Verndun íslensku mjólkurkýrinnar

Þriðjudaginn 11. febrúar 2003, kl. 18:25:17 (3751)

2003-02-11 18:25:17# 128. lþ. 76.21 fundur 193. mál: #A verndun íslensku mjólkurkýrinnar# þál., Flm. ÞBack (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 76. fundur, 128. lþ.

[18:25]

Flm. (Þuríður Backman):

Herra forseti. Ég flyt hér till. til þál. um verndun íslensku mjólkurkýrinnar. Þessi þáltill. er á þskj. 194 og þetta er 193. mál. Það var áður flutt á 127. löggjafarþingi en varð þá ekki útrætt og því er málið hér endurflutt óbreytt ásamt greinargerð. Flm. ásamt mér eru hv. þm. Drífa Hjartardóttir, Sigríður Jóhannesdóttir, Katrín Fjeldsted og Sverrir Hermannsson.

Ég vil fara aðeins yfir greinargerðina án þess að lesa hana alveg. Tillögunni fylgir töluvert af fylgiskjölum. Mikil umræða um verndun eða a.m.k. stöðu íslensku mjólkurkýrinnar kom upp í sambandi við áhuga hjá sumum mjólkurframleiðendum á að flytja inn norska fósturvísa og kynbæta íslensku mjólkurkúna til þess að fá meira mjólkurmagn. Þegar þessi beiðni kom fram voru nokkuð ákafar umræður í þjóðfélaginu, ekki bara meðal kúabænda heldur kom þetta mál einnig inn á þingið. Það hefði þurft lagabreytingu til þess að heimila innflutning á fósturvísunum. Það var fallið frá þessari fyrirhuguðu tilraun sem átti að gera og tel ég það vel að þær hugmyndir séu út af borðinu í bili. Eftir standa áhyggjur margra af stöðu íslensku mjólkurkýrinnar og hvernig við getum staðið að því að vernda hana áfram.

Nú vill svo heppilega til, herra forseti, að á allra síðustu árum hefur nyt íslensku kúnna stóraukist að meðalatali, og er meðaltalið komið yfir 5.000 lítra. Hefðu fáir trúað því fyrir bara 10--15 árum að þessi árangur næðist. En þetta er nú staðreynd og ber þess vissulega vott að íslenskir kúabændur hafa staðið vel að kynbótum og bætt aðbúnað kúnna. Eins hefur fóðrun tekið stakkaskiptum og það er mikil fræðsla og rannsóknir í gangi, fræðsla til bænda sem byggir á rannsóknum sem hjálpar bændum til þess að fóðra kýrnar rétt svo að það sé hvorki um of- né vanfóðrun að ræða. Það er margt sem hjálpast að en árangurinn hefur sýnt sig í meira mjólkurmagni.

Þó að hugmyndir um að flytja inn fósturvísa séu út af borðinu og þó að við séum búin að fjalla um till. til þál. um endurskoðun laga um innflutning dýra þar sem lagt er til að samningur Sameinuðu þjóðanna um líffræðilega fjölbreytni, sem gerður var í Rio de Janeiro 1992 og undirritaður af Íslands hálfu 12. júní sama ár, er umræðuefnið ekki dautt. Í samningnum segir að ,,... markmið samningsins er að vernda líffræðilega fjölbreytni, sjálfbæra notkun efnisþátta hennar og réttláta skiptingu hagnaðar sem stafar af nýtingu erfðaauðlinda. Jafnframt er viðurkennt að aðildarríkin eigi fullveldisrétt yfir eigin líffræðilegu auðlindum og jafnframt að þau beri ábyrgð á verndun þessara auðlinda.``

Það er búið að vísa þessari þáltill. til hv. landbn. en ég ásamt meðflm. tel að þrátt fyrir þessa tillögu eigi að fjalla sérstaklega um verndun íslensku mjólkurkýrinnar og taka tillit til hennar í þessari vinnu.

[18:30]

Við búum á eylandi sem vissulega hefur hjálpað okkur til þess að vernda íslenskt búfjárkyn gegn smitsjúkdómum og okkur ber að standa vörð um búfjárkyn okkar og hafa mjög harðar og virkar smitvarnir hvað varðar innflutning bæði á matvælum og öðrum vörum sem hugsanlega geta smitað búfjárstofna okkar. En okkur ber einnig að lúta því að við erum með einstakt kyn sem okkur ber að vernda og út á það gengur þáltill.

Herra forseti. Ég ætla ekki að fara neitt í þessa greinargerð og rökstuðning frekar en þann að við höfum ákveðnar skyldur gagnvart okkar íslensku búfjárstofnum. Mjólkurkýrin er hér tekin sérstaklega út fyrir sviga þar sem áhugi er til staðar um sérstakar kynbætur og þá er ekki auðséð hvernig hægt er að vernda hluta stofnsins ef það yrði einhvern tímann leyft burt séð frá hugsanlegum smitleiðum með fósturvísum og tilraunastarfi af þeim toga, sem gerð er hér góð grein fyrir.

Ég óska eftir því að eftir fyrri umræðu verði tillögunni vísað til hv. landbn.