Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 27. febrúar 2003, kl. 12:45:44 (4167)

2003-02-27 12:45:44# 128. lþ. 85.1 fundur 445#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 128. lþ.

[12:45]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég vildi aðeins út af Atlantshafsbandalaginu taka fram að ekki var verið að fjalla um neitt hernaðarbrölt eins og hv. þm. orðaði það á fundinum hér. Atlantshafsbandalagið er árangursríkustu friðarsamtök í heiminum sem voru stofnuð í lok heimsstyrjaldarinnar í því augnamiði að koma í veg fyrir að eitthvað slíkt gerðist aftur. Það var Atlantshafsbandalagið sem fyrst og fremst kom því til leiðar að Berlínarmúrinn féll og ríki Austur- og Mið-Evrópu endurheimtu sjálfstæði sitt. Það var enn fremur Atlantshafsbandalagið sem lék stærsta hlutverkið í því að koma á friði á Balkanskaga.

Ég minni á að á fundinum í Reykjavík gerðust sögulegir atburðir í samskiptum Atlantshafsbandalagsins og Rússlands þannig að þessi fundur var mjög árangursríkur og skiptir miklu máli varðandi framtíð og frið í Evrópu.

Út af því sem hv. þm. spurði um í sambandi við Keflavíkurstöðina er það mat íslenskra stjórnvalda að um lágmarksvarnir sé að ræða að því er varðar Ísland. Það hafa ekki farið fram, enn sem komið er, viðræður milli landanna um hvert áhættumatið eigi að vera. En eins og hv. þm. veit eru viðsjár í heiminum og eins og ég sagði í ræðu minni hefur margt breyst frá því sem áður var. Hryðjuverkastarfsemi er því miður staðreynd og hér á landi hafa á síðustu árum átt sér stað æfingar um viðbrögð við slíkri vá. Það er nokkuð sem því miður er ekki hægt að útiloka að geti gerst hér á landi frekar en annars staðar.