Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 27. febrúar 2003, kl. 13:44:37 (4172)

2003-02-27 13:44:37# 128. lþ. 85.1 fundur 445#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), RG
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 128. lþ.

[13:44]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. utanrrh. fyrir ágæta skýrslu. Mér finnst þessi umræða, eins og hún hefur farið fram hér í morgun, hafa verið góð. Það er mikilvægt að þingmenn noti þessa umræðu til að taka fyrir ólíka þætti utanríkismála og utanríkissamvinnunnar, en ekki endilega einungis þau atriði sem hæstv. ráðherra drepur á í ræðu sinni. Í upphafi ræðu sinnar nefnir utanrrh. þær viðsjár sem þurfi að varast um þessar mundir. Það er rétt að þjóðir heims hafa sameinast í baráttunni gegn hryðjuverkum. En það er jafnvíst að það hefur hentað Bandaríkjamönnum að beita 11. september fyrir sig í umræðunni um baráttu þeirra gegn ríkjunum sem Bush Bandaríkjaforseti fellir undir samheitið öxulveldi hins illa og má þar nefna Írak fremst meðal jafningja ef svo má að orði komast.

[13:45]

Sú staða sem komin er upp núna í Miðausturlöndum, Ísrael og Palestínu annars vegar og Írak hins vegar með Saddam Hussein með einræðisvöldin, sýnir að mínu viti tvennt. Í fyrsta lagi hafa vesturveldin ekki haldið vel á málum fram að því að í óefni er komið eins og raun ber nú vitni. Og í öðru lagi eru Bandaríkin ráðandi um framvinduna á báðum vígstöðvum.

Ég lýsi ánægju minni með að í ræðu fastafulltrúa okkar hjá Sameinuðu þjóðunum í öryggisráðinu núna 19. febrúar sl. setti Ísland afdráttarlaust fram þá afstöðu að gefa eigi vopnaeftirlitsmönnum Sameinuðu þjóðanna viðbótarsvigrúm. Það er sama afstaða og Samfylkingin hefur tekið. Það er þannig að hörð viðbrögð þjóða og almennings ættu að fá Bandaríkjaforseta til að staldra við vegna þess að Bandaríkin njóta stuðnings þjóða heims í baráttu gegn hryðjuverkasamtökum. Það er ekki ásættanlegt að þegar afdráttarlaus afstaða er tekin hjá svo ráðandi þjóðum, þeim 11 af 15 sem eiga sæti í öryggisráðinu, bregðist Bandaríkin þannig við að hegna eigi t.d. Þýskalandi fyrir andstöðuna með því að draga úr þýðingarmiklu samstarfi í varnarmálum. Þýskaland á að fá sína lexíu fyrir að hafa beitt sér gegn innrásar\-áformum Bush. Þetta finnst mér, virðulegi forseti og hæstv. utanrrh., alvarlegt umhugsunarefni fyrir aðra samstarfsaðila Bandaríkjastjórnar.

Flokksstjórn Samfylkingarinnar kom saman í Borgarnesi fyrir nokkru síðan og þá var ályktað um Írak, og áformum Bandaríkjastjórnar um að ráðast inn í Írak harðlega mótmælt. Fundur okkar lagði áherslu á að öryggisráð Sameinuðu þjóðanna leitaði allra leiða til að koma í veg fyrir styrjöld og að vopnaeftirlitsmenn Sameinuðu þjóðanna fengju nægan tíma til þess að athafna sig í Írak. Auðvitað vísar fundurinn til ályktunar öryggisráðsins nr. 1441 og þeirra skilyrða sem þar þarf að framfylgja svo afvopnun geti farið fram.

Við höfum áhyggjur af því, virðulegi forseti, að aðferðafræði Bandaríkjastjórnar í alþjóðasamskiptum sé orðin svo breytt og ný vegna baráttunnar gegn hermdarverkum. Það er afstaða Samfylkingarinnar að í upphafi 21. aldar sé þess að vænta að Sameinuðu þjóðirnar séu færar um að leysa alvarlega deilu sem þessa sem nú blasir við með öðrum hætti en með stríði.

Það er líka umhugsunarefni, virðulegi forseti, að talið er að stríð í Írak kosti 95 milljarða bandaríkjadollara. Það munu vera 7--8 þús. milljarðar íslenskra króna. Fjárhæðin er svo há að það er eiginlega óraunverulegt að átta sig á henni, það yrði að heimfæra hana yfir á beinharða hluti til að skilja innihald þessarar tölu. Mikið væru þessir fjármunir betur komnir í uppbyggingarstarfi í fátækum eða stríðshrjáðum löndum. Hvað ætli hafi farið miklir fjármunir til Afganistans til uppbyggingar að loknu stríðinu þar? Ef við lítum á það stríð sem þegar var háð í Írak í upphafi síðasta áratugar fórust almennir borgarar og börn svo skipti hundruðum þúsunda. Á þessum sama tíma er líka milljón manns í neyð samkvæmt fréttum í Palestínu. Hungursneyð vofir yfir og hjálparþörf er verðlögð þar á rúman einn milljarð dollara. Þar ala konur börn við vegatálma, vegir eru lokaðir og búist er við alútgöngubanni þegar stríð skellur á í Írak.

Það er hollt fyrir okkur að líta á þessar staðreyndir þegar verið er að tala um stríðið, eins og stríð eða ekki stríð og innrás eða ekki innrás. Þarna á bak við eru mjög alvarlegir hlutir og gífurlegir fjármunir.

Áður en ég vík frá ástandinu fyrir botni Miðjarðarhafs vil ég aðeins árétta það sem kom fram hjá formanni Samfylkingarinnar í umræðunni í morgun. Það var ályktunin sem samstaða náðist um um deilur Ísraels og Palestínumanna og formaðurinn varpaði þessu fram: Hvernig er slíkri ályktun framfylgt af hálfu utanrrn.? Það er ekki nóg að álykta hér í þessum þingsal ef ályktunin fer ekkert áfram eða henni er ekki framfylgt.

Ég sagði áðan að í svona umræðu væri mikilvægt að drepa niður fæti á ýmsum sviðum og mig langar að taka fyrir friðargæsluna. Við í Samfylkingunni höfum stutt það að byggja upp Íslensku friðargæsluna. Hún telur núna um 25 manns og þar af eru 10 í Pristina. Sjónum er beint að því að e.t.v. er sú aðgerð mikilvæg með tilliti til þess að sýna hvað Ísland getur staðið fyrir og hvað Norðurlöndin standa fyrir. Ég ætla nefnilega að tengja þetta umræðu um Norðurlönd.

Við höfum tekið þátt í sérstökum verkefnum á vettvangi Norðurlandanna, t.d. á Sri Lanka sem er afar gott mál. En innan Norðurlandaráðs er mikill áhugi á því að efla og jafnvel formfesta samstarf um svokallað ,,krigshantering`` sem hér hefur verið kölluð friðargæsla en þar undir telst fyrirbyggjandi starf á spennusvæðum, áhættustjórnun og uppbyggingarstarf í kjölfar átaka. Ég hef verið talsmaður fyrir hönd forsætisnefndar Norðurlandaráðs í þessum málaflokki eftir að hafa setið í starfshópi ráðsins sem skilaði skýrslu og tillögum um aukið samstarf Norðurlandanna. Því miður hagaði svo til að hæstv. utanrrh. sat ekki þá tvo hádegisfundi sem með árs millibili hafa verið haldnir með utanríkisráðherrum Norðurlandanna og forsætisnefnd, heldur var samstarfsráðherra Norðurlandanna í hans stað á fundunum. Þessi mál hafa fengið talsvert vægi hjá Norðurlandaráði og það olli okkur miklum vonbrigðum að ráðherrarnir léðu hvorki máls á því að stofna fastan samráðshóp til að kanna aukna samvinnu né þeim möguleika að setja á laggir sameiginlegt norrænt hraðlið. Það er mat forsætisnefndar og Norðurlandaráðs að góður orðstír Norðurlanda sé afar gott veganesti inn í samvinnu af þessu tagi, að sveit Norðurlandanna muni hafa allt aðra ásýnd hjá fjarlægum þjóðum en almennt lið af Vesturlöndum og að þetta geti orðið þýðingarmikið varðandi borgaralega uppbyggingarstarfsemi á átakasvæðum þar sem Norðurlönd geta verið fyrirmynd.

Það verður þó að segjast að eftir seinni fundinn er ekki laust við að skilningur hafi vaknað eða áhugi hjá utanrrh. á þessu máli og það hefur a.m.k. verið ákveðið að embættismenn haldi formlegan fund um málið. Einstaka utanríkisráðherrar hafa tjáð sig jákvætt um aukna samvinnu meðal Norðurlandanna og ég hvet utanrrh. til þess að vera í þeim hópi.

Mig langar líka í þessari umræðu að víkja að svæðasamstarfi. Hnattvæðingin hefur gefið svæðisbundnu samstarfi landa aukna vigt, sérstaklega landa með sama gildismat og grunnviðhorf. Saman geta þessi lönd haft mjög mikil áhrif og staðið vörð um grundvallaratriði í samstarfi á alþjóðavettvangi. Norðurlönd eiga mjög mikið sameiginlegt og setja velferðarmál í öndvegi og á mörgum sviðum. Þar sem Norðurlönd eru smá hvert um sig eiga þau möguleika á að ná miklum árangri saman í alþjóðasamstarfi. Þegar við tölum um svæðasamstarf eða samstarf sem Ísland á í, t.d. formlegt, er ekki hægt að líta fram hjá Norðurlandasamstarfinu sem ég hef alltaf sett afar hátt. Ég á sæti í forsætisnefnd Norðurlandaráðs, auk þess að vera fulltrúi í Norræna menningarsjóðnum og áheyrnarfulltrúi fyrir hönd ráðsins í heimskautaráðinu. Og það er einstakt að 87 þingmenn hittist fjórum til fimm sinnum á ári og sömuleiðis ráðherrar í þessum löndum. Það er 50 ára reynsla af samvinnunni á ráðherra- og þingmannavettvangi. Þarna geta þingmenn einu sinni á ári átt orðastað við ráðherra úr nágrannalandinu og það er alveg ljóst að miðað við þá reynslu, 50 ára reynslu sem hér er að finna, munu Norðurlönd finna sína pólitísku stöðu í svæðaskiptri Evrópu, hvort sem löndin verða öll innan Evrópusambandsins eða ekki.

Norðurlandaráð breytti skipulagi sínu um nokkurra ára skeið beinlínis til að mæta breytingunum sem urðu við sjálfstæði Eystrasaltsríkjanna og opnun inn í Vestur-Rússland og vegna breyttrar Evrópumyndar við að Finnland og Svíþjóð gengu í Evrópusambandið þar sem Danmörk var fyrir. Nærsvæðanefnd Norðurlandaráðs og Evrópunefndin urðu til til að bregðast við nýjum straumum en nú hefur skipulagi aftur verið breytt til fyrra horfs í samræmi við norrænar meginlínur. Vegna þróunar mála innan Norðurlandaráðs og í Evrópusambandinu og ekki síst vegna hnattvæðingar má reikna með að svæðasamstarf muni þróast í æ ríkara mæli í Evrópu.

Undir forustu Pavo Lipponen, forsætisráðherra Finnlands, var sett fram stefnumörkun í Evrópusambandinu um norðlægu víddina, þ.e. að beina sjónum að þörfum svæðisins í Norður-Evrópu og að samvinnu um uppbyggingu, t.d. á sviði samgangna, orkumála og ekki síst umhverfismála, inn í Eystrasalt og jafnvel inn í Rússland. Sérstök áhersla er lögð í Norðurlandaráði á Vestur-Norðurlönd, Ísland, Færeyjar og Grænland, í norræna samstarfinu og má segja að ofuráherslan í austur á liðnum árum hafi átt sinn þátt í þessari nýju stefnumörkun. Nú hefur maður getað reiknað með því að norræna víddin, sem er á vettvangi Evrópu og þar sé verið að starfa í norðuraustur, komi ekkert við áherslur Norðurlandaráðs á Vestur-Norðurlönd en það er þannig vegna þess að Norðurlandaráð hefur óskað að hafa aðkomu að störfum innan norðlægu víddarinnar. Stjórnmálamenn frá Evrópusambandinu héldu í fyrrasumar fund í Nuuk eingöngu til að fjalla um málefni Vestur-Norðurlanda af því að þeir telja að þau verkefni muni skarast við verkefnin í norðlægu víddinni í Norður-Evrópu. Þetta er afar mikilvægt.

Heimskautaráðið nýtur æ meiri athygli og mér fannst hæstv. utanrrh. hóflegur þegar hann sagðist hafa átt aðild að því að að því var komið á. Hann flutti á sínum tíma beinlínis tillöguna í Norðurlandaráði um að taka upp þetta samstarf sem fór hægt af stað en nýtur nú æ meiri athygli. Og fyrir okkur Íslendinga skiptir þetta svæðasamstarf mjög miklu máli. Það eru okkar hagsmunir að á alþjóðavísu sé brugðist við ábendingum um alvarlega þróun á norðurhjara, eins og því að loftslagsbreytingar sem annars staðar taka 25 ár taka eingöngu 10 ár á norðurskautssvæðinu. Á fundi í Kanada í nóvember kom fram að afleiðingar loftslagsbreytinga hefðu ekki einungis alvarlegar afleiðingar fyrir birni eða önnur dýr merkurinnar og þá með vísan til rannsókna um að frerinn er alltaf að minnka og ísinn að þynnast, heldur mundu þessar alvarlegu breytingar hafa mikil áhrif á fólk og búsetu á norðurslóð.

Þrátt fyrir að hólfaskipting samræmist ekki hugmyndafræði Evrópusambandsins tel ég að svæðasamstarf verði vaxandi þar í framtíðinni og vildi gjarnan heyra álit hæstv. utanrrh. á því. Það er talið að Norðurlöndin ásamt t.d. Eystrasaltslöndunum og Póllandi geti orðið mjög sterkt og mótandi svæði innan Evrópusambandsins og jafnframt að þótt Norðurlöndin öll séu ekki innan Evrópusambandsins muni það vera sterkt fyrir Ísland og Noreg sem standa utan við að þetta svæði verði öflugt. Verði bæði Ísland og Noregur með í Evrópusambandinu mun það að sjálfsögðu efla styrk svæðisins en það er erfitt að átta sig á afleiðingum þess fyrir Ísland og Noreg utan Evrópusambandsins ef hin Norðurlöndin, Eystrasaltslöndin og Pólland auka sitt samstarf.