Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 27. febrúar 2003, kl. 15:41:57 (4197)

2003-02-27 15:41:57# 128. lþ. 85.1 fundur 445#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), BBj
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 128. lþ.

[15:41]

Björn Bjarnason:

Herra forseti. Ég vil taka undir með því þegar hæstv. utanrrh. segir í ágætri skýrslu sinni að það séu nýjar ógnir í alþjóðamálum og menn þurfi að meta stöðu sína með nýjum og öðrum hætti miðað við þá þróun sem við höfum orðið vitni að á undanförnum missirum.

Raunar er það svo að þegar litið er til umræðunnar um þessi mál og menn velta því fyrir sér hvenær eigi að hefja tímatalið, þegar metið er að hinar nýju aðstæður hafi myndast, staldra menn nú orðið við árið 1993 í Bandaríkjunum þegar fyrst var gerð tilraun til að eyðileggja hinar stóru byggingar, turnana tvo í New York. Þá er talið að hafist hafi markviss herferð hryðjuverkamanna undir stjórn Osama bin Ladens gegn Bandaríkjunum. Menn velta því síðan fyrir sér hvort rétt hafi verið við brugðist, hvort nóg hafi verið að gert og fara yfir málin í ljósi slíkra hluta. Við hljótum að spyrja okkur sjálf hvernig við Íslendingar höfum brugðist við, hvernig á málum hafi verið tekið hér, hvort við höfum farið í það mat á okkar eigin stöðu í öryggismálum sem er nauðsynlegt til þess að skilgreina hana með skynsamlegum og réttum hætti, ef svo má að orði komast við núverandi aðstæður.

Ef við lítum á þróun mála frá því varnarsamningurinn var gerður árið 1951, fyrir rúmum fimmtíu árum, sjáum við að á hverjum áratug síðan hafa menn farið í mjög miklar umræður um stöðu Íslands í alþjóðamálum og utanríkis- og varnarmálum. Ég minni á að í upphafi sjöunda áratugarins voru teknar ákvarðanir um Almannavarnir ríkisins og það kerfi myndað sem enn er við lýði og byggðist á mati, þá á hættunni á kjarnorkuógn og hættunni á því að kjarnorkuárás yrði gerð á Ísland og þeim viðbrögðum sem þyrfti að grípa til vegna þess.

Því miður hefur ekki farið fram sams konar úttekt á stöðu okkar að þessu leyti að því er almannavarnir varðar síðan. Þótt vissulega hafi verið gerð úttekt á níunda áratugnum er það ekkert sambærilegt við það sem var gert þegar Almannavarnir ríkisins voru stofnaðar. Spurning er hvort ekki sé nauðsynlegt að framkvæma slíkt hættumat og fara yfir stöðu okkar að því leyti.

Við munum eftir því að í upphafi áttunda áratugarins voru miklar umræður um varnarmál þegar hér var við völd ríkisstjórn sem vildi að varnarliðið hyrfi úr landi í áföngum. Horfið var frá því, varnarmálin voru mjög til umræðu og þá kom fram skýr vilji þjóðarinnar til þess að halda áfram varnarsamstarfi við Bandaríkin. Á árunum 1981--1991 var stöðug uppbygging á Keflavíkurstöðinni og spennan jókst í kringum Ísland frá hernaðarlegum sjónarhóli og menn lögðu á ráðin um það hvernig ætti að taka á stöðugri útþenslu Sovétríkjanna, bæði í hafinu og í lofti við Ísland. Gerðar voru ráðstafanir í samráði við íslensk stjórnvöld til að bregðast við því ástandi.

[15:45]

Á síðasta áratug, þegar Sovétríkin voru úr sögunni og Varsjárbandalagið og allt það kerfi sem var forsenda kalda stríðsins vegna ógnar frá kommúnistaríkjunum, fór fram úttekt á stöðu Íslands og viðræður við bandamenn okkar, bæði um varnarmál og einnig um stöðu okkar innan Atlantshafsbandalagsins. Og það er spurning hvort ekki sé nauðsynlegt að gera slíkt hið sama núna árið 2003 að menn fari yfir það og skilgreini og átti sig nákvæmlega á því hvernig best sé að þessum málum staðið miðað við núverandi aðstæður. Utanrrn. undir forustu hæstv. utanrrh. hefur lagt fram greinargerðir og skýrslur á undanförnum árum um þessi málefni, sem eru m.a. forsenda þess að við erum virkari í friðargæslu en áður, eins og fram kemur í skýrslu hæstv. utanrrh., en það eru fleiri þættir sem þarf að líta til þegar við förum yfir þessi mál.

Þegar rætt er um hryðjuverkamenn og einstök ríki og spurninguna um hvernig eigi að bregðast við hinni nýju ógn þá, eins og við vitum, stendur heimurinn á öndinni núna vegna þess hvernig tekið verði á málum gagnvart Írak sem síðan árið 1991 hefur neitað að verða við þeim skilmálum sem Sameinuðu þjóðirnar settu þeim í lok vopnahlés sem þá var gert. Síðan hefur öryggisráð Sameinuðu þjóðanna samþykkt 17 ályktanir sem Írakar hafa haft að engu og frá 1998 þangað til nú fyrir skömmu meinaði Íraksstjórn eftirlitsmönnum Sameinuðu þjóðanna að framkvæma skylduverk sín innan Íraks í leit að gjöreyðingarvopnum. Það er markmið allra, og hefur komið fram hér í umræðunum, að þetta ástand sé óviðunandi og standa beri þannig að málum að Íraksstjórn verði við ályktunum Sameinuðu þjóðanna og engin spurning um það. Ég hef ekki orðið var við það hér að menn deili um það í sjálfu sér að nauðsynlegt sé að knýja Íraksstjórn til þess að hlíta ályktunum Sameinuðu þjóðanna. Að gera það hins vegar með þeim rökum að aðrar þjóðir hafi ekki orðið við samþykktum Sameinuðu þjóðanna er ekki rétt því aðrar þjóðir hafa ekki gengist undir slíkar samþykktir eins og Írakar gerðu árið 1991. Og að segja sem svo að aðrar þjóðir hafi ekki skýrt frá því hvernig vopnabúnaði þeirra sé háttað og þess vegna sé ekki hægt að krefjast þess sama af Írökum er einnig rangt þegar menn fjalla um þetta mál því fyrir liggja samþykktir Sameinuðu þjóðanna um að Írökum beri að gera þetta, beri að framfylgja þeim ályktunum sem Sameinuðu þjóðirnar gerðu.

Spurningin hefur verið um tíma. Spurt hefur verið og menn voru að velta því fyrir sér hvort það yrði kannski á morgun, 28. febrúar, sem Hans Blix mundi koma til Sameinuðu þjóðanna og gera grein fyrir máli sínu eða 14. mars. Niðurstaðan varð sú að hann kemur 7. mars og gefur öryggisráðinu skýrslu og þá munu menn velta fyrir sér hvað eigi að gera næst. Þessi þróun reynir mjög á innviði þess samstarfs sem mótað hefur alþjóðaþróunina frá lokum síðari heimsstyrjaldarinnar eins og við vitum, og ágreiningur er um skilgreiningu á hinni nýju ógn bæði innbyrðis milli Evrópuríkja og einnig milli hluta Evrópuríkja og Bandaríkjanna. Þetta hefur birst í deilum innan Evrópusambandsins og einnig í deilum innan Atlantshafsbandalagsins og það er öllum þjóðum mikið kappsmál að þessar deilur verði ekki til þess að eyðileggja gott samstarf þessara ríkja sem er jú meginforsenda þess að friður haldist í heiminum.

Ég vil taka undir með utanrrh. að það er neyðarúrræði að grípa þurfi til vopna. En vandinn snýst nú eins og jafnan áður um að finna bestu leiðina til að tryggja friðinn. Sagan kennir okkur að það verður ekki gert með því að láta undan einræðisherrum sem hafa í hótunum og neita að virða samninga. Ef við lærum ekki af sögunni tökum við þá áhættu að reyna það aftur sem hún kennir okkur.

Þegar menn tala um Sameinuðu þjóðirnar og að menn eigi að treysta alfarið á þær þá minnir það vissulega á umræður sem fóru fram á fjórða áratugnum þegar menn töluðu um að það ætti að bregðast við Hitler með sameiginlegu öryggi og vísa því til Þjóðabandalagsins, og menn trúðu því að með því að vísa málum Hitlers til Þjóðabandalagsins væri hægt að koma í veg fyrir að hann gripi til styrjaldaraðgerða eða ofbeldisaðgerða gegn nágrannaríkjum sínum. Síðan var það þegar hann réðist inn í Rínarlöndin að einn stjórnmálamaður í Bretlandi, Winston Churchill, reis upp og sagði: Það er ekki hægt að una þessu, Bretar verða að grípa til ráðstafana og hefja vígbúnað fyrir sjálfa sig til að vera reiðubúnir til að takast á við þessa hættu. Og síðan stig af stigi jókst mönnum skilningur á því að ekki væri unnt að búast við því að Hitler léti undan Þjóðabandalaginu eða þeim sem áttu að framfylgja hinu sameiginlega öryggi. Við erum að mörgu leyti í svipaðri stöðu núna þegar menn tala á þann veg að unnt sé að treysta á hið sameiginlega öryggi án þess að vera reiðubúin til að segja við einræðisherrann að ef hann hlíti ekki þessum samþykktum þá geti hann átt yfir sér beitingu valds.

Það er það sem við erum að fjalla um m.a. þegar við ræðum þessi mál hér á þessum stað eins og menn hafa verið að gera í breska þinginu í gær, franska þinginu og í þjóðþingum víða um lönd. Við sem lýðræðissinnar og friðarsinnar hljótum að sjálfsögðu að vilja vinna að því að komið verði í veg fyrir að einræðisherrar geti leikið alþjóðastofnanir og gert þær að engu eins og líkur eru á ef ekki tekst að knýja Saddam Hussein til þess að hlíta ályktunum Sameinuðu þjóðanna.

Ég vil aðeins víkja að Evrópumálunum. Ég tek undir það sem fram kom í máli hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar varðandi afstöðu formanns Samfylkingarinnar, ég set nú jafnan spurningarmerki fyrir aftan titilinn formaður þegar ég ræði um Össur Skarphéðinsson núna eins og málum er háttað í Samfylkingunni, ég veit ekki hvaða málsvari hann er í raun og veru fyrir þann flokk, en það er alveg ljóst að hann hefur í viðræðuþáttum, m.a. við mig, lýst ólíkum sjónarmiðum um afstöðu sína til Evrópusambandsins og nú síðast að það beri ekki að gera neitt í þeim málum nema Sjálfstfl. sé fús til þess að hafa um það forgöngu. Hann taldi hins vegar þegar ég var með honum í sjónvarpsþætti og hann var nýkominn frá einhverjum fundi í Interlaken í Sviss, að standa ætti þannig að málum að breyta ætti viðræðunum um stækkun Evrópska efnahagssvæðisins í aðildarviðræður okkar og Evrópusambandsins, og það væri um að gera að taka þannig á hinum ósanngjörnu kröfum Evrópusambandsins að við mundum lýsa því yfir að við vildum hefja við þá aðildarviðræður. Hann hefur því gjörsamlega breytt um stefnu núna á undanförnum vikum í þessu máli. Ég heyri það að talsmenn flokksins hér eru að reyna að skýra þessa stefnubreytingu eða skilgreina hana með einhverjum rökréttum hætti en ég held að það sé gjörsamlega ómögulegt, sama hve margar ræður menn flytja hér í þessum sal um það mál. Það er ljóst að hans hugur stendur til þess núna að Evrópumálin verði ekki ofarlega á dagskrá í komandi kosningabaráttu.

Ég tel að líta eigi á viðræðurnar um stækkun Evrópska efnahagssvæðisins með vísan til 128. gr. samningsins um Evrópska efnahagssvæðið þar sem beinlínis er tekið fram að nýjum aðildarríkjum Evrópusambandsins er skylt að gerast aðilar að Evrópska efnahagssvæðinu. Ég lít á þetta fyrst og fremst sem tæknilegt viðfangsefni og viðfangsefni sem eigi að byggja alfarið á samningnum um Evrópska efnahagssvæðið og er þess vegna mjög undrandi á þeirri kröfugerð sem Evrópusambandið hefur talið sér sæma að setja fram gagnvart okkur vegna þessa máls og tel það í rauninni í andstöðu við skýr ákvæði samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, ef ekki beinlínis brot á samningnum ef þessi ríki gerast ekki aðilar að Evrópska efnahgssvæðinu um leið og þau gerast aðilar að Evrópusambandinu því Evrópusambandið kemur fram fyrir hönd aðildarríkja sinna gagnvart okkur innan Evrópska efnahagssvæðisins og Evrópusambandið á að sjálfsögðu að sjá til þess að það hafi umboð frá öllum sínum aðildarríkjum til þess að tala við okkur sem málsvari þeirra innan Evrópska efnahagssvæðisins.

Ég ætla ekki að hafa þessi orð fleiri, herra forseti. Ég vil að lokum ítreka að ég er sammála þeirri meginskoðun sem kemur fram í skýrslu hæstv. utanrrh. og tel að hún sé tímabær áminning til okkar um þau atriði sem við stöndum frammi fyrir í utanríkismálum, en vil árétta það sem ég sagði um nauðsyn þess að við séum alltaf tilbúin til að meta stöðu okkar í öryggis- og varnarmálum sérstaklega og tryggja að öryggi okkar sé sem best tryggt í samræmi við þær hættur sem að okkur kunna að steðja.