir til þess að starfsmenntun sé í sókn og menn verða að taka tillit til þess að þjóðfélagið er að taka breytingum. Menn geta ekki rætt þessi mál á grundvelli þess hvernig þetta þjóðfélag var fyrir meira en 10 árum.

Að því er varðar fjármál starfsmenntaskólanna, en um það var einnig spurt og reiknilíkanið sérstaklega, er það rangt að reiknilíkan sem notað er til að reikna framhaldsskólum fé taki ekki tillit til sérstaks kostnaðar sem leiðir af kennslu verknáms. Fjárveitingar til rekstrar framhaldsskóla eru lögum samkvæmt byggðar á reiknilíkani og var slíkt líkan í fyrsta sinn notað við undirbúning fjárlaga 1998. Regluleg endurskoðun á reiknilíkaninu á síðustu árum hefur snúist um að finna réttar forsendur við ólíkar tegundir náms, einkum með sérstöðu verknámsins í huga. Mikil vinna hefur verið lögð í það af hálfu ráðuneytisins í góðri samvinnu við skólana að sníða vankantana af reiknilíkaninu, og fyrirsjáanlega þarf að sæta sífelldri endurskoðun þegar reiknilíkön af þessu tagi eru notuð. Hið endanlega markmið er að fjárframlög til einstakra skóla endurspegli kostnað vegna fjárfestingar og starfsemi þeirra. Endurskoðun á reiknilíkani til útdeilingar fjárveitinga átti markvisst að leiða til þess að aukningin skilaði sér til starfs-, iðn- og verkmenntunar, hvort heldur litið er til dreifbýlis eða þéttbýlis, smárra skóla eða stórra. Einfaldur samanburður á fjárveitingum samkvæmt fjárlögum 2002 og 2003 sýnir að þetta markmið hefur náðst hvað varðar nokkra helstu verknámsskóla landsins. Iðnskólinn í Reykjavík hækkar um 3,9%, Verkmenntaskólinn á Akureyri hækkar um 4,4%, Fjölbrautaskóli Vesturlands á Akranesi hækkar um 4,3%, Fjölbrautaskóli Suðurnesja hækkar um 5,1%, Borgarholtsskóli hækkar um 8,9% en mest þó Iðnskólinn í Hafnarfirði eða um 24% en þar var gert ráð fyrir nokkurri fjölgun nemenda. Það er rétt að taka það fram að samkvæmt reiknilíkani fyrir árið 2001 kemur fram að nokkrir skólar með umtalsverða verkmenntun hafa verið reknir með afgangi undanfarin ár. Þetta þýðir í raun og veru að það er ekki hægt að líta til einstakra skóla. Sumum gengur vel að halda utan um rekstur sinn og skila afgangi, jafnvel í verkmenntun, en öðrum tekst það eins og gengur ekki eins vel. Það er mikilvægt atriði í þessu sambandi að menn geri sér grein fyrir því að með reiknilíkaninu er verið að gera skólana samanburðarhæfa. Með þeim breytingum sem gerðar voru á reiknilíkaninu er verið að bæta stöðu verknámsins og það er misskilningur hjá hv. fyrirspyrjanda og það er misskilningur líka hjá Samtökum iðnaðarins að það hafi ekki verið gert enda hefur þetta verið viðurkennt af skólameisturum verkmenntaskóla.

Ég nefni sérstaklega að það kom fram í máli Baldurs Gíslasonar, skólameistara Iðnskólans, að það væri verið að bæta verulega stöðu verkmenntaskólanna, og þeir vonast til þess að væntingar þeirra að því er það varðar nái fram. Þær tölur sem ég benti á áðan benda til þess að svo sé. Ég held að það sé mikilvægt að menn ræði ekki um iðn- og verknám á grundvelli fortíðarinnar heldur taki menn tillit til þess sem hefur verið að breytast í starfsnáminu. Þjóðfélagið hefur verið að breytast. Kröfur til starfsnáms hafa verið að breytast og það hefur verið mestur vöxtur í starfsnámi þegar við lítum á innritunartölur skólanna. Það er því mikilvægt að við höldum þessu til haga í þessari umræðu. Það er verið að breyta líkaninu til góða fyrir starfsnámið. Við munum halda því áfram og breyta líkaninu eftir þörfum. Það verður gert á komandi árum vegna þess að líkan er með þeim hætti að það þarf að vera í stöðugri endurskoðun.