Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 27. febrúar 2003, kl. 15:02:38 (4191)

2003-02-27 15:02:38# 128. lþ. 85.1 fundur 445#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), ÞSveinb
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 128. lþ.

[15:02]

Þórunn Sveinbjarnardóttir:

Hæstv. forseti. Það hefur verið fróðlegt að fylgjast með skoðanaskiptum hv. þingmanna hér í dag og svo skoðanaskiptum á milli þingmanna og hæstv. utanrrh., ekki síst um málið sem síðast var rætt um, þ.e. hugsanlegt stríð við Írak. Mig langar að víkja að fleiri atriðum á sviði alþjóðastjórnmálanna og utanríkisstefnu Íslands þó að að sjálfsögðu ekki verði hjá því komist að ræða ástandið í heiminum með tilliti til Íraks einnig.

Hv. þm. Össur Skarphéðinsson, formaður Samfylkingarinnar, fór í ítarlegu máli m.a. yfir Evrópumálin og stöðu varnarsamningsins. Þá ræddi hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir um svæðasamstarf og mikilvægi Norðurlandaráðs. Ég tek heils hugar undir það sem þau höfðu fram að færa.

Einnig hefur verið minnst á Palestínu, réttara sagt ástandið í Ísrael og á hernumdu svæðunum í Palestínu. Hæstv. utanrrh. orðaði það svo að þar væri staðan í sjálfheldu. Ég tek undir það með hæstv. ráðherra. Hún er í sjálfheldu og verður skelfilegri frá degi til dags þó að fyrir ári hefði okkur kannski þótt ómögulegt að ímynda okkur að svo mundi fara í Ísrael og Palestínu en því miður hefur það orðið raunin. Við heyrðum í fréttum í morgun af ákalli hjálparstofnana sem segja að neyðarástand ríki á hernumdu svæðunum og yfirvofandi sé hungursneyð á Vesturbakkanum og í Gaza. Talsmenn hjálparstofnana hafa einnig getið þess að um einn milljarð bandaríkjadollara vanti til að halda úti lágmarksneyðaraðstoð við Palestínumenn á hernumdu svæðunum. Fáist þeir fjármunir ekki verða þessar hjálparstofnanir jafnvel að hætta starfsemi sinni. Þá blasir væntanlega hungursneyð við stórum hluta þess fólks sem byggir Palestínu.

Hernámið er, eins og við vitum, að versna. Stöðugar árásir eru gerðar á óbreytta borgara hvar sem þeir eru, hvert sem þeir fara, hvernig sem þeir haga sér. Eyðilegging eigna, húsnæðis og landnæðis er linnulaus. Það var sagt í fréttum í morgun að líklega hefði það aldrei gerst í sögunni að heilli þjóð væri meinað að nota vegi. Þegar maður hugsar um hvernig palestínsku þjóðinni hefur verið komið fyrir í því sem kannski líkist helst mörg hundruð fangabúðum á hernumdu svæðunum, þar sem með öllum ráðum er komið í veg fyrir að fólk geti haft eðlileg samskipti, sótt vinnu eða hlúð að sínum nánustu ef eitthvað bjátar á, hlýtur hver einasta manneskja að sjá að ástandið er ekki bara óviðunandi. Það er ólíðandi.

75% Palestínumanna á hernumdu svæðunum lifa á minna en tveimur dollurum á dag. Það eru um 160 kr., herra forseti. Þetta eru tölur sem við erum vön að heyra frá þriðja heiminum, frá fátækustu löndum heims en ekki frá löndum sem hafa náð svo langt í velmegun og framþróun eins og löndin fyrir botni Miðjarðarhafs hafa gert. Um 65% Palestínumanna munu vera atvinnulaus og um 30% barna eru vannærð. Vannæringin er eitt en áhrif ástandsins á börn og unglinga á hernumdu svæðunum og á það fólk sem hefur vaxið úr grasi undanfarin 36 ár í skjóli þessa hernáms hljóta að vera ógnvænleg. Hverjum manni hlýtur að vera ljóst að þetta ástand gefur ekki af sér friðelskandi og sáttfúsa einstaklinga. Ég held að það sé því miður raunin, að það sé það sem við horfumst í augu við þegar unglingar líma á sig dínamít og fara yfir til Ísraels til að sprengja þar upp aðra unglinga. Þetta er sá veruleiki sem við þurfum að horfast í augu við, herra forseti.

Hér hefur verið minnst á þá samþykkt er hv. Alþingi gerði á síðasta þingi með eindregnum stuðningi við frið í Ísrael og Palestínu og eindregnum stuðningi við sjálfstæði Palestínu og sjálfsákvörðunarrétt. Hæstv. utanrrh. hefur svarað því hvernig því hefur verið komið á framfæri. Dropinn holar vonandi steininn og vonandi geta þau skilaboð aftur hljómað fyrir okkar hönd fyrir botni Miðjarðarhafs. Það er auðvitað engin leið að gefast upp, hvorki fyrir okkur né aðra, við þessar aðstæður. Það er óneitanlega hryggilegt að hugsa til þess hver þróunin hefur verið í Palestínu á síðustu rúmlega tveimur árum.

Ofan á allt þetta bætist að stríð vofir yfir á hinu stóra svæði sem Miðausturlönd eru þegar. Við bætist umræðan um stríð og stríðsógnin, 250 þúsund hermenn skilst mér að Bandaríkjastjórn sé búin að senda á svæðið. Ég óttast því miður að ef til stríðsátaka kemur í Írak muni stjórnvöld í Ísrael nota það tækifæri til þess að ganga á milli bols og höfuðs á Palestínumönnum. Það er hrikalegt að þurfa að segja þetta, hæstv. forseti, en það er mjög margt sem bendir til þess. Þær fréttir sem berast frá talsmönnum Palestínumanna og almennt af því sem sagt er í stjórnmálaumræðunni í Ísrael benda til að svo gæti farið.

Hér hefur áður verið minnst á Mustafa Barghouthi, hinn sama og heimsótti landsfund Samfylkingarinnar fyrir rúmu ári, mikinn baráttumann fyrir sjálfsákvörðunarrétti og mannréttindum Palestínumanna. Það var haft eftir honum í útvarpsviðtali í morgun að ef til stríðs kæmi væru Palestínumenn berskjaldaðir og kannski meira en margur annar á þessu svæði. Palestínumenn eru hernumin þjóð. Það er kaldranalegt að heyra einnig að stjórnvöld í Ísrael hafa útbýtt gasgrímum til þegna sinna af ótta við að efnavopn yrðu notuð í átökum ef til átaka kemur við Írak. En grímurnar fá bara þeir sem eru ísraelskir ríkisborgarar, ekki fólkið á hernumdu svæðunum. Það er reyndar ótvírætt brot á Genfarsáttmálanum.

Vopnin eru ein hlið á þeirri umræðu sem farið hefur fram í dag. Ég býst ekki við að nokkur í þessum sal vilji fara í stríð. Ég trúi að það sé ekki ósk eins eða neins á hinu háa Alþingi. Ég get hins vegar ekki tekið undir það þegar fólk fullyrðir að enginn vilji stríð. Þá verður mér hugsað til vopnaframleiðenda um allan heim. Ég segi þetta m.a. vegna þess að ég átti þess kost um daginn að sækja frekar óvenjulegan fræðslufund um hættur sem leynast þar sem jarðsprengjum hefur verið dreift og alls kyns minni sprengjum sem oft eru notaðar til að plata fólk til að koma nálægt þeim eða koma við þær. Þar var og fjallað um hættuna af ósprengdum flaugaoddum eða vopnum, hvernig sem þau hafa lent þar sem þau eru. Þetta var einhver óskemmtilegasta fræðsla sem ég hef fengið um dagana, ekki síst vegna þess að útsjónarsemi vopnaframleiðenda er ótrúleg, og skil ég þá engan undan.

Svo ég nefni dæmi er gert út á að hafa litlar jarðsprengjur í skærum litum þannig að meiri líkur en minni séu á því að börn taki þær upp á víðavangi. Af þessu hafa Afganir t.d. mikla reynslu. Rússar notuðu svona sprengjur mikið í stríðinu í Afganistan. Þar eru, ég þori ekki að fara með það nákvæmlega, örugglega þúsundir jarðsprengna enn í jörðu í Afganistan ef ekki tugþúsundir. Þessi hrikalegu vopn er hægt að framleiða fyrir 200--500 ísl. kr. en það kostar kannski 10--15 þús. kr. að fjarlægja eina einustu sprengju. Þessar sprengjur sem upphaflega voru ætlaðar gegn hermönnum og herliðum sem taktísk vopn eru núna fyrst og fremst notaðar gegn óbreyttum borgurum, gegn almenningi. Sem slíkar eru þær auðvitað skýlaust brot á þeim sáttmálum og samningum sem alþjóðasamfélagið hefur gert um notkun vopna. En það þarf ég svo sem ekki að fara nánar út í enda veit ég að hv. þingmenn og hæstv. ráðherra vita allt um það.

Ég tel þetta atriði þó hafa orðið út undan í þessari umræðu og þá á ég við hina almennu umræðu um stríðsógnina. Verði styrjöld í Miðausturlöndum, þ.e. í Írak, er eins gott að allir, hvort sem það eru aðildarríki öryggisráðsins eða aðrir, hugsi til þess hvað tekur við þegar henni lýkur. Af þeirri styrjöld mundi hljótast gífurlegur kostnaður, og ekki bara í vopnum og tólum, heldur og mannfórnum, örkumlum og eyðileggingunni sem mundi blasa við, t.d. á vatnsveitum, raforkukerfum, vegum, brúm og þannig mætti lengi telja. Það mun ekki taka mánuði eða missiri að koma samfélaginu í samt lag eftir það. Ég tala nú ekki um samfélag í því ástandi sem hið írakska samfélag er. Í Afganistan höfum við t.d. séð að fjárstreymið þangað hefur verið tregara en menn lofuðu í upphafi. Ætli stjórnmálamenn sér að leysa vandamál með því að afvopna Írak og, eins og virðist vera yfirlýst stefna Bandaríkjastjórnar, koma Saddam Hussein frá völdum --- þó svo að það sé ekki það sem um er getið í ályktun öryggisráðsins nr. 1441 en þar er aðeins kveðið á um afvopnun --- skyldu menn einnig gera sér grein fyrir því hvað bíður þeirra í ár og áratugi eftir að slíkum hildarleik lýkur.

Jafnvel þeir sem tala fyrir stríði, aðrir en þeir sem hafa talað hér í dag og í öðrum löndum, geta ekki sloppið svo billega frá þessari umræðu að gera aldrei að umræðuefni það sem við tekur. Það er ekki hægt að láta sem svo að það takist að afvopna Íraka. Ef það tækist að koma Saddam Hussein og hans klíku frá völdum væri verkefnið rétt að hefjast. Það er áratugaverkefni rétt eins og uppbygging Evrópu eftir seinni heimsstyrjöldina og það verkefni mun kosta miklu meiri peninga en nokkurn hér held ég órar fyrir.

Hæstv. forseti. Ég ætlaði að koma inn á mörg fleiri mál í ræðu minni í dag. Mér sýnist tíminn nokkurn veginn á þrotum. Ég vil að lokum taka undir með hæstv. utanrrh. um áskoranir framtíðarinnar, sem hann nefndi svo í upphafi ræðu sinnar í dag. Þær eru margar og miklar og tengjast m.a. þeim skuldbindingum sem Ísland hefur tekist á herðar í Jóhannesarborg með þúsaldarmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna og þeim skuldbindingum sem víkja að því að hjálpa öðrum þjóðum til sjálfshjálpar úr neyð og fátækt. Mig langar til þess rétt í lokin að spyrja hæstv. utanrrh. hvað líði stefnumótun eða jafnvel framkvæmdaáætlunum sem mundu stuðla að því að Sameinuðu þjóðirnar og við sem aðildarríki þeirra gætum unnið að því að þúsaldarmarkmiðin náist, þær skuldbindingar sem við höfum tekist á herðar t.d. í Jóhannesarborg.