Skráning skipa

Mánudaginn 17. febrúar 2003, kl. 15:29:59 (3883)

2003-02-17 15:29:59# 128. lþ. 80.17 fundur 157. mál: #A skráning skipa# (þurrleiguskráning fiskiskipa) frv. 10/2003, GAK
[prenta uppsett í dálka] 80. fundur, 128. lþ.

[15:29]

Guðjón A. Kristjánsson (frh.):

Herra forseti. Þegar þessari umræðu var frestað í síðustu viku hugðist ég leggja nokkrar spurningar fyrir annaðhvort sjútvrh. eða samgrh., og þá kannski helst báða í einu vegna þess að frv. snýr að sumu leyti að því að sjútvrh. þarf að leggja mat á ákveðna hluti til þess að þurrleiguskráningin geti átt sér stað þannig að ekki sé verið að vinna gegn hagsmunum Íslands og þar af leiðandi ekki neinir meinbugir á því að þurrleigan geti átt sér stað. Ég vitnaði til nál. 1. minni hluta samgn. í máli mínu í síðustu viku og fór yfir umsögn meiri hluta sjútvn. sem þar er og rakti hvað í henni stóð. Þar var beinlínis vikið að því hvað þyrfti að hafa til hliðsjónar til þess að útflöggun eða þurrleiga stangaðist ekki á við hagsmuni Íslands til framtíðar, í þessu tilviki hvernig íslenskt skip með tvöfalda skráningu og þar af leiðandi komið undir erlendan fána geti uppfyllt skilyrði í texta frv., t.d. 1. gr. þess, fyrir því að fara undir erlendan fána og vera með baktryggingu í íslenskri skráningu án þess að nein af þeim atriðum frv. sem hér eru upp talin skaði íslenska hagsmuni. Til upprifjunar áður en ég ber fram spurningar mínar, herra forseti, er kannski rétt að vitna örstutt í umsögn meiri hluta sjútvn. frá 14. mars árið 2002 þegar þetta mál var til umræðu á síðasta þingi. Þar segir m.a, með leyfi forseta:

[15:30]

,,Ákveði Alþingi að veita heimild í lögum til þurrleiguskráningar verður að tryggja að með því sé ekki unnið gegn heildar- og langtímahagsmunum Íslands.``

Þetta eru ein af þeim viðvörunarorðum og viðvörunarsetningum sem meiri hluti sjútvn. setti fram í umsögn sinni. Einnig kemur eftirfarandi fram:

,,Verði þetta frumvarp að lögum verður bæði auðveldara og ódýrara fyrir íslenskar útgerðir að sækja á erlend mið en nú er.``

Ég hef margspurt að því í umræðunni, herra forseti, hvaða dæmi menn leggi með sér inn í umræðuna um að þannig sé málunum fyrir komið að þetta sé miklu ódýrara og auðveldara. Ég hef beðið um að menn legðu þau dæmi á borðið í þeim umræðum sem við höfum átt um þetta mál, bæði í fyrra og núna, þannig að óyggjandi væri og ekki yrði dregið í efa að þetta væru beinir hagsmunir sem uppfylltu öll þau skilyrði sem frv. kveður á um.

Síðan segir áfram, með leyfi forseta, í umsögn meiri hluta sjútvn. frá síðasta þingi: ,,Leiða má að því líkur að kostnaður útgerðarinnar`` --- leiða má að því líkur, það hefur nefnilega aldrei verið sannað, herra forseti. Það er akkúrat það sem ég er að biðja um, að hér verði lögð fram greinileg og skýr dæmi sem menn geta þá haft með sér sem rökstuðning. Varla erum við að lögfesta þetta svona mikið út í bláinn. ,,Leiða má að því líkur að kostnaður útgerðarinnar vegna veiðanna sé minni sigli skipið undir erlendum fána og þá einkum launakostnaður því íslensk lög og íslenskar reglur og þar af leiðandi íslenskir kjarasamningar gilda ekki um þessi skip.``

Þetta er svona til upprifjunar. Svo segir hér áfram: ,,Þetta er skiljanlega áhyggjuefni íslenskra sjómanna. Hagsmunir sjómanna og heildarhagsmunir þjóðarinnar fara því saman í þessu efni og þessa hagsmuni ber að vernda.`` --- Herra forseti. Þessa hagsmuni ber að vernda, segir í umsögn frá meiri hluta sjútvn.

Ég verð að segja, herra forseti, að ég dreg mjög efa að við séum að vernda þá hagsmuni sem vikið er að í umsögninni, en undir hana skrifuðu, til upplýsingar, herra forseti, hv. eftirtaldir þm. og fulltrúar ríkisstjórnarflokkanna, Einar K. Guðfinnsson, Kristinn H. Gunnarsson, Vilhjálmur Egilsson, Helga Guðrún Jónasdóttir, Jónas Hallgrímsson og Guðmundur Hallvarðsson, með fyrirvara. Í umsögninni kemur fram að þessa hagsmuni beri að vernda, bæði heildarhagsmuni þjóðarinnar og heildarhagsmuni sjómanna, og taka verði tillit til þess þegar þessi lög verða sett.

Síðan segir áfram, með leyfi forseta: ,,Það er álit nefndarinnar, [þ.e. sjútvn. í þessu tilviki] verði frumvarpið samþykkt, að það verði að vera skýrt að þurrleiguskráning sé óheimil fari hún á einhvern hátt gegn hagsmunum Íslands og að þeir hagsmundir séu ávallt teknir fram yfir stundarhagsmuni einstakra útgerða.``

Það er alveg greinilegt eins og þetta var lagt upp og menn hafa verið að leggja áherslu á, að reynt hefur verið að færa það inn í textann, m.a. í áliti hv. samgn. þar sem lagt er til að hert verði á nokkrum liðum í frv. Brtt. eru þrjár sem voru samþykktar við 2. umr. og það er m.a. þriggja sólarhringa reglan og upplýsingar um hvar skipi er ætlað að stunda veiðar og á hvaða tegundum. Þetta á að liggja fyrir áður en skráð er, áður en við samþykkjum skráninguna, því að það virðist vera svo þegar álit meiri hluta samgn. er lesið að menn hafi ætlað sér að mæta þeim sjónarmiðum sem komu fram í umsögn sjútvn. frá því á síðasta þingi með þeim breytingum á frv. sem þeir hafa lagt til og eru núna komnar inn í lagatextann. Það er einmitt af þeim sökum, herra forseti, sem ég óskaði eftir því að annar hvor ráðherranna eða báðir yrðu viðstaddir, svo að þeir gætu svarað spurningum mínum.

Ekki er hægt að lesa annað út úr afgreiðslu nefndanna en að vilji sé til þess að í þeim efnum sem við erum hér að ræða felist það meginmarkmið í fyrsta lagi að skaða ekki íslenska hagsmuni til lengri eða skemmri tíma, að skaða ekki hagsmuni sjómanna, og raunar má lesa það út úr orðalaginu hér að menn telji að þetta séu þá störf sem Íslendingum gætu jafnvel staðið til boða. Af því tilefni öllu saman sem ég hef hér rakið svo ég fari ekki að endurtaka alla ræðu mína, herra forseti, og stytti mál mitt eins og ég frekast get vil ég bera fram eftirfarandi spurningar og vona að hæstv. samgrh. leitist við að svara þeim:

Í fyrsta lagi vil ég reyna að fá skýr svör við því hvernig hægt sé að styðja þá fullyrðingu rökum að það verði bæði ódýrara og auðveldara fyrir íslenskar útgerðir ef frv. verður að lögum. Ég er oft búinn að óska eftir slíkum dæmum í umræðunni og mér finnst að hæstv. ráðherrar eða formenn nefnda eigi að geta sagt okkur það í þessari umræðu, úr því að þeir telja að hér séu svona miklir hagsmunir í húfi, hver þessi dæmi eru. Hvar eru þau dæmi sem íslenskar útgerðir geta beinlínis farið inn í og uppfyllt þau skilyrði sem frv. og greinargerðir í nál. sem mæla með samþykkt frv. og hljóta að skoðast sem lögskýringar við frv. tryggja að gangi eftir, þ.e. að ódýrara verði fyrir útgerðirnar að gera út og þetta sé hagkvæmasta leiðin til þess?

Hvers vegna spyr ég að þessu, herra forseti? Vegna þess að ég er á þeirri skoðun að hagkvæmasta formið fyrir íslenskar útgerðir til að sækjast eftir veiðirétti hjá öðrum þjóðum sé samningar beint, að íslenska ríkið geri beina samninga við viðkomandi ríki, hvort sem um Rússland eða önnur ríki væri að ræða, þar sem það væri beint fyrir forgöngu íslenskra stjórnvalda samið um það að Íslendingar hefðu aðgang að því að sækjast í aflaheimildir sem almennt standa til boða fyrir skip annarra þjóða. Því miður hefur það ekki verið gert af hálfu íslenskra stjórnvalda, að sækjast eftir beinum samningum. Við höfum samið beint við Norðmenn og Rússa um veiðar í Smugunni, réttara sagt uppi í Barentshafi, út á veiðireynsluna sem við öfluðum okkur í Smugunni og erum að veiða þann botnfisk innan norskrar og rússneskrar lögsögu. En ég spyr, herra forseti, hvers vegna menn hafa ekki, úr því að þeir telja sig vita að mikið sé af lausum kvótum sem hægt sé að nálgast, hvers vegna íslenska ríkið hafi þá ekki leitað eftir beinum samningum sem hlýtur að vera ódýrasta formið fyrir íslenskar útgerðir að sækja í. Ekki er þessi veiðiréttur ókeypis, herra forseti. Ég þykist vita að hvort sem við erum að sækjast í veiðirétt sem Pólland, Lettland, Litháen, Rússland eða önnur ríki eiga sé hann ekki ókeypis. Það þarf að greiða fyrir aðganginn og ég sé ekki, ef menn sætta sig við greiðsluna fyrir aðganginn, hvers vegna íslenska ríkið getur ekki samið um slíka samninga beint þannig að við þurfum ekki að fara þær leiðir sem hér eru lagðar til.

Í annan stað spyr ég hæstv. ráðherra hvort veiðireynslan í Norður-Atlantshafi, því að hér hafa einkum verið nefnd dæmi um það --- ég man eftir einu dæmi sem var nefnt af hv. frsm. Hjálmari Árnasyni um að við hefðum hugsanlega misst af einhverjum samningi sem eitt færeyskt skip hefði getað sinnt á síðasta ári, sem hefði getað staðið okkur til boða. En ég spyr hvort veiðireynslan í Norður-Atlantshafi sem aflað er undir fána erlendra þjóða muni ekki ævinlega teljast veiðireynsla sem ekki þjónar hagsmunum okkar á þessu hafsvæði vegna þess að ef svo er, eins og ég geri ráð fyrir að menn viti almennt, að þjóðir veiða ekki réttindi sín árum saman og á það jafnt við um okkur Íslendinga, ef við fullnýtum ekki heimildir okkar innan lögsögunnar, þá getur komið upp sú staða í alþjóðasamningum og byggð á hafréttarsamningnum m.a. að önnur ríki eigi rétt til þeirrar veiðiheimildar, eigi rétt til að nálgast þær veiðiheimildir. Þess vegna spyr ég, herra forseti, hvort einhver dæmi séu um það sem hægt er að nefna hér að ef við færum undir fána með tvískráningu og þurrleigu erlends ríkis værum við í raun og veru ekki að skaða framtíðarhagsmuni Íslands, eins og frv. segir til um, vegna þess að við værum þá að tryggja veiðireynslu einhverra annarra ríkja. Svo lengi sem þjóðum sem ekki hafa notað veiðirétt sinn er tryggður slíkur réttur með veiðum annarra skipa undir þeirra fána, er verið að viðhalda veiðirétti þeirra. Þetta þekkja menn auðvitað af Flæmingjagrunninu þar sem Íslendingar hafa verið að veiða undir fána fjölda ríkja og í rauninni verið að tryggja þeim veiðirétt út á veiðimunstur sitt.

[15:45]

Herra forseti. Ég spyr: Hvaða dæmi er hægt að nefna um að slíkir samningar vinni ekki gegn heildarhagsmunum okkar til skamms tíma eða til langs tíma litið því það er beinlínis vikið að þessu í frv. og greinargerðunum?

Í fjórða lagi, herra forseti, vil ég spyrja hæstv. samgrh.: Þar sem sagt er að aðalávinningur íslenskra útgerða felist í því að íslenskir sjómenn geti gegnt þessum störfum þá vil ég spyrja hvort hæstv. samgrh. líti svo á að í felist því mikill ávinningur fyrir íslenska sjómenn að sækjast eftir störfum þar sem launin eru allt að því helmingi lægri en samkvæmt núverandi kjarasamningum --- allt að því, segi ég.

Ég held að maður geti skoðað þessi dæmi. Menn vita jú nokk hvaða kjarasamningar gilda á rússneskum skipum og menn þekkja baráttu Norðmanna fyrir því að tryggja áhöfnum á rússneskum skipum sem landa afla í Noregi ,,raunverulega samninga`` eða lágmarkskjör, ef það er hægt að orða það þannig. Norðmenn hafa lýst því yfir, þ.e. sjómannasamtökin þar, að þau mundu beita sér fyrir því að hætt yrði að þjónusta þessi skip að öllu leyti og fá verkalýðshreyfinguna í Noregi með sér í það, ef ekki yrði samið um lágmarkskjör fyrir rússneska sjómenn. Telja menn að íslenskir sjómenn eigi að sækjast eftir þessu og telja þeir að í því felist ávinningur? Á að líta svo á, herra forseti, að það sé ávinningur íslenskra sjómanna að lækka um helming í kjörum? Þetta á auðvitað líka við ef við værum að fara inn á lettneska eða litháíska samninga sem eru tiltölulega mjög lágir. Þetta er sem sagt spurning um það hvort menn telji almennt ávinning felast í þessu. Það má lesa út úr greinargerðum og heyra í ræðum sem hér hafa verið fluttar að íslenskir sjómenn hagnist í þessum störfum og að þetta þjóni ekki bara íslenskum útgerðum.

Þá kemur að því sem mér finnst skína út úr og segir beinlínis í umsögn sjútvn, þ.e. að hagsmunir sjómanna skuli tryggðir og að þeir fari saman við heildarhagsmuni þjóðarinnar að þessu leyti. Þess vegna spyr ég að lokum, herra forseti: Telur hæstv. samgrh. að hægt sé að leggja einhver dæmi inn í þessa umræðu um að íslenskir sjómenn og heildarhagsmunir þjóðarinnar fari svo vel saman að öll ákvæði þessa frv. sem við erum að ræða verði uppfyllt? Þau eru auðvitað fjölmörg. Ég vil ekki að tefja umræðuna með því að rifja þau upp. Þau birtast í 1. gr. frv. í mörgum liðum og kveða skýrt á um hvaða skilyrði þurfi að uppfylla svo hægt sé að fara undir þurrleigufána.

Ég fæ ekki séð, herra forseti, og þessar spurningar mínar lúta auðvitað að því, að þeir hagsmunir sem við virðumst vilja tryggja miðað við textann sem í frv. er, með þessari lagasetningu, fái nokkurs staðar staðist. Þess vegna spyr ég þessara spurninga og bið nú um það í lok umræðunnar að hæstv. ráðherra leggi dæmin með sér þannig að við höfum efnislega rökræðu um málið.