Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 27. febrúar 2003, kl. 16:01:50 (4202)

2003-02-27 16:01:50# 128. lþ. 85.1 fundur 445#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 128. lþ.

[16:01]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Björn Bjarnason segir að það væri neyðarúrræði að grípa til vopna gagnvart Írak. Engu að síður heyrist mér hann styðja slíka árás ef þörf á þykir. Hann velti vöngum yfir því í ræðu sinni hvaða aðstæður réttlættu slíka árás. Hann vitnaði í fyrri samþykktir öryggisráðsins sem Írakar hefðu ekki hlýtt, sautján talsins ef ég man rétt. Nú er það svo að fjölmörg ríki hafa virt ályktanir öryggisráðsins að vettugi, þar á meðal Ísrael. Sennilega hefur Ísrael öllum ríkjum fremur virt ályktanir Sameinuðu þjóðanna og öryggisráðsins að vettugi. Þetta er staðreynd. Finnst hv. þingmanni það réttlæta refsiaðgerðir, jafnvel hernaðaraðgerðir, gegn Ísrael eða öðrum ríkjum sem hafa virt ályktanir öryggisráðsins að vettugi?

Hv. þm. tengdi í ræðu sinni hugsanlega árás á Írak hryðjuverkastarfsemi. Hann talaði um 11. september. Ég skildi hann svo að þörfin fyrir að uppræta hryðjuverkastarfsemi í heiminum lægi að baki ákvörðunum Bandaríkjastjórnar og Breta, þ.e. ásetningi þeirra að fara með hernaði gegn Írökum.

Ég vil spyrja hv. þm. hvernig hann meti þá skýrslu sem m.a. hefur komið frá öldungadeild Bandaríkjaþings sem segir að Íranar séu, þegar dæmið er gert upp, hættulegri hvað þetta snertir, séu í nánari tengslum við hryðjuverkasamtök en Írakar og séu nær því að búa til gereyðingarvopn en Írakar. Finnst honum þá koma til álita að fara með hernaði gegn Íran?

Að lokum ein forvitnileg spurning til Björns Bjarnasonar, hv. þm., mikils áhugamanns um NATO: Sér hv. þm. það fyrir sér að þær aðstæður gætu komið upp að Ísland ætti að verða herlaust land? Og hverjar eru þær aðstæður?