ESA og samningar við Alcoa

Fimmtudaginn 27. febrúar 2003, kl. 10:41:33 (4144)

2003-02-27 10:41:33# 128. lþ. 85.91 fundur 446#B ESA og samningar við Alcoa# (aths. um störf þingsins), iðnrh.
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 128. lþ.

[10:41]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Mér finnst hv. þingmenn vera að gera alveg ótrúlega mikið úr þessu litla máli í raun. Þetta snýst um það að ESA, sem vissulega er dálítið mikið fyrir gögn, biður um gögn til þess að geta metið hvort sá styrkur sem þarna er um að ræða, þessi opinberi stuðningur því hann er ekki bara af hálfu ríkisins, hann er líka af hálfu sveitarfélagsins, sé innan þeirra marka sem þeir geta sætt sig við. Um það snýst þetta mál. Og eins og hefur áður komið fram hér á hv. Alþingi er þetta mjög í líkingu við það sem var um að ræða í sambandi við Norðurál og þá fékkst jákvæð niðurstaða, ekkert vandamál. Núna eru hv. þm. Vinstri grænna að reyna að halda í það hálmstrá að Brussel bjargi þeim út úr því vandamáli sem þau eru komin í. Það er ekki öðruvísi en það. (SJS: Er ekki hægt að fá ...?) Það er beðið um þessar upplýsingar af hálfu hv. þm. Kolbrúnar Halldórsdóttur í tölvupósti og við tökum það sem svo að hún sé að biðja um þessar upplýsingar á grundvelli upplýsingalaga. Því hefur ekki verið mótmælt. Það er einfaldlega þannig með upplýsingalögin að þau ætlast bókstaflega til þess að þegar um tilvik sem þetta er að ræða séu ekki veittar upplýsingar. Við erum í viðræðum við fjölþjóðastofnun um viðkvæmt mál sem fer ekki í opinbera umræðu meðan svo er. Þetta er nú allt málið. Þetta er dæmigert mál sem framkvæmdarvaldið fer með. Ég er ekki að gera lítið úr hv. Alþingi þegar ég segi þetta, Alþingi hefur mikilvægt hlutverk. Af hálfu embættismanna er búið að segja, og ég styð það að sjálfsögðu enda er það frá mér komið, að nefndin getur fengið þessi gögn ef hún vill en þau verða ekki gerð opinber á þessu stigi. Þá eru hv. þm., sumir hverjir, svo stórir upp á sig að þeir þiggja ekki upplýsingarnar af því að ekki má gera þær algjörlega opinberar og hlaupa með þær í fjölmiðla. Þetta er málið.