Milliliðalaust lýðræði

Þriðjudaginn 18. febrúar 2003, kl. 16:42:46 (3953)

2003-02-18 16:42:46# 128. lþ. 81.20 fundur 577. mál: #A milliliðalaust lýðræði# þál., KolH
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur, 128. lþ.

[16:42]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Herra forseti. Við ræðum merkilega till. til þál. um milliliðalaust lýðræði og ég hleyp hingað í ræðustól til að láta í ljósi skoðanir mínar á henni. Þær eru í stórum dráttum þær að ég styð málið og ég sé ástæðu til þess að koma hingað og gefa þá yfirlýsingu, vegna þess að ég hef flutt á þessu þingi tillögur um þjóðaratkvæðagreiðslu í ákveðnum málum. Fyrir réttu ári ræddum við tillögu mína um þjóðaratkvæðagreiðslu um Kárahnjúkavirkjun og þá var nú tekist á um hana milli þingflokkanna, ekki var einhugur í því máli eins og menn eflaust muna. Meðal þess sem fram kom í þeirri umræðu var að hv. þm. Össur Skarphéðinsson, formaður Samfylkingarinnar, taldi ástæðu til að taka það fram að ég hefði aldrei tjáð mig í þeim málum sem Samfylkingin hefði flutt sem lytu að þjóðaratkvæðagreiðslu, þannig að ég sé virkilega ástæðu til þess að koma hér og undirstrika skoðun mína. Ég stend við bakið á hugmyndum um milliliðalaust lýðræði, enda hef ég verið ötull talsmaður fyrir sjálfbærri þróun eins og þingmönnum sem sitja hér í þessum sal er auðvitað kunnugt. Einn af hornsteinum sjálfbærrar þróunar á Íslandi er Ólafsvíkuryfirlýsingin sem byggir á yfirlýsingum Ríó-ráðstefnunnar 1992. Í Ólafsvíkuryfirlýsingunni er getið um milliliðalaust lýðræði, íbúalýðræði, á þeim nótum sem hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson lýsti vel í ræðu sinni áðan.

Til að taka af allan vafa þá stend ég heil og óskipt á bak við hugmyndir um milliliðalaust lýðræði, tel að við eigum að nota öll tækifæri sem gefast til þess að þróa það og tel reyndar að við höfum gert margt gott í þeim málum og vil nefna íbúaþingin sem hafa verið haldin á Íslandi í skipulagsmálum síðustu árin. Þar hefur verið að ryðja sér til rúms aðferð sem virkilega er að skila árangri. Hér er verið að brjóta í blað í sögunni að mínu mati og ég tel að við séu á góðri leið í þessum efnum.

Síðan vil ég taka fram að lokum að þjóðin er auðvitað hlynnt því að milliliðalaust lýðræði sé stundað hér á Íslandi. Við höfum fyrir örfáum dögum fengið niðurstöðu könnunar um skoðun þjóðarinnar á þessum málum. Þar var spurt á vegum Gallups í nafni Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs hvort þjóðin væri hlynnt milliliðalausu lýðræði, þ.e. þjóðaratkvæðagreiðslu um mikilvægustu mál þjóðarinnar og þjóðin svaraði afdráttarlaust: 79% þjóðarinnar sögðust vera hlynnt þjóðaratkvæðagreiðslum um mikilvægustu mál þjóðarinnar.

Ég hef þá komið hér, herra forseti, og lýst stuðningi við þær hugmyndir sem lýst er í þessari þáltill. og vona sannarlega að okkur takist að þróa milliliðalaust lýðræði hratt og vel í nánastu framtíð.