Innheimtulög

Þriðjudaginn 11. febrúar 2003, kl. 18:49:07 (3755)

2003-02-11 18:49:07# 128. lþ. 76.24 fundur 209. mál: #A innheimtulög# frv., SJóh
[prenta uppsett í dálka] 76. fundur, 128. lþ.

[18:49]

Sigríður Jóhannesdóttir:

Hæstv. forseti. Hér er ákaflega brýnt mál á ferðinni sem vart er hægt að bíða lengur eftir að verði gert að lögum.

Ég hef undrað mig á því undanfarin ár, meðan ég hef fylgst með því, hversu lausum hala íslenskir innheimtuaðilar leika og geta smurt ofan á skuldir sem fólk hefur lent í vandræðum með af einhverjum ástæðum, alveg ótrúlegum fjárhæðum sem manni finnst að séu ekki grundaðar með nokkrum hætti. Þeir segja kannski að send hafi verið út einhver bréf eða eitthvað slíkt og það þýðir bara tugi þúsunda aukakostnað.

Eitt ljótasta dæmið sá ég núna nýlega. Það var reikningur frá bókaútgáfu þar sem gleymst hafði að borga síðustu 8 þús. krónurnar af reikningnum. Send höfðu verið einhver viðvörunarbréf, sem að vísu hafði ekki verið ansað, og þá hafði verið drifið í því að gera lögtak í húseign viðkomandi fyrir þessar 8 þús. krónur. Fólkið vildi náttúrlega ekki láta bjóða upp húsið þó að það væri ósátt við kröfuna og það varð að borga 60 þús. krónur til að aflétta þessari innheimtukröfu upp á 8 þúsund krónur. Og í rauninni hafði aldrei neitt verið gert nema að skrifuð höfðu verið einhver bréf.

Ég verð að segja að á meðan svoleiðis er farið fram í þessu landi og það látið óátalið af hinu opinbera þá er þetta náttúrlega bara algjört siðleysi. Ég verð að segja að ég vona svo sannarlega að hæstv. ríkisstjórn taki nú við sér og samþykki þetta frv. sem er mjög vel gert og sniðið eftir því sem viðgengst í nágrannalöndum okkar. Ég tala nú ekki um eitt atriði í þessu sem er mjög nauðsynlegt að samþykkja og það eru einhverjar viðmiðunarreglur um hvað lögmenn eða innheimtuaðilar mega taka í innheimtukostnað á kröfu.

Alltaf er talað um skuldara sem vont fólk sem vill ekki borga skuldirnar sínar og gerir guð má vita hvað við peningana sína. En oft lendir fólk í þessari aðstöðu þegar það er í persónulegum erfiðleikum vegna veikinda, atvinnumissis eða einhvers slíks. Það tekur svo mjög langan tíma að reyna að komast út úr því öngþveiti sem myndast þegar fólk getur kannski hafið störf á ný. Það er ekki nokkru lagi líkt að hægt sé með löglegum hætti að ráðast á fólk við þessar aðstæður eins og gert er hér á landi.