Álverksmiðja í Reyðarfirði

Miðvikudaginn 26. febrúar 2003, kl. 23:44:42 (4117)

2003-02-26 23:44:42# 128. lþ. 84.1 fundur 509. mál: #A álverksmiðja í Reyðarfirði# frv. 12/2003, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 128. lþ.

[23:44]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Oft hefur hv. þm. Kristján Möller flutt ágætar ræður í þinginu. Þetta var ekki ein af þeim. Mér þótti þó verst að hv. þm. skyldi sá þeim sundrungarfræjum milli landsbyggðar og þéttbýlis sem hann gerði sig sekan um. Það er rangt að halda því fram að þéttbýlisbúar, Reykvíkingar, séu andsnúnir og andvígir landsbyggðinni. Þetta er rangt.

Hv. þm. sagði að umhverfissinnar hefðu farið út fyrir velsæmismörk og tilgreindi dæmi. Hv. þm. Kristján Möller var beðinn um að halda á skilti úti á Austurvelli í dag. Þetta var alveg sérstaklega glæpsamlegt. Síðan var vitnað í ágæta greinargerð frá mótmælendum á Austurvelli sem ekki voru fjórir talsins heldur margir tugir þegar ég leit út um gluggann og sendu okkur þingmönnum greinargerð og áskorun til varnar náttúru Íslands.