Geðheilbrigðisþjónusta fyrir börn og unglinga

Miðvikudaginn 26. febrúar 2003, kl. 10:44:37 (4047)

2003-02-26 10:44:37# 128. lþ. 84.91 fundur 442#B geðheilbrigðisþjónusta fyrir börn og unglinga# (aths. um störf þingsins), RG
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 128. lþ.

[10:44]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Það sem við erum að vekja athygli á í upphafi þingfundar er að þetta mál er ekki nýtt. Vandinn var ekki að verða til núna um áramótin. Það var gífurlegur vandi 1998 þegar geðstefnunefndin var sett á laggirnar. Það var enn þá meiri vandi 1999 eftir að við höfðum hækkað sjálfræðisaldurinn og það var einmitt vandi varðandi börn sem höfðu ánetjast fíkniefnum. Þess vegna var gerður þjónustusamningur um bráðarými og afeitrunarrými á barna- og unglingageðdeild og þess vegna runnu peningar frá félagsmálunum til heilbrigðismála til að taka á því varðandi aldurinn 16--18 ára.

Strax í sumar, í júní, var verið að skrifa greinar. Yfirlæknir barna- og unglingageðdeildar skrifaði þá mjög harðorða grein í Morgunblaðið vegna þessara mála og vegna þess að fjármagnið sem átti að renna frá félagsmálunum til þjónustu við unglinga, ekki síst þeirra unglinga sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon nefndi hér, unglinga sem bæði áttu í geðrænum vandamálum og fíkniefnaneyslu, gerði það ekki. Yfirlýsing birtist í Morgunblaðinu frá stjórn Læknafélags Íslands í framhaldi um rétt lækna til að tjá sig um þróun heilbrigðisþjónustunnar og brotalamir á henni hvort sem er á eigin vinnustað eða annars staðar og að hann eigi að vera óheftur. Og vegna hvers var þessi yfirlýsing? Það var vegna viðbragðanna við grein yfirlæknisins, Ólafs Ó. Guðmundssonar, sem bar börnin og unglingana fyrir brjósti. Það er þess vegna sem ég vek athygli á þessu máli, virðulegi forseti, ekki vegna þess að svar heilbrrh., sem kemur í dag, sé ekki komið eða að ég telji að það verði fullnægjandi, heldur hins að vandinn er búinn að vera viðvarandi a.m.k. frá 1998. Hann er ekki leystur og lausnin snýst um peninga.