Framboð á leiguhúsnæði

Þriðjudaginn 18. febrúar 2003, kl. 15:22:32 (3940)

2003-02-18 15:22:32# 128. lþ. 81.17 fundur 512. mál: #A framboð á leiguhúsnæði# þál., ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur, 128. lþ.

[15:22]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Menn skulu ekki tala af léttúð um prósentustigin í húsnæðiskerfinu. Hvert prósentustig vegur æðiþungt þegar milljónirnar eru orðnar margar. Þegar þær eru t.d. orðnar 10 erum við að tala um hvert prósentustig upp á 100 þús. kr. Og 3,5% vextir, þegar milljónirnar eru 10, eru 350 þús. kr. á ári. Það sem byggingaraðilarnir sem sjá fyrir félagslegu leiguhúsnæði segja er að þessi vaxtakostnaður sé óheyrilega mikill. Við skulum ekki gleyma því heldur að við erum ekki að tala um þessa tölu eina því hér erum við að tala um raunávöxtun, vexti ofan á verðbólgu. Og nú er það náttúrlega háð því hvernig fyrirtækjunum vegnar í ólgusjó efnahagslífsins hvort þau halda í við verðbólguna. En við erum að tala um verðbólgu og svo þennan vaxtakostnað ofan á verðbólguna.

Þegar lífeyrissjóðirnir eru annars vegar er staðreyndin sú að þeim var með lögum sem samþykkt voru á Alþingi árið 1996 búinn mjög strangur rammi, því miður, illu heilli. Þá var þeim gert lögum samkvæmt að fjárfesta jafnan þar sem ávöxtun væri mest, þar sem vextirnir væru mestir, að því tilskildu að vísu að um trygga ávöxtun væri að ræða. Þeir eiga lögum samkvæmt alltaf að sækja eftir hámarksávöxtun. Er þetta gott? Er þetta ekki til góðs fyrir lífeyrisþegana sem eiga aðild að sjóðnum? Nei, ekki endilega. Þegar dæmið er gert upp byggja lífeyrissjóðirnir endanlega afkomu sína á því efnahagsumhverfi sem þeir eru sprottnir úr. Þeir eru núna í ríkara mæli en áður farnir að fjárfesta í fyrirtækjum, í verðbréfum, einfaldlega vegna þess að hið opinbera vill ekki kaupa af þeim fjármagnið, er að reyna að losa sig við allar skuldir og vill ekki koma að neinu félagslegu átaki í samfélaginu, þar á meðal uppbyggingu húsnæðiskerfisins. Þá leita lífeyrissjóðirnir út í efnahagslífið til fjárfestinga og ef þeir í græðgi sinni reisa mjög háar vaxtakröfur eru þeir jafnframt að reisa mjög háar kröfur á því sama efnahagslífi og þeir eiga síðan allt sitt undir komið að vegni vel. Þetta er nú bara samhengi hlutanna. Þess vegna ættu það að vera hagsmunir lífeyrissjóðanna að halda vöxtum hófstilltum í samfélaginu almennt þannig að þeir spenni ekki bogann of hátt fyrir fyrirtækin og heimilin sem síðan leita á þeirra náðir eftir fjármagni. Mér finnst á síðustu árum að lífeyrissjóðirnir hafi ekki kunnað sér hóf í þessu efni. Hins vegar er eðlilegt og sjálfsagt og nauðsynlegt að lífeyrissjóðirnir tryggi það fjármagn sem þeim er treyst fyrir.

Ég held að þessar tillögur sem hér eru og sem ég hef talað fyrir fyrir hönd Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs og fyrir hönd verkalýðshreyfingarinnar um sameiginlegt átak lífeyrissjóða og hins opinbera til að endurreisa hér félagslegt húsnæðiskerfi í breyttri mynd frá því sem það áður var séu til góðs fyrir alla aðila, líka lífeyrissjóðina.

Ég vék að tillögum sem fram hafa komið frá BSRB. Þær voru settar fram um miðjan nóvember og ríma mjög við það sem hér hefur verið sagt og mjög við það sem Vinstri hreyfingin -- grænt framboð hefur lagt áherslu á í málflutningi sínum, nú nýlega á mjög fróðlegri ráðstefnu sem flokkurinn efndi til um velferðarmál ekki alls fyrir löngu þar sem húsnæðismálin komu mjög við sögu. Þar er tónninn sá að það eigi að reyna að samræma stuðninginn á milli þeirra sem annars vegar kaupa húsnæði og hins vegar hinna sem leigja það, eins konar húsnæðisbótakerfi. Um það hefur verið fjallað af okkar hálfu í alllangan tíma. Síðan gerir BSRB ráð fyrir því að lífeyrissjóðirnir taki um það skuldbindandi ákvörðun að tryggja með kaupum á húsbréfum að afföllum verði haldið í lágmarki. Þetta er lykilatriði sem ég vék að áðan og ætla ekki að eyða fleiri orðum að núna. Lífeyrissjóðirnir sjái félagslegum byggingaraðilum fyrir lánsfjármagni með 4% raunávöxtun að hámarki að því tilskildu að ríkið gangist í ábyrgð fyrir lánin. Hér eru nefnd 4% en eins og ég gat um áðan er það of hátt hlutfall fyrir félagslega aðila til að byggja afkomu sína á og sjá fólki fyrir skaplegri leigu. Aðrir þættir þurfa einnig að koma inn og þar kæmi stuðningurinn við leigjandann í húsnæðisbótum annars vegar og hins vegar í stofnstyrkjum frá hinu opinbera til félagslegra aðila.

Hér er nefnt að sveitarfélög tryggi nægjanlegt framboð af lóðum til félagslegra byggingaraðila og kanni með hvaða hætti unnt sé að greiða fyrir hraðvirkum framkvæmdum. Sveitarfélög veiti byggingaraðilum sem reisa leiguhúsnæði á félagslegum forsendum tímabundinn afslátt á gjöldum til sveitarfélagsins. Í síðasta liðnum í þessari tillögusmíð BSRB sem kynnt var um miðjan nóvembermánuð segir, með leyfi forseta:

,,Þar sem biðlistar eru eftir leiguhúsnæði hafi viðkomandi sveitarfélög frumkvæði að því að reisa eða kaupa húsnæði til útleigu í samræmi við lagaskyldu sveitarfélaganna.``

Þetta er náttúrlega grundvallaratriði, að sveitarfélögin gleymi því ekki að þau hafa þarna lagalega skyldu. Þau hafa lagalega skyldu til að sjá fólki fyrir húsnæði. Hér á enginn að vera án húsnæðis þannig að húsnæði á að sjálfsögðu að vera í forgangsröð hvers sveitarfélags ef fólk býr við þær aðstæður sem eru hér víða á suðvesturhorninu.

Ég verð að segja það, herra forseti, að ég hefði kosið að hluta af því fjármagni sem hér hefur verið ráðstafað til vegagerðar í tillögum ríkisstjórnarinnar nýlega hefði verið veitt inn í húsnæðiskerfið, t.d. í stofnstyrki til félagslegra aðila til að reisa félagslegt leiguhúsnæði. Það hefði komið að gagni varðandi þau markmið að tryggja atvinnu og slá á atvinnuleysið en hefði, held ég, verið skynsamlegri ráðstöfun, a.m.k. hefði það átt að vera inni í þeirri blöndu sem þessu fjármagni var ráðstafað til.