Framboð á leiguhúsnæði

Þriðjudaginn 18. febrúar 2003, kl. 15:02:17 (3932)

2003-02-18 15:02:17# 128. lþ. 81.17 fundur 512. mál: #A framboð á leiguhúsnæði# þál., ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur, 128. lþ.

[15:02]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Þessir hlutir taka allt of langan tíma. Ég tek undir það með hv. þm. Fólk sem er í biðröðum eftir húsnæði sættir sig ekki við aðgerðarleysi. Ágreiningur hefur verið innan ríkisstjórnarinnar um hvaða áherslur eigi að vera uppi. Annars vegar voru þeir sem vildu styðja félagslegt húsnæði með lágum vöxtum og hins vegar hinir sem vildu stofnstyrki, að til kæmu stofnstyrkir til félagslegra aðila. Hvorug leiðin hefur verið farin þannig að við stöndum frammi fyrir aðgerðarleysi stjórnvalda.

Það er alveg rétt rifjað upp hjá hv. þm. að eftir að hugmyndir voru reifaðar um aðkomu lífeyrissjóðanna --- og ég ætla nú í fullri hógværð að nefna að það var ég sem setti það fram upphaflega á fundi hjá Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði, auk þess sem þetta hefur verið rætt í verkalýðshreyfingunni, ekki síst hjá BSRB --- þá fór í gang ákveðin umræða. En staðreyndin er sú að vaxtakjörin sem lífeyrissjóðirnir bjóða upp á eru of há. Það verður að halda þessum vöxtum í lágmarki. Ég segi að vextir, raunávöxtun í slíkum lánum má alls ekki undir nokkrum kringumstæðum fara yfir 4% og þyrfti í raun að vera enn lægri. Hins vegar hafa lífeyrissjóðirnir ekki treyst sér til að bjóða slík kjör.