Álverksmiðja í Reyðarfirði

Miðvikudaginn 26. febrúar 2003, kl. 23:49:53 (4121)

2003-02-26 23:49:53# 128. lþ. 84.1 fundur 509. mál: #A álverksmiðja í Reyðarfirði# frv. 12/2003, KolH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 128. lþ.

[23:49]

Kolbrún Halldórsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég vil gagnrýna hv. þm. fyrir tvískinnung hans þegar hann talar um umhverfisverndarsinna, sem hann segir í öðru orðinu að hann beri töluverða virðingu fyrir en fjallar svo um í löngu máli og með fyrirlitningartóni um fólk sem fordómar hv. þm. gera ráð fyrir að búi allt í 101 í Reykjavík. Hann fullyrðir að þessu fólki sé skítsama um fólk á landsbyggðinni. Ég vil gagnrýna málflutning af þessu tagi harðlega. Ég tel hann ekki þingmanninum sæmandi, sérstaklega ekki af því að hann talar undir öðru yfirskini en hans innri tilfinning greinilega býður honum.

Af því að hv. þm. vitnaði í bréf sem þingmönnum barst frá Austurvallarhópnum í dag þá gagnrýni ég hann líka fyrir að þær setningar sem hann tínir innan úr því skeyti eru allar meira eða minna úr samhengi. Ég vil geta um niðurlag setningarinnar sem fjallaði um steypumagnið og störfin fyrir 300 manns, hún er svo:

,,Þetta speglar eðli málsins samkvæmt deginum í dag, deginum í gær og deginum á morgun, hver við erum og hvernig við viljum lifa í þessu landi.``