Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 27. febrúar 2003, kl. 17:14:50 (4217)

2003-02-27 17:14:50# 128. lþ. 85.1 fundur 445#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 128. lþ.

[17:14]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Varðandi ríkisstyrkina þá er ekki endilega beint samband á milli ríkisstyrkja og ofnýtingar á auðæfum hafsins. Iðulega eru ríkisstyrkir til héraða eða landsvæða sem þurfa á slíkum styrkjum að halda í byggðarlegu tilliti. Mér finnst rangt að við stöndum að því að heimsbyggðinni allri verði settar mjög strangar reglur hvað þetta snertir. Þetta er sjónarmið sem ég hef. Við kunnum að vera ósammála um það efni, en það sem ég er að leggja áherslu á er að mér finnst eðlilegt að þetta sé rætt og stefnumótandi ákvörðun sé tekin á Alþingi en ekki lokað inni í ráðuneytinu. Ég man að þetta var ósk og krafa sem fyrrv. formaður Alþýðuflokksins hafði sett fram en ég man ekki eftir því að Alþingi tæki nokkurn tímann stefnumótandi ákvörðun um þetta efni.

Varðandi hitt, kröfulistana. Hæstv. ráðherra segir að þetta verði kynnt í utanrmn. Við erum að tala um miklu örlagaríkari ákvarðanir en svo að kynning dugi í utanrmn. Við erum að tala um grundvallaratriði. Við erum að tala um hvernig við svörum kröfum sem önnur ríki hafa reist á hendur okkur og verða skuldbindandi, vegna þess að tvíhliða samningar sem við kunnum að gera svona verða skuldbindandi fyrir okkur. Þetta kallar á umræðu hér á Alþingi. Málið er miklu stærra en svo að hjá því verði komist. Auðvitað geri ég mér grein fyrir því að í einhverjum tilvikum þarf að virða trúnað, en ég gagnrýni hins vegar að í þessu efni, í GATT-samningunum, eigi slíkt að gilda. Þetta varðar grundvallarskipulag samfélagsins og þar vil ég taka undir með verkalýðshreyfingu heimsins og almannasamtökum um allan heim og pólitískum öflum sem vilja opna þessa umræðu.