Lögmenn

Mánudaginn 03. mars 2003, kl. 16:26:37 (4291)

2003-03-03 16:26:37# 128. lþ. 86.7 fundur 612. mál: #A lögmenn# (EES-reglur, námskröfur) frv., JBjart (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 128. lþ.

[16:26]

Jónína Bjartmarz (andsvar):

Herra forseti. Að lokinni þessari umræðu verður frv. vísað til hv. allshn. og þar geri ég ráð fyrir að farið verði vel yfir þetta mál og það skoðað frá öllum hliðum.

Spurningar mínar efnislega til hæstv. dómsmrh. voru hvort hún teldi ekki nauðsynlegt að tryggja efnislegar lágmarkskröfur sem skilyrði lögmannsréttinda og hvort hún teldi það í sínum verkahring eða í verkahring hæstv. menntmrh.

En af því að hæstv. dómsmrh. nefndi áðan samræmingu námsins vil ég endurtaka að því fer fjarri að ég styðji það að við komum á einhvers konar stöðluðu laganámi á Íslandi. Ég fagna því fjölbreytilega námi sem hér er boðið upp á. Það er til þess að mæta mismunandi þörfum, annars vegar innan stjórnsýslunnar og við lögmanns- og dómarastörf og hins vegar þörfum atvinnulífsins. Ég held að samræmt nám sé ekki það sem við erum að tala um, heldur séum við að ræða um samræmdar kröfur, prófkröfur. Ég vildi leiðrétta þann misskilning ef hann hefði orðið. Það er nú svona sitt hvað.