Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 27. febrúar 2003, kl. 12:43:31 (4166)

2003-02-27 12:43:31# 128. lþ. 85.1 fundur 445#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 128. lþ.

[12:43]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Það er ánægjulegt að heyra að NATO-fundurinn sé þá eitt af örfáum fyrirbærum þeirrar tegundar sem ekki hafa farið fram úr kostnaðaráætlun því það er ákaflega leiður plagsiður hér á Íslandi að yfirleitt flest sem farið getur fram úr áætlun gerir það. Það er í sjálfu sér gott að okkur gangi vel að halda stóra fundi og ráðstefnur. Ekki skal ég draga úr því. Hitt er svo annað mál að miklu fremur vildi ég að við byðum heim til annars konar fundarhalda heldur en þeirra sem þarna var gert. Ég held að við ættum miklu meira að horfa til þess að gera Ísland að ákjósanlegum griðastað og fundarstað þar sem menn eru að ráða ráðum sínum í friðsamlegum tilgangi eða uppbyggilegri viðfangsefni en þau sem tengjast hernaðarbröltinu í heiminum og þeirri gíðarlegu sóun sem það er auðvitað ávísun á. En það er nú staðreynd, herra forseti, að sennilega er hvergi í neinum málaflokki farið jafnilla með verðmæti og öðrum eins ósköpum sóað eins og einmitt í hernaðariðnaðinum öllum og öllum þeim óheyrilegu útgjöldum sem renna til vígbúnaðar og hernaðarmála og væri auðvitað miklu meiri þörf fyrir til annarra og uppbyggilegri hluta eins og þróunaraðstoðar og uppbyggingar af því tagi.

Varðandi viðræðurnar við Bandaríkin og þann ágreining sem er þá annars vegar innan bandaríska stjórnkerfisins, t.d. eins og stundum hefur verið látið í veðri vaka milli annars vegar varnarmálaráðuneytisins og hins vegar utanríkisráðuneytisins eða fjármálaráðuneytisins eða hvað það nú er í Washington og svo aftur Íslands, þá væri fróðlegt að vita hvort þarna sé uppi hernaðarlegur ágreiningur. Skilgreinir íslenska ríkisstjórnin varnarþörf Íslands út frá einhverjum öðrum forsendum og telur að okkur stafi meiri ógn af ástandinu í heiminum eða hér umhverfis okkur heldur en Bandaríkjastjórn? Í hverju er þá sá herfræðilegi ágreiningur fólginn?