Skýrsla nefndar um flutningskostnað

Fimmtudaginn 13. febrúar 2003, kl. 10:49:03 (3800)

2003-02-13 10:49:03# 128. lþ. 79.94 fundur 432#B skýrsla nefndar um flutningskostnað# (umræður utan dagskrár), ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 79. fundur, 128. lþ.

[10:49]

Þuríður Backman:

Herra forseti. Við búum í markaðsvæddu samfélagi. Öllum atvinnurekstri og stórum hluta samfélagsþjónustunnar er beint út í samkeppnisumhverfi og það væri í sjálfu sér allt í lagi ef allir sætu þá við sama borð en því miður er svo ekki. Búferlaflutningar undanfarin ár hafa verið miklir af landsbyggðinni og yfir á höfuðborgarsvæðið og helstu ástæður þessara búferlaflutninga hafa verið greindar. Ein af mörgum ástæðum er m.a. hár flutningskostnaður, á matvörum, nauðsynjavörum og í öllum framleiðslukostnaði. Skýrslan sem við erum hér að fjalla um hefur greint þróun vöruflutninga undanfarin ár og hvernig flutningskostnaðurinn hefur þróast og aukist.

Skýrslan er í sjálfu sér fróðlegt yfirlit um stöðu mála í dag og greint er frá því í skýrslunni hvernig hugsanlega er hægt að rétta hlut landsbyggðarinnar ef pólitískur vilji er til staðar. Greiningin liggur því fyrir. Það sem vantar aftur á móti, í ljósi skýrslunnar, er að koma með pólitíska yfirlýsingu um vilja til að rétta hlut landsbyggðarinnar, koma með nauðsynlegar aðgerðir til að bregðast við og því kalla ég eftir pólitískri ákvörðun. Greiningin liggur fyrir en framkvæmdina vantar.

Ég bendi sérstaklega á þá leið sem tekin er fram í skýrslunni að koma á beinum flutningsstyrkjum en eftir er þá að velja leiðir.