Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 17. febrúar 2003, kl. 16:39:47 (3901)

2003-02-17 16:39:47# 128. lþ. 80.20 fundur 602. mál: #A stjórn fiskveiða# (meðafli) frv. 75/2003, GAK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 80. fundur, 128. lþ.

[16:39]

Guðjón A. Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka svörin. Það er alveg rétt hjá hæstv. ráðherra sjávarútvegsmála að í þessum skipum má leysa hluta af þessu vandamáli með skiljum, þ.e. ef meðaflinn er af þeirri stærð að hann skiljist frá síldinni eða loðnunni. Seiðin gera það auðvitað ekki og ekki smærri fiskur. En menn sæju þá alla vega hvað kæmi af stærri nýtanlegum fiski með í veiðarfæri skipa. Ég held að rétt væri að huga sem fyrst að því að taka á því máli með þeim hætti. Við erum ekki að ræða hér um neinar smáfleytur. Flestöll skip sem stunda togveiðar eru stór og öflug. Í þeim er mikið pláss og ekki ætti að vera til trafala að koma slíkum búnaði fyrir í skiljunum og síðan þá einhvern rennubúnað til þess að fleyta þeim fiski frá þannig að hægt væri að halda honum sér og nýta hann. Það er jú afar léleg nýting á bolfiski að landa honum með öðrum afla til bræðslu. Það eru nú reyndar nokkur ár, held ég, síðan menn hafa stundað þær veiðar að vera með bolfisk til bræðslu. Þess vegna væri það æskilegt. Ég held að kortleggja þurfi þetta vandamál. Það er þekkt, eins og ráðherrann vék hér að. Í hversu miklum mæli þekki ég ekki nákvæmlega. En maður hefur auðvitað heyrt þessar sögur frá sjómönnum, að stundum gerist þetta, og æskilegt er að menn séu jafnir fyrir lögum að þessu leyti varðandi meðafla.