Tækni- og iðnmenntun

Þriðjudaginn 11. febrúar 2003, kl. 13:51:25 (3710)

2003-02-11 13:51:25# 128. lþ. 76.94 fundur 421#B tækni- og iðnmenntun# (umræður utan dagskrár), HjÁ
[prenta uppsett í dálka] 76. fundur, 128. lþ.

[13:51]

Hjálmar Árnason:

Herra forseti. Þær ræður sem nú eru fluttar um stöðu iðnmenntunar og starfsmenntunar voru líkar fluttar á Alþingi og í samfélaginu öllu fyrir 20 árum, sömu ræðurnar. Þá var ástandið þannig að um 70% nemenda sem fóru í framhaldsskóla fóru inn á stúdentsbrautir en 30% nemenda í starfsnám, öfugt við það sem tíðkast í nágrannaríkjum okkar, og brottfall nemenda í framhaldsskólum var um 40%.

Þessar tölur eru óbreyttar í dag. Það hefur með öðrum orðum lítið gerst hvað þetta varðar og við hljótum þess vegna að spyrja: Hvers vegna?

Í lögum um framhaldsskóla er ekkert sem meinar skólunum að taka upp nýjar starfsmenntabrautir. En málið er flóknara en svo. Í fyrsta lagi vil ég nefna sem kannski meginástæðu fyrir stöðu starfsnáms á Íslandi í dag. Það er viðhorfið, hið almenna viðhorf í samfélaginu þar sem má segja að svokallað stúdentssnobb sé mun æðra talið en hið mikilvæga starfsnám og það birtist í aðsókn nemenda inn á starfsnámsbrautir.

Í annan stað vil ég segja: Viljaleysi atvinnulífsins að viðurkenna í verki þörfina á því að fá vel menntað fólk í allar þær starfsgreinar sem þekkjast innan íslensks atvinnulífs. Sá vilji er afskaplega takmarkaður í verki.

Í þriðja lagi vil ég síðan nefna að sú atvinnugrein sem mannfrekust er í íslensku atvinnulífi, nefnilega þjónusta, endurspeglast ekki í skólakerfinu en við eigum hins vegar ýmsa þjónustuskóla, lokaða skóla, bankaskóla, tollvarðaskóla, lögregluskóla og þar fram eftir götunum sem hinn almenni nemandi í framhaldsskóla á enga möguleika á að komast í. Þetta, herra forseti, eru að mínu mati þær meginástæður fyrir því að nemendur skuli ekki fara í starfsnám hér á landi eins og tíðkast í nágrannalöndum okkar og það er grafalvarlegt fyrir íslenskt atvinnu- og efnahagslíf til framtíðar litið.