Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 27. febrúar 2003, kl. 14:06:46 (4176)

2003-02-27 14:06:46# 128. lþ. 85.1 fundur 445#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 128. lþ.

[14:06]

Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér er kunnugt um það sem við tökum þátt í. Við tökum þátt í einstökum aðgerðum sem Norðurlöndin ákveða að fara saman í og það er einn þáttur í slíkrar samvinnu. Í starfshópnum sem ég átti sæti í sáu menn þetta í víðara samhengi. Ef til vill á það eftir að hefta okkur enn um skeið að þrjú löndin eru innan Evrópusambandsins og tvö utan. Ég er ekki viss um að það eigi samt eftir að hefta okkur svo mikið þó að þannig verði um hríð.

Norðurlandaráð ákvað eftir viðræður við ráðherraráðið að setja á laggirnar nýjan starfshóp til að fylgja eftir og fylgjast með þróuninni, fylgja eftir fyrri ályktunum og eiga viðræður við starfshóp ráðherraráðsins. Ég er sannfærð um að hugmyndafræðin sem liggur að baki þessum tillögum Norðurlandaráðs er rétt vegna þess að Norðurlöndin, sökum þjóðfélagsgerðar og þeirrar grunnhugsunar sem gildir þar, eru virt á annan hátt en Evrópa sem slík. Það er kannski það afl og sá kraftur sem við teljum að nýta þurfi. Ég held að það sé engin tilviljun að valinn var sænskur maður til að fara fyrir vopnaleitarmönnum. Hann sýndi t.d. mikla snilli í afgreiðslu sinni síðast þegar hann skilaði skýrslu. Öðrum hefði kannski ekki tekist að afstýra að strax þá væri vaðið af stað. Það ríkir önnur hugsun og annað viðhorf gagnvart Norðurlöndunum. Við munum halda áfram að vinna með þessi mál.