Tryggur lágmarkslífeyrir

Fimmtudaginn 13. febrúar 2003, kl. 15:40:46 (3854)

2003-02-13 15:40:46# 128. lþ. 79.7 fundur 225. mál: #A tryggur lágmarkslífeyrir# þál., Flm. GAK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 79. fundur, 128. lþ.

[15:40]

Flm. (Guðjón A. Kristjánsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla ekki að eyða löngum tíma í að deila um sjónarmið okkar um álagningu skatta og sérstaklega á eldri borgara og öryrkja. Ég lýsi þeirri almennu skoðun minni að ég tel að bæta eigi kjör þeirra sem lægst hafa launin og þeirra sem þurfa að lifa af bótum almannatrygginga, hvort sem menn vilja gera það með hækkun persónuafsláttar eða þeirri efnislegu tillögu sem við höfum lagt hér fram sem þáltill., sem vonandi fær þá efnislega afgreiðslu í efh.- og viðskn. eða félmn. um það hvernig þessu verði best fyrir komið. Ég tók hins vegar eftir því, eins og ég gat um fyrr í máli mínu, að á síðasta hausti tóku eldri borgarar undir þá hugsun og um það var samið við ríkið að lækka skerðinguna, að vísu ekki eins og við lögðum hana til heldur lækka hana úr 67% niður í 45%. Ég held því að það liggi alveg fyrir að menn féllust á þá kröfu frá samtökum eldri borgara og ég tel, herra forseti, að bæta þurfi kjör þeirra meira en orðið er og það væri auðvitað hægt að gera m.a. með persónuafslætti. En það er líka hægt að gera með því að draga úr jaðarskattaáhrifum þannig að fólk finni hjá sér hvöt til þess að hafa einhverjar aðrar tekjur.