Stofnun framhaldsskóla á Snæfellsnesi

Miðvikudaginn 19. febrúar 2003, kl. 13:58:32 (3994)

2003-02-19 13:58:32# 128. lþ. 83.1 fundur 505. mál: #A stofnun framhaldsskóla á Snæfellsnesi# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., menntmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 83. fundur, 128. lþ.

[13:58]

Menntamálaráðherra (Tómas Ingi Olrich):

Herra forseti. Ég þakka þessar umræður. Það er alveg ástæða til þess hér að árétta þann málflutning samgrh. og hv. þm. Sigríðar Önnu Þórðardóttur að það er góður undirbúningur heimamanna sem er í raun og veru grundvöllurinn að þessari ákvörðun. Þar sem hér er um að ræða landsvæði þar sem við vitum að bakland skólans verður á mörkunum er um að gera að vanda sem best allan undirbúninginn og standa vel að því þegar skólinn verður stofnaður.

Ég mun því snúa mér fyrst og fremst til heimamanna með hugmyndir um það hvernig að þessu verður staðið og við munum nýta alla þá tækni sem þarf til þess að reyna að gera þennan skóla eins öflugan og hægt er.

Það er reyndar ekki rétt sem hér kom fram að það hefði skort pólitískan vilja til að taka á þessu máli. Það er hins vegar ljóst að ég taldi það forgangsverkefni við fjárlagagerð ársins í ár að tryggja stöðu verkmenntaskólanna betur en gert var og þess vegna var aðaláherslan lögð á þann þáttinn. Ég gaf hins vegar í skyn við heimamenn á Snæfellsnesi að ég mundi beita mér í þessu máli til að þoka því áfram og eins og menn hafa séð hef ég staðið við þau fyrirheit og málinu verður komið í höfn.