Sérhæfing fjölbrautaskóla

Miðvikudaginn 19. febrúar 2003, kl. 14:25:23 (4007)

2003-02-19 14:25:23# 128. lþ. 83.3 fundur 533. mál: #A sérhæfing fjölbrautaskóla# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., menntmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 83. fundur, 128. lþ.

[14:25]

Menntamálaráðherra (Tómas Ingi Olrich):

Herra forseti. Byggðavandinn sem Íslendingar hafa glímt við er mun flóknara vandamál en svo að hann verði leystur með því að efla til muna aðgang fólksins í landinu að menntun. Eins og ég hef sagt áður þá skortir það ekki hér á Íslandi. Við höfum gengið lengra en aðrar þjóðir í þessum efnum og það er það sem hefur styrkt byggðirnar í þessari baráttu. Byggðavandinn er mjög flókið samspil þátta sem tengist menningarlífi, tengist atvinnuháttum og tengist breytingum í þjóðfélaginu sem hafa leitt til meiri sérhæfingar og það er alveg ástæðulaust að ætla sér að reyna að glíma við þennan vanda með því að einfalda málið um of.

Það er hárrétt sem hefur komið fram í þessari umræðu að menntamálin eru undirstaða í byggðamálum og við höfum gengið mjög langt í þessum efnum og við erum nú --- það hefur komið fram í þessari umræðu hér í dag --- að stíga enn frekari skref í þessa veru. Við höfum líka gengið mjög langt í því að flytja háskólamenntun til hinna dreifðu byggða og það hefur líka styrkt hinar dreifðu byggðir. Í þessum efnum erum við því á réttri braut.

Ég vil taka fram að ég er ánægður með að finna þann skilning sem ríkir á Alþingi á því hversu mikilvæg undirstaða byggðastefnu menntamálin eru. Ég held að við eigum að vinna á þeim grundvelli að tengja saman betur en verið hefur menntamálin og byggðamálin. Ég hef átt mjög gagnlegar viðræður við ráðherra byggðamála um þessi mál og við höfum náð saman um sameiginlegan skilning á þessu og munum starfa saman í þeim anda nú í framtíðinni fram að kosningum og hugsanlega jafnvel eftir kosningar.