Álverksmiðja í Reyðarfirði

Miðvikudaginn 26. febrúar 2003, kl. 13:31:00 (4068)

2003-02-26 13:31:00# 128. lþ. 84.1 fundur 509. mál: #A álverksmiðja í Reyðarfirði# frv. 12/2003, ÖS
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 128. lþ.

[13:31]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Ég vil í upphafi segja að þó að við fulltrúar Samfylkingarinnar í þeim nefndum sem hafa fjallað um þetta mál gerum athugasemdir, lítilvægar, við einstök atriði í því frv. sem hér liggur fyrir er alveg ljóst að meginniðurstaðan er sú að Samfylkingin styður þetta mál. Fulltrúar Samfylkingarinnar hafa farið vel og rækilega yfir áhrif álvers í Reyðarfirði, ekki síst efnahagsáhrifin á þjóðarbúið almennt, og það er niðurstaða okkar að til langs tíma muni bæði álverið og ekki síður bygging orkumannvirkja við Kárahnjúka hafa mjög afdráttarlaus jákvæð áhrif á hagkerfið allt. Þetta mun bæta og styrkja atvinnustigið, ekki síst á Austurlandi, það mun auka hagvöxt og styrkja útflutning. Við getum þó ekki horft fram hjá því, herra forseti, að til skamms tíma getur verkefnið að einhverju marki haft neikvæð áhrif á efnahagslífið sem birtist í hærra raungengi og hærri vöxtum en ella.

Þess vegna vill Samfylkingin undirstrika að af mikilli festu verði gripið til réttra mótvægisaðgerða til þess að skapa verkefninu rými í hagkerfinu þannig að ekki komi til þess að of mörgum lítt framleiðnum störfum verði rutt burt úr hagkerfinu.

Herra forseti. Við teljum að hægt sé að sporna gegn ofþenslu og ofrisi í efnhagslífinu með réttum mótvægisaðgerðum. Við teljum hins vegar að það sé algjört úrslitaatriði þegar gripið er til slíkra aðgerða að saman fari mjög náið samráð við stjórn peninga- og ríkisfjármála, ekki síst að sú ríkisstjórn sem situr að völdum þegar framkvæmdirnar verða í hámarki hafi styrk og festu til þess að grípa til þeirra aðgerða sem þarf, m.a. að hafa bakfisk til þess að ráðast í það að fresta framkvæmdum ríkisins um einhver ár ef þörf þykir.

Í þessu sambandi, herra forseti, vil ég líka vegna þeirrar umræðu sem fram hefur farið um skattalækkanir, bæði af hálfu stjórnarandstöðu og ríkisstjórnarinnar, vara við andvaraleysi. Við verðum að læra af reynslunni, herra forseti, við verðum að koma í veg fyrir það að menn grípi til óhóflegra skattalækkana í aðdraganda þensluskeiðs sem kunni að leiða til þess að víxlverkanir skapist sem gætu leitt til þess að ofþensla og ofhitnun hlypi í efnahagslífið.

Þetta frv., herra forseti, sem hér liggur fyrir fjallar þó ekki um Kárahnjúka. Það fjallar fyrst og fremst um skattalegar breytingar sem þarf að gera gagnvart Alcoa. Nú er það svo, herra forseti, að í fylgiskjali sem fylgir áliti okkar samfylkingarmanna er birtur samanburður á því skattalega umhverfi sem hefur verið skapað gagnvart Ísal, Alcoa með þessu frv., lögum um Norðurál og síðan verður tekinn inn í þetta samanburður á almennum íslenskum lögum.

Fram kemur, herra forseti, að um er að ræða veruleg frávik og undanþágur frá almennu íslensku skattumhverfi sem hefur verið skapað gagnvart þessum stórfyrirtækjum. Þetta yfirlit sýnir líka að verulegt innbyrðis ósamræmi er milli þeirra þriggja stóriðjufyrirtækja sem hér voru nefnd. Alvarlegast birtist þetta misræmi gagnvart tekjuskattsgreiðslum. Þar kemur t.d. fram að Alcoa á að njóta þess ef tekjuskattur verður lægri en 18% á þeim degi sem afhending raforku fer fram að fullu en tekjuskattshlutfallið skal þó aldrei vera hærra en 18%.

Nú er það svo, herra forseti, að ég hef engan hug á því né félagar mínir í Samfylkingunni að hækka tekjuskatt á fyrirtæki nokkru sinni. Ég tel að úr því sem komið er eigi að hafa það óbreytt með því móti sem nú gildir. Aftur á móti sjáum við þegar horft er á skattaákvæði varðandi Ísal að þeir greiða 33% í tekjuskatt. Hjá Norðuráli getur skatthlutfallið aldrei orðið hærra en 33% en Norðurálsmenn geta hins vegar krafist þess að breytingar verði gerðar á skattgreiðslum þeirra ef almennar breytingar verða á tekju- og eignarskattslögum.

Ég nefni þessi þrjú dæmi, herra forseti, til að sýna fram á að verulegt misræmi er í skattgreiðslum þessara þriggja stóriðjufyrirtækja. Við í Samfylkingunni teljum að það sé fyllilega réttlætanlegt að gera ákveðnar breytingar á skattalögum til þess að laða framleiðna stóriðju til landsins. Hins vegar væri það æskilegt að í framtíðinni giltu hér almennar reglur til þess að láta slík fyrirtæki njóta frávika frá almennum skattareglum. Í framtíðinni væri auðvitað æskilegast að sem minnst misræmi væri á milli þeirra leikreglna sem gilda um stóriðjufyrirtæki og önnur fyrirtæki í landinu.

Eitt vil ég nefna sérstaklega, herra forseti, sem kemur fram í frv. sem ég og við í Samfylkingunni hefðum gjarnan viljað sjá töluvert öðruvísi. Við teljum að erfitt sé að sættast við þau frávik sem koma fram í greiðslu stimpilgjalda á stóriðjufyrirtækin annars vegar og íslensk fyrirtæki hins vegar. Við teljum líka að í þessu samhengi sé rétt að fram komi að það hafi verið alvarleg mistök hjá ríkisstjórninni að hafa fallið frá lækkun stimpilgjalds á innlend fyrirtæki sem átti að koma til framkvæmda um síðustu áramót á sama tíma og ríkisstjórnin býður Alcoa verulega lækkun á stimpilgjöldum.

Ég tek það fram til að forðast misskilning, herra forseti, að Samfylkingin er þeirrar skoðunar að það eigi að leggja stimpilgjöld af að fullu. Við teljum að það sé dálítið skrýtið að stigið er skref í þá átt varðandi stóriðjuna en hins vegar féll ríkisstjórnin frá fyrirhuguðum stimpilgjaldalækkunum þegar hún beitti sér fyrir almennum breytingum á skattalögum hér fyrir tiltölulega skömmum tíma.

Annað vil ég líka nefna sem Samfylkingin er á móti í þessu frv. Við teljum að það sé fráleitt að útiloka, eins og er gert í 6. gr. frv., að sett verði sérstakt gjald á útblástur skaðlegra lofttegunda eða aðra losun úrgangs frá þessu álveri. Ég hef engan áhuga á því að leggja sérstakt umhverfisgjald á Alcoa eitt og sér en ég tel að í framtíðinni kunni mál að skipast með þeim hætti að nauðsynlegt verði og réttlætanlegt að setja sérstakt umhverfisgjald á stórfellda notendur orku eins og stóriðjufyrirtækin í landinu og þá verður að vera mögulegt að gera það. Ég hygg að þegar kemur fram um miðbik þessarar aldar verði málum þannig skipað víða í heiminum að beitt sé markaðslausnum til þess að reyna að koma í veg fyrir of mikla losun skaðlegra lofttegunda eins og CO2. Þá tel ég að með því ákvæði, eins og það hefur verið sett inn í þessi heimildarlög, verði mjög erfitt að koma slíku gjaldi við gagnvart Alcoa og þar af leiðir að ókleift verður að koma því við gagnvart öðrum stóriðjufyrirtækjum á Íslandi vegna þess að jafnræðis verður að sjálfsögðu að gæta milli þeirra fyrirtækja. Þetta tel ég, herra forseti, vera stærsta ágallann á því frv. sem hér liggur fyrir.

Þrátt fyrir að ég hafi gagnrýnt einkum tvo þætti, hina skattalegu þætti í samningnum, og vikið að því að um tímabundin neikvæð áhrif gæti orðið að ræða er það afdráttarlaus skoðun okkar í Samfylkingunni að hin jákvæðu efnahagsáhrif sem verða til langs tíma muni vega þetta upp, þau muni tryggja aukinn hagvöxt og bætt atvinnuástand. Það er út frá því, herra forseti, sem Samfylkingin styður frv. í heild sinni þó að hún sé ákaflega óhress með þá tvo þætti sem ég hef nefnt.

Þegar við skoðum þessar framkvæmdir, álver á Reyðarfirði og virkjun við Kárahnjúka, blasir það við að um er að ræða einhverjar umfangsmestu framkvæmdir sem hafa orðið í Íslandssögunni. Eins og ég hef þegar rakið tel ég að ef þær framkvæmdir eru skoðaðar af sjónarhóli hreinna efnahagsáhrifa hnígi flest ef ekki öll rök að því að til langs tíma hafi þessar framkvæmdir jákvæð áhrif á hagkerfið. Þegar starfræksla álversins hefst eykst framleiðslugeta þjóðarbúsins og framleiðsla til útflutnings mun aukast líka. Við höfum reynslu af því úr hagsögu íslensku þjóðarinnar að ef horft er til langs tíma eru alla jafna sterk jákvæð tengsl á milli útflutningstekna og þjóðartekna. Aukning á útflutningi af völdum álversins mun því efla þjóðartekjur. Fjmrn. hefur reynt að meta þessi áhrif og niðurstaða þess er að framkvæmdir vegna álversins og vegna virkjunar við Kárahnjúka muni til lengdar auka þjóðarframleiðslu um 0,75%.

Eigi að síður, herra forseti, er ekki hægt að horfa fram hjá því að til skamms tíma geta efnahagsleg áhrif framkvæmdanna haft neikvæð áhrif á fyrirtæki í útflutningi og þá er ég fyrst og fremst að tala um útflutning sem er næmur fyrir hækkun gengis og vaxta. Í umhverfi þar sem gengið er hátt og flest bendir til þess að það fari hækkandi samfara háum vöxtum hygg ég, herra forseti, að sprettumöguleikar nýgræðings í atvinnulífinu séu ekki miklir. Þetta verðum við að hafa í huga þegar heildaráhrif framkvæmdarinnar eru metin. Þess vegna legg ég mikla áherslu á það, og við fulltrúar Samfylkingarinnar, að í aðdraganda þessara framkvæmda sé hugað að réttum mótvægisaðgerðum sem skapa framkvæmdunum heppilegt rými þannig að þær ryðji ekki úr vegi of miklu af starfsemi sem er ekki eins framleiðin og stóriðjan.

Við höfum horft nú þegar á ákveðnar afleiðingar af hinu fyrirhugaða innstreymi á gjaldeyri í tengslum við þessar framkvæmdir á gengi íslensku krónunnar. Það dylst engum að gríðarlegt innstreymi verður af erlendum gjaldeyri inn til landsins á framkvæmdatímanum. Þetta innstreymi mun að óbreyttu auka spennu á innlendum vöru- og vinnumarkaði og það mun stuðla að hærra gengi krónunnar. Þessi aukna spenna sem við munum sjá á vinnumarkaði mun brjótast fram í þrýstingi á verðbólgu. Slík þróun mun að öllum líkindum ýta enn frekar undir hækkun á gengi á vöxtum sem verður að bregðast við. Við þurfum að finna leiðir, herra forseti, til að draga úr nauðsyn þess að gengið hækki enn frekar og vextir sömuleiðis. En það eru hækkanir á þessum þáttum, gengi og vöxtum, sem geta kallað fram hin svokölluðu ruðningsáhrif, þ.e. þegar starfsemi sem ræður ekki við skammtímaáhrif framkvæmdanna eða er ekki eins framleiðin og stóriðja, eins og ég gat um hérna áðan, eða tengd starfsemi, lætur undan síga af völdum hás gengis og hárra vaxta. Sjávarútvegurinn er auðvitað besta dæmið, ekki síst greinar þar sem framleiðni er lítil, og hækkun á gengi gæti riðið baggamuninn um framtíð þeirra.

Í umfjöllun efh.- og viðskn. kom þannig skýrt fram að forustumenn í sjávarútvegi og raunar einstakir nefndarmenn í efh.- og viðskn. telja t.d. að frekari gengishækkun gæti leitt til kollsteypu í rækjuvinnslu. Þetta er auðvitað ekki gott, herra forseti. Ég hjó eftir því áðan að hv. formaður efh.- og viðskn., Hjálmar Árnason, sagði í andsvari við hv. þm. Ögmund Jónasson að þau störf sem mundu hverfa og láta undan síga væru að vísu þau störf sem væru verst launuð og í greinum sem væri minnst framleiðni í. Það má auðvitað segja, herra forseti, að þó að það kunni að hafa mjög óæskileg áhrif á byggðaþróun í landinu á sumum stöðum hljóta menn samt sem áður að líta á það sem jákvæðan hlut ef ákveðin skipti verða í atvinnulífinu sem felast í því að þau störf sem eru miður framleiðin og bera ekki há laun hverfi í stað annarra starfa sem beri hærri laun og eru framleiðnari.

[13:45]

Í þessu samhengi, herra forseti, er óhjákvæmilegt að reyna að gera sér grein fyrir því hvernig þróun krónunnar er líkleg til þess að verða í ljósi sterkra áhrifa gengisþróunarinnar á tekjur og framlegð útflutningsfyrirtækjanna. Það gildir almennt að hækkun á gengi þrengir að útflutnings- og samkeppnisgreinum og eyðir þess vegna slaka í hagkerfinu. Þannig má segja að hækkun á genginu skapi rými fyrir framkvæmdir sem eru líklegar til þess að valda þenslu, og framkvæmdir eins og þær sem við erum að ræða um á Austfjörðum falla að sjálfsögðu í þann flokk. Lækkun á stýrivöxtum Seðlabankans hefur að óbreyttu áhrif til lækkunar á genginu. Nú hafa hins vegar stýrivextir lækkað jafnt og þétt. Ég held að þeir hafi ekki verið lægri frá 1994 þegar slaki í hagkerfinu var þó líklega minni en hann er núna. Þrátt fyrir þetta hefur gengið hækkað stöðugt að undanförnu.

Margt bendir líka til, herra forseti, þrátt fyrir umkvartanir þeirra sem starfa í umhverfi útflutnings, að gengið muni halda áfram að hækka enn frekar á næstu missirum og árum. Þegar við veltum fyrir okkur hvað veldur þeirri gengishækkun sem við höfum séð á undanförnum mánuðum má tengja það væntingum markaðarins um innstreymi gjaldeyris í tengslum við þessar miklu framkvæmdir. Við höfum reynslu af því að markaðurinn bregst við væntanlegum tilefnum eins og þessum löngu áður en þau komast til framkvæmda. Þannig getur gengi krónunnar hækkað töluvert áður en innstreymi gjaldeyris vegna viðkomandi framkvæmda er hafið. Það má samt ekki gleyma því, herra forseti, að fyrir núverandi hækkunarlotu á krónunni var gengisþróunin eigi að síður mjög hagstæð fyrir útflutningsfyrirtæki og þetta leiddi til mjög jákvæðrar og heillavænlegrar afkomu í sjávarútvegi sem hefur að sjálfsögðu leitt til verulegs innstreymis gjaldeyris, ekki síst í þeirri grein. Ég er ekki í nokkrum vafa um, herra forseti, að það hefur að sjálfsögðu átt sinn þátt í að styrkja gengi krónunnar.

Ég vek líka eftirtekt á því, herra forseti, að spár um afkomu í sjávarútvegi, þrátt fyrir þann barlóm sem stundum hefur heyrst frá forustumönnum þar upp á síðkastið, eru enn þá mjög jákvæðar. Það gefur líka tilefni til að vænta þess að innstreymi á gjaldeyri í þeirri grein verði allverulegt á næstu árum, næstu missirum a.m.k., og það að sjálfsögðu tosar gengið upp. Við vitum að á síðustu tveimur árum höfum við séð hagstæðara umhverfi í sjávarútvegi og meiri framlegð en nokkru sinni fyrr og þær spár sem eru um afkomu sjávarútvegs á þessu ári benda til þess að ef frá eru talin þessi tvö sl. ár sé núverandi ár eitt hið besta fyrir sjávarútveg. Allt þetta ýtir að sjálfsögðu undir hækkun gengisins.

Sömuleiðis held ég, herra forseti, að sú hækkun á aflaheimildum sem sjútvrh. í samráði við ríkisstjórnina tilkynnti fyrir nokkru hafi líka gefið tilefni til þess að tosa gengið svolítið upp vegna þess að stór hluti af þeim hækkunum var án fiskifræðilegra raka og var þar af leiðandi óvæntur, gaf þannig tilefni til innspýtingar gjaldeyris í efnahagslífið sem menn höfðu ekki átt von á.

Í dag tilkynnti Landsvirkjun síðan um það að mat hennar á áhrifum framkvæmda á Norðlingaöldu væri þannig að stofnunin hefði ákveðið að ráðast í verkefnið. Það hlýtur líka að ýta undir að gengið frekar hækki en hitt. Þetta nefni ég, herra forseti, vegna þess að það er nauðsynlegt að við gerum okkur grein fyrir því að við erum að sigla inn í umhverfi þar sem ákaflega litlar líkur eru á því að gengi krónunnar fari að síga. Það er mjög fátt sem bendir til þess. Ég vísa líka til þess, herra forseti, að þeir sérfræðingar sem hafa verið að spá fyrir um gengisþróun krónunnar, og nú er ég að tala um sérfræðinga hjá ýmsum greiningardeildum fjármálastofnana hér innan lands, virðast langflestir spá því að gengi krónunnar haldi áfram að hækka eða haldist mjög hátt. Þegar við vorum að fjalla um þetta mál í efh.- og viðskn. og hlýddum Seðlabankanum yfir um gengisþróunina kom það líka fram að þeir voru þeirrar skoðunar að það væri fátt sem benti til að gengið mundi síga og ef við skoðum þá greinargerð sem Seðlabankinn lét af höndum í tilefni af þessum framkvæmdum er ekki hægt að skilja hann öðruvísi en svo að efnahagsleg áhrif stóriðjuframkvæmdanna muni halda áfram, halda genginu háu og jafnvel að ýta undir þetta.

Þá er spurning, herra forseti, með hvaða hætti við reynum að sporna gegn því að hækkanir á gengi og vöxtum verði óhóflegar og hafi of hröð og of mikil áhrif á starfsemi fyrirtækja sem kannski búa þegar við lítið eigið fé eins og við sjáum mjög mörg fyrirtæki á landsbyggðinni. Hættan í þessu máli er sú að umskipti í atvinnulífinu verði of skjót og þau hafi of skjótvirk áhrif á lítil fyrirtæki úti á landsbyggðinni. Ég tel að það sé eina hættan sem af þessu stafar og gegn henni verðum við að sporna.

Þetta þýðir það, herra forseti, að þeir sem hafa fylgt þessum framkvæmdum hvað dyggilegast í þessum sölum --- sem margir hverjir eru þingmenn landsbyggðarinnar --- verða líka að vera reiðubúnir til þess að taka á með hinum þegar ríkisstjórn á næsta kjörtímabili þarf að grípa til mótvægisaðgerða. Ég sagði fyrr í minni ræðu, herra forseti, að til þess að hægt væri að ná árangri í að sporna við óhóflegum ruðningsáhrifum sem svo eru kölluð, af hækkun gengisins í tengslum við þessar framkvæmdir þyrfti að eiga sér stað farsæl samvinna þeirra sem stjórna peningamálum Seðlabankans og þeirra sem stjórna ríkisfjármálum, þ.e. ríkisstjórnarinnar. Það er alveg ljóst að eitt af því sem er óhjákvæmilegt að grípa til á næsta kjörtímabili til þess að sporna við óhóflegri þenslu og þessum ruðningsáhrifum er að fresta ríkisframkvæmdum. Ég er ekki að tala um það, herra forseti, að það væri nauðsynlegt að fella niður eða hætta við framkvæmdir hins opinbera en það verður nauðsynlegt að fresta opinberum framkvæmdum upp á mjög marga milljarða kr. um 1--2 ár, og þeir sem hafa stutt þessar framkvæmdir hvað dyggilegast í þessum sölum verða að vera reiðubúnir þegar að því kemur að axla ábyrgðina sem fylgir því að fresta framkvæmdum, jafnvel þótt það kunni að þýða minni framkvæmdir á vegum úti á landsbyggðinni eða öðrum framkvæmdum í höfuðborginni. Þarna verða menn allir að standa í ístaðinu og sameinast um það að þessar framkvæmdir hafi sem mest jákvæð áhrif, og að neikvæð skammtímaáhrif verði sem minnst.

Í þessu samhengi hvílir mikil ábyrgð á okkur sem núna erum að ganga til kosninga og erum að leggja fram stefnu flokka okkar. Við sjáum það, herra forseti, að það er töluverður vilji innan stjórnarflokkanna beggja og a.m.k. Samfylkingarinnar til að nota það svigrúm sem verður til vegna þessara stórframkvæmda á næsta kjörtímabili til þess að lækka skatta. Ég er þeirrar skoðunar að það sé kominn tími til að tekjuskattar einstaklinga verði með einhverjum hætti lækkaðir. Ég og Samfylkingin höfum verið þeirrar skoðunar að það eigi að lækka tekjuskatta á millitekjufólki, á barnafjölskyldum, og það eigi að nota svigrúmið sem gefst með þessum framkvæmdum til þess og jafnframt líka til þess að hækka grunnbætur þeirra sem lifa af bótum almannatryggingakerfisins. Það er hins vegar alveg ljóst að við öll sem erum í forustu fyrir stjórnmálaflokkana verðum að gæta hófs í þessum efnum. Við verðum að haga kosningaloforðum okkar og framkvæmdum á næsta kjörtímabili með það fyrir augum að aðgerðir okkar í aðdraganda þensluskeiðs leiði ekki til þess að hér verði einhvers konar ofhitnun í hagkerfinu. Þetta held ég að sé ákaflega mikilvægt, herra forseti.

Ég hef, herra forseti, farið í nokkuð stuttu máli yfir það sem við í Samfylkingunni teljum að séu hin efnahagslegu áhrif þessara framkvæmda. Það er alveg ljóst svo ég ítreki það, herra forseti, að við teljum að til langs tíma verði áhrif þessara framkvæmda jákvæð. Fjmrn. telur að hagvöxtur muni aukast um 0,75% vegna þessa. Það er hins vegar ljóst að skammtímaáhrifin geta orðið neikvæð. Í sumum tilvikum gætu þau haft alvarlegar afleiðingar nema því aðeins að það verði gripið til kórréttra mótvægisaðgerða og um það þurfa menn að sameinast, hvort sem þeir eru í stjórn eða stjórnarandstöðu nákvæmlega þegar þessi orð eru töluð.

Mig langar aðeins, herra forseti, að fara nokkrum orðum um það hvað þetta frv., sem við ræðum hér, fjallar í raun og sanni, en það eru skattar. Það er einkum tvennt sem ég vil nefna varðandi skattaákvæðið. Í fyrsta lagi finnst mér nauðsynlegt að ræða grundvallarviðhorf varðandi umhverfisgjöld framtíðarinnar í tengslum við þetta. Ástæðan er sú að í 2. mgr. 6. gr. frv. er að finna ákvæði sem ég á ákaflega erfitt með að sætta mig við. Það tengist umhverfisgjöldum framtíðarinnar sem ég tel að séu óhjákvæmileg. Í þessu ákvæði er efnislega lagt til að það sé heimilt að kveða á um það í samningnum við Alcoa að ekki skuli lagðir skattar eða gjöld á útblástur lofttegunda, raforkunotkun þeirra eða aðra losun úrgangsefna af fyrirtækisins hálfu nema því aðeins að samsvarandi gjöld séu lögð á alla aðra almenna fyrirtækjastarfsemi í landinu. Ég tel þetta mistök sem beri vott um skammsýni af hálfu stjórnvalda. Þetta ákvæði er í reynd ekki hægt að skilja öðruvísi en svo að þegar vindur fram um þessa öld verði aldrei hægt að leggja sérstakan umhverfisskatt á stóriðju hér á Íslandi. Ég bar spurningu um þetta efni fram við fulltrúa iðn.- og viðskrn. í efh.- og viðskn. og í munnlegu svari staðfesti hann þennan skilning minn.

Starfsmenn hæstv. umhvrh. sendu minnisblað frá sér um þetta, herra forseti, og ég er ákaflega óánægður með efni þess. Þar kemur fram það viðhorf hæstv. umhvrh. að komi til beitingar hagrænna stjórntækja af þessu tagi hyggist stjórnvöld taka mið af jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar við útfærslu þeirra. Hvað þýðir þetta, herra forseti? Það þýðir það að hæstv. umhvrh. staðhæfir það fullum fetum að ekki komi til mála í framtíðinni að leggja sérstakt umhverfisgjald vegna útblásturs skaðlegra lofttegunda á stóriðju. Því aðeins verði það gert að samsvarandi gjald verði líka lagt á aðra almenna starfsemi í landinu. Ég er þessu algerlega ósammála, herra forseti. Ég er þeirrar skoðunar að í framtíðinni hljóti það að vera eitt af stjórntækjunum sem við beitum til þess að koma í veg fyrir óhóflega losun skaðlegra lofttegunda, að leggja slíkt gjald á stórnotendur orku, þ.e. stóriðju. Það mun koma að því að menn hrindi í framkvæmd þeim hugmyndum sem hafa verið uppi um að beita markaðslausnum til þess að takmarka losun úrgangs af þessu tagi með því að setja upp sérstakar losunarheimildir og heimila sölu á losunarkvótum. Ég er hlynntur því, herra forseti. Ég tel að í framtíðinni sé það aðferð sem við eigum að nota til þess að reyna að stemma stigu við óhóflegri losun skaðlegra lofttegunda, skaðlegs úrgangs, og draga þannig úr þeirri vá sem ég tel að sé ein sú mesta sem steðjar að mannkyninu en það er hlýnun andrúmsloftsins.

[14:00]

Um leið og menn leggja í þá för að beita markaðslausnum og heimila sölu á losunarkvótum breytast þeir í takmarkaða markaðsvöru sem hlýtur að verða eftirsótt á alþjóðlega vísu og að öllum líkindum einhvern tíma hér innan lands líka. Ég tel að í markaðsumhverfi sé óhjákvæmilegt að skilgreina slíkan losunarkvóta sem takmarkaða auðlind og ég held að þá muni heimildir til að losa úrgang út í umhverfið ganga kaupum og sölum.

Frá mínum bæjardyrum séð og flokks míns verður þá tæpast hægt að skilgreina losunarkvóta öðruvísi en sem sameign þjóðar, sameiginlega auðlind, engu síður en fjarskiptarásir í loftinu munu einhvern tímann verða skilgreindar sem sameiginleg auðlind, alveg eins og fiskstofnar í sjó eru í dag, a.m.k. í orði kveðnu, skilgreindir sem sameiginleg auðlind. Og ég ímynda mér að skammt sé í að fallvötn á landi verði það líka.

Ég held að tæpast sé hægt að búast við því þegar við erum komin inn í slíkt umhverfi einhvern tímann síðar á þessari öld að stóriðja sem er tekin til starfa þegar slíkar aðstæður skapast keppi á markaði um þann losunarkvóta. Ástæðan fyrir því að ég greini þar á milli hennar og t.d. fiskstofnanna er sú að ég held að ekki verði slíkur markaður fyrir hendi innan lands, en um leið og þetta gerist mun það hins vegar stórauka verðmæti viðkomandi stóriðjufyrirtækja og væntanlega leiða til þess að arðsemi þess í samanburði við stóriðju erlendis muni aukast allverulega. Og þá finnst mér sanngjarnt að það sé mögulegt fyrir stjórnvöld á þeim tíma að leggja á sérstakt umhverfisgjald sem nær að einhverju leyti upp í það.

Ég held sem sagt, herra forseti, að þetta sé ekki bara aðferð til þess að ná inn tekjum fyrir ríkið, heldur fyrst og fremst að taka þátt í alþjóðlegri baráttu til þess að stemma stigu við losun úrgangs út í andrúmsloftið. Við sjáum að nú þegar er viðleitni til þess erlendis.

Ég tek eftir því að í svari umhvrn. við spurningum í efh.- og viðskn. kemur fram að nokkur ríki hafi þegar í undirbúningi kröfur um að fyrirtæki hafi framseljanlegar losunarheimildir vegna losunar. Þetta bendir til þess, herra forseti, eins og þróunin almennt, að slíkar aðferðir verði notaðar í framtíðinni. En þá er eitt land sem mun skera sig frá. Það er Ísland. Hvers vegna segi ég það, herra forseti? Vegna þess að þegar er búið að ganga frá samningi. Frumvarpið er lagt fram eftir að samningurinn er í reynd gerður. Hann var auðvitað gerður með fyrirvara um samþykki Alþingis, en þetta ákvæði er þannig upp sett að það kemur í veg fyrir að hægt sé að leggja slíkt umhverfisgjald einhvern tímann á Alcoa. Og um leið og ekki er hægt að leggja það á Alcoa, þá er ekki heldur hægt að leggja það á önnur stóriðjufyrirtæki. Ég vil gera sterkan greinarmun á því að gripið sé til slíkra ráða, herra forseti, gagnvart stórnotendum annars vegar og almennri fyrirtækjastarfsemi hins vegar.

Herra forseti. Af því ég veit að hæstv. umhvrh. er í húsinu, þá langar mig til að spyrja hana hvort hún sé sátt við þetta. Ég veit að vísu að ríkisstjórn Íslands hefur markað sér stefnu í loftslagsmálum sem byggist á grundvelli rammasamnings Sameinuðu þjóðanna og Kyoto-bókunarinnar. Sú stefnumörkun gerir að sönnu ekki ráð fyrir að skattar eða gjöld verði lögð á það sem við köllum gróðurhúsalofttegundir að svo komnu máli. Hins vegar er sagt í stefnumörkuninni sem ríkisstjórnin hefur markað að þessa stefnu eigi að endurskoða í ljósi reynslunnar árið 2005. Ég tel að þá verði nú ekki komin upp sú aðstaða að nauðsynlegt verði að velta fyrir sér umhverfisgjöldum af þessu tagi, en hins vegar tel ég að ekki sé hægt að taka upp þennan samning og breyta honum þannig að hægt verði að leggja umhverfisgjald af þessu tagi á Alcoa í framtíðinni og þar með tel ég að ekki verði hægt að leggja það á önnur stóriðjufyrirtæki. Og mig langar til að spyrja hæstv. iðnrh. og hæstv. umhvrh. hvort þær séu sammála mér um þessa túlkun. Mér er sama hvort þær svara mér núna í andsvari eða þá síðar á þessum degi, en það er nauðsynlegt fyrir mig og fyrir Samfylkinguna að skilningur þeirra á þessu ákvæði liggi fyrir.

Herra forseti. Mig langar að lokum að drepa á eitt atriði sem ég vil spyrjast fyrir um hjá hæstv. iðnrh. Fram kom í umfjöllun efh.- og viðskn. að þótt búið sé að ljúka gerð tvísköttunarsamnings á milli Ítalíu og Íslands, þá hefur þessi samningur ekki enn verið birtur. Það veldur því að hann hefur ekki enn tekið gildi. Þetta leiðir til þess að þar sem ítalska verktakafyrirtækið mun, ef að líkum lætur, starfa á Íslandi lengur en 12 mánuði, þá gæti vöntun á fullgildingu tvísköttunarsamnings af þessu tagi skapað ákveðna réttaróvissu um skattgreiðslur, bæði fyrirtækisins og erlendra starfsmanna þess og það er auðvitað dálítið umhendis bæði fyrir ríkið og líka fyrir þau sveitarfélög sem eiga hlut að máli. Það er hugsanlegt að þetta baki ríkinu bótaábyrgð. Ég tel þess vegna, herra forseti, að það sé ákaflega nauðsynlegt að ráðist sé í að beita sér fyrir fullgildingu þessa samnings hið fyrsta.

Ég spyr hæstv. iðn.- og viðskrh.: Hvenær má þess vænta að þessi tvísköttunarsamningur verði birtur og fullgiltur? Og hvað veldur því að svo hefur ekki verið gert?

Herra forseti. Ég hef nú farið yfir þau atriði sem við í Samfylkingunni teljum skipta máli. Í heild erum við samþykk þessu máli. Ég hef bent hér á tvö atriði í frv. sem ég tel aðfinnsluverð og a.m.k. um annað þeirra atriða mun ég og minn flokkur greiða atkvæði gegn. En í heild, herra forseti, styðjum við frv.