Stofnun hlutafélags um Sementsverksmiðju ríkisins

Mánudaginn 03. mars 2003, kl. 18:46:53 (4319)

2003-03-03 18:46:53# 128. lþ. 86.11 fundur 648. mál: #A stofnun hlutafélags um Sementsverksmiðju ríkisins# (sala á eignarhluta ríkissjóðs) frv. 62/2003, JB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 128. lþ.

[18:46]

Jón Bjarnason (andsvar):

Herra forseti. Ég ítreka þá skoðun sem ég hef hér haldið fram að markmiðið í þessu á að vera að tryggja bæði framleiðslu á sementi hér á landi og sömuleiðis að finna víðtækara og fjölþættara hlutverk fyrir Sementsverksmiðjuna og tryggja stöðu hennar og rekstur á Akranesi, og tryggja þar með samkeppni á sementsmarkaði hér á landi.

Þetta á að vera meginhlutverkið, ekki bara að selja og selja sölunnar vegna eða að eigandinn hlaupi frá skuldbindingum sínum og ábyrgð gagnvart bæði Sementsverksmiðjunni og í rauninni því að það sé samkeppni á sementsmarkaði hér á landi.

Við verðum að gera okkur grein fyrir smæð og fámenni landsins okkar, og fjarlægð frá meginlandinu. Sement er nokkuð sem verður að flytja með skipum og er ekki svo rosalegur markaður fyrir miðað við önnur lönd. Engu að síður skiptir það máli fyrir hinn almenna Íslending að verð á sementi sé sem lægst.

Það er hægt að vera alveg sammála hv. þingmanni og vona og óska eftir og langa til að trúa að þessar og hinar aðgerðir leiði til þess að hér sé örugg og góð samkeppni í sementi. Reyndin er samt sú að þessi viðskiptaheimur er harður og þar víla menn ekki fyrir sér hlutina. Ég er ekkert viss um að gæskan gagnvart einstökum neytanda hér á landi verði alltaf höfð að leiðarljósi þegar búið verður að selja þessa verksmiðju þó að ég voni að allt fari vel.