Álverksmiðja í Reyðarfirði

Þriðjudaginn 04. mars 2003, kl. 19:06:59 (4349)

2003-03-04 19:06:59# 128. lþ. 87.6 fundur 509. mál: #A álverksmiðja í Reyðarfirði# frv. 12/2003, JB
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur, 128. lþ.

[19:06]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Þetta frv. til laga um heimild til samninga um álverksmiðju í Reyðarfirði er hér til lokaumræðu, 3. umr. á Alþingi. Það er ekki hægt að líta á lagasetningu um þessa heimild varðandi verksmiðjuna aðskilda frá byggingu Kárahnjúkavirkjunar. Þetta myndar eina heild.

Herra forseti. Eftir þá miklu og áköfu umræðu sem hér hefur staðið, bæði um Kárahnjúkavirkjun og álverksmiðjuna í Reyðarfirði, stendur það eftir að eina haldbæra ástæðan fyrir þessum framkvæmdum væri sú að treysta byggð á Austfjörðum. Varla er hægt að mæla með virkjuninni sem fjárfestingu því arðsemin yrði afleit og áhættan gríðarlega mikil. Arðsemin af þessum framkvæmdum öllum yrði einnig afleit þó að náttúra og land yrðu látin í té ókeypis. Þó að hún sé látin í té ókeypis undir virkjunarlón, lán Landsvirkjunar niðurgreidd með ríkisábyrgð og mengunarkvóti Íslendinga afhentur hinu erlenda fyrirtæki án borgunar yrðu þjóðhagsleg áhrif samt mjög óheppileg. Framkvæmdir hæfust ekki af fullum þunga fyrr en eftir 12--18 mánuði og á þeim tíma yrði íslenskt efnahagslíf aftur komið á skrið ef álverið hefði ekki komið til sögunnar, ef marka má spár fjmrn. og annarra greiningaraðila.

Það er því rangt sem látið er í veðri vaka að Fjarðaál sé nauðsynlegt til þess að lyfta landinu upp úr kreppu. Mótvægisaðgerðir ríkisins hljóta að verða þær að rýma til fyrir álversframkvæmdunum með því að kalla fram kreppu í öðrum greinum með bæði vaxtahækkunum og niðurskurði í ríkisfjármálum. Hin leiðin til þess að sporna gegn ofrisi er að fá erlendan vinnukraft til þess að reisa virkjunarmannvirkin og verksmiðjuna og ganga þar með að mestu leyti fram hjá Íslendingum, ella færu verðbólga og þensla á fljúgandi skrið. Af þessum sökum yrði hið eina jákvæða við Fjarðaál það að það yrði til að styrkja byggð á ákveðnu svæði á Austfjörðum. Og umræðan ætti í raun að snúast um það atriði fremur en að reyna að villa um fyrir almenningi um þjóðhagsleg áhrif framkvæmdanna.

Virðulegi forseti. Byggðaröskun síðustu ára er almennur efnahagsvandi sem er sameiginlegur fyrir landsbyggðina í heild. Hinar dreifðu byggðir hafa ekki staðist samkeppni við höfuðborgarsvæðið á svo mörgum sviðum. Til þess að bregðast við því verður að beita almennum aðgerðum sem leggja grunn að atvinnu og mannlífi vítt og breitt um landið. Hér má telja samgöngubætur og örugg fjarskipti. Eitt brýnasta hagsmunamálið er lækkun og jöfnun flutningskostnaðar um landið allt, en hann hefur hækkað gríðarlega og ekki hvað síst vegna fákeppni og aukinnar skattheimtu ríkisins. Gott aðgengi að almennri grunnþjónustu, póstþjónustu, símþjónustu, bankaþjónustu, heilsugæslu o.s.frv. skiptir miklu máli fyrir samkeppnishæfni búsetu og atvinnulífs. Sama gildir um grundvallarlýðréttindi, menntunarmöguleika og jöfnuð í lífskjörum.

Stjórnvöld geta rétt við samkeppnishæfnina með ýmsu móti og þannig tryggt jafnræði allra þegna landsins. Það hafa þau ekki kosið að gera og þess vegna er lagt í þessar gríðarlega sértæku aðgerðir sem Kárahnjúkavirkjun og Reyðarál eru, stærstu sértæku aðgerðir í atvinnulífi Íslendinga sem hingað til hafa verið gerðar.

Virðulegi forseti. Það er mat flestra hagfræðinga sem hafa tjáð sig um þetta mál að risaframkvæmdir sem þessar munu jú valda gífurlegri þenslu á Miðausturlandi, en jafnframt muni áhrifin á Reykjavíkursvæðinu í þá átt verða mikil. Öðrum landshlutum og öðrum atvinnugreinum munu aftur á móti blæða stórum vegna hækkunar vaxta og hás gengis krónunnar sem framkvæmdirnar munu kalla fram. Nokkur áhrif eru þegar komin í ljós. Gengi krónunnar hefur hækkað um 20% á nokkrum mánuðum og er mun hærra en er efnahagslífinu eðlilegt og forsendur t.d. fjárlaga gerðu ráð fyrir. Staðreyndin er sú að verði af þessum stórframkvæmdum munu þær hefta mjög vöxt allra annarra útflutningsgreina á framkvæmdatímabilinu og ryðja mörgum þeirra burt. Atvinnulífið sem heild verður einhæfara en ella vegna þess að því er í raun beint í einn iðnað, álbræðslu, og sú þróun mun bitna hart á landsbyggðinni sem heild. Sem byggðaaðgerð getur þessi risaframkvæmd á Miðausturlandi snúist í fullkomna andhverfu sína.

Virðulegi forseti. Hvaða þjóð mundi leggja 80--90% af virkjaðri orku sinni til framleiðslu í einn hráefnisiðnað, áls? Svo verður ef fyrirhugaðar áætlanir bæði um álverksmiðju í Reyðarfirði og stækkanir á álverksmiðju á suðvesturhorninu ná nú fram. Eins og fyrirhugað er eða tillögur eru um munu yfir 80% af virkjaðri orku á Íslandi tengjast einni hráefnisgrein, áli. Hvaða þjóð mundi haga sér með þessum hætti ef hún fengi að ráða sér? Nei, staðreyndin er sú að hér er það ríkisvald sem keyrir þetta mál fram af mikilli hörku og í andstöðu við meiri hluta þjóðarinnar, fullyrði ég, því það hefur komið fram í þeim skoðanakönnunum sem gerðar hafa verið að þjóðin, a.m.k. meiri hluti hennar, vill fá að greiða atkvæði um hvort í þessar risaframkvæmdir skuli ráðist eða ekki.

Virðulegi forseti. Á síðasta ári virtist sem viðskiptin við útlönd væru að komast í jafnvægi. Gengisþróun var hagstæð og verðbólgan viðráðanleg. Atvinnulífið lagaði sig hægt og bítandi að breyttum aðstæðum. Með góðri hagstjórn leit út fyrir möguleika á hægum en öruggum hagvexti á næstu árum. Möguleikar jukust á styrkingu velferðarkerfisins, auknum jöfnuði og eflingu atvinnulífs um allt land. En 200 milljarða fjárfesting á örfáum árum í litlu hagkerfi okkar fámenna lands er fullkomið glapræði. Fyrir aðeins brot af þeirri upphæð væri t.d. hægt að byggja upp öfluga ferðaþjónustu, standa að baki fjölbreyttri nýsköpun í atvinnulífi sem byggði á hugviti og framtaki einstaklingsins, standa að baki félagslegum samtakamætti þjóðarinnar og sjálfbærri nýtingu auðlinda landsins.

[19:15]

Virðulegi forseti. Bara fyrir hluta af því fé sem nú er verið að veita af hálfu ríkisins og hálfopinberra aðila, hundruð milljarða króna, væri hægt að byggja háskóla á Austurlandi, alþjóðlegan háskóla sem laðaði til sín fólk víða að úr heiminum til þess að rannsaka og njóta og læra og efla vísindi í kringum þau miklu náttúruauðæfi sem felast í Vatnajökli, umhverfi hans og þeim miklu fallvötnum sem verið er að misþyrma með hinum fyrirhuguðu framkvæmdum við Kárahnjúka. Það væri hægt að byggja þar stóröflugan háskóla á alþjóðavísu sem væri miklu betur í takt við þau gríðarlegu náttúruauðæfi sem þarna eru og við gætum notið.

Virðulegi forseti. Þjóðin tapar á Kárahnjúkavirkjun og hún tapar á Reyðaráli. Hún tapar á Kárahnjúkavirkjun vegna þess að þessum fjármunum væri mun betur komið fyrir í öðrum atvinnugreinum. Hún tapar einnig á Kárahnjúkavirkjun vegna þess að framkvæmdir henni tengdar munu ryðja öðru atvinnulífi og öðrum störfum til hliðar, og sú hætta er fyrir hendi að fyrir hvert það starf sem skapast í áliðnaði muni fleiri tapast annars staðar á landinu.

Herra forseti. Það er vel hægt að fagna með Austfirðingum að störf skapist í heimabyggð þeirra en það er ekki sama á hvaða forsendum það gerist. Ég benti hér á hversu miklu nær væri að byggja þarna upp öfluga ferðaþjónustu og öflugan háskóla. Það þyrfti ekki nema brot af þessum 200 milljörðum kr. til þess að gera það svo að það hrifi. Staðreyndin er hins vegar sú að hin almennu áhrif Kárahnjúkavirkjunar á landsbyggðina sem heild yrðu neikvæð, samgönguáætlun ríkisins og öðrum framkvæmdum mun verða skotið á frest, eins og hér hefur verið gerð grein fyrir í umræðum, bæði á Alþingi og í yfirlýsingum í fjölmiðlum. Þá munu hærri vextir og hærra gengi krónunnar koma illa við alla venjulega atvinnustarfsemi en sérstaklega útflutningsfyrirtækin. Hærra gengi krónunnar leiðir til þess að tekjur fólks rýrna í ferðaþjónustu, í sjávarútvegi, í landbúnaði að hluta og mörgum öðrum greinum sem eru í útflutningi eða í samkeppni við erlendar vörur. Á síðustu mánuðum hafa tekjur þessara atvinnugreina rýrnað verulega vegna mikillar hækkunar á gengi krónunnar sem stafar af fyrirhuguðum álversframkvæmdum.

En þetta er þó aðeins forsmekkurinn að því sem koma skal. Útflutningsiðnaðurinn er að stórum hluta staðsettur á landsbyggðinni. Hann yrði fyrir mjög neikvæðum áhrifum vegna þeirrar gengishækkunar og síðan hækkunar vaxta og þenslu sem þessar risavöxnu framkvæmdir mundu skapa. Virðulegi forseti. Þess vegna er sú hætta fyrir hendi að fyrir hvert það starf sem Fjarðaál skapaði á Austurlandi mundu önnur störf í útflutningsgreinum hverfa annars staðar á landsbyggðinni. Hér er þó vitanlega ekki við Austfirðinga sjálfa að sakast heldur úrræðalaus stjórnvöld sem eru að stíga örlagaríkt skref aftur til fortíðar með sértækum byggðaaðgerðum af stærðargráðu sem á sér ekki hliðstæðu í Íslandssögunni.

Herra forseti. Það er líka af umhverfisáhrifum sem þetta er fullkomið glapræði. Vinnubrögðin í meðferðinni allri eru táknræn og dæmi um það hversu ruddalega er fram gengið. Þegar hæstv. umhvrh. gaf út úrskurð sinn, sneri við þeim úrskurði sem áður hafði verið kveðinn upp og heimilaði framkvæmdirnar, gáfu náttúruverndarsamtök á Íslandi út yfirlýsingu sem hljóðar svo, með leyfi forseta:

,,Formenn neðangreindra umhverfis- og náttúruverndarsamtaka hafa á fundi sínum í dag fjallað um úrskurð umhverfisráðherra vegna Kárahnjúkavirkjunar.

Í ljósi þess að Kárahnjúkavirkjun mundi valda margfalt meiri náttúruspjöllum en nokkur einstök framkvæmd á Íslandi til þessa er niðurstaða ráðherra óskiljanleg. Veruleg og óafturkræf áhrif virkjunarinnar, sem Skipulagsstofnun byggði úrskurð sinn á, samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum blasa við hverjum þeim sem kynnir sér framkomnar upplýsingar. Tæpast er hægt að ímynda sér stórfelldari röskun af mannavöldum á náttúru landsins.

Í þessu sambandi er minnt á eftirfarandi:

Kárahnjúkavirkjun mun eyðileggja eitt stærsta hálendisvíðerni í Evrópu með mannvirkjagerð á um 1.000 ferkílómetra svæði og spilla fjölbreyttu gróðurlendi á allt að 600 ferkílómetra svæði, sem er hluti af samfelldri gróðurþekju frá sjó inn til jökla. Líta ber á hálendisgróður ofan við 500 m hæð sem fágæta og verðmæta auðlind.

Ómetanlegar jarðfræðiminjar og landslagsheildir á heimsvísu yrðu eyðilagðar eða þeim raskað verulega með virkjunarframkvæmdunum.

Meira en 100 fossar yrðu fyrir röskun af völdum virkjunarinnar og sumir þeirra hyrfu alveg.

Stórfelldir vatnaflutningar einkenna virkjunina þar sem m.a. eitt stærsta vatnsfall landsins, Jökulsá á Dal, yrði flutt á milli vatnasviða og veitt í Lagarfljót.

Nánast ekkert vatnakerfi á virkjunarsvæðinu stæði eftir óraskað. Lífríki í stöðuvötnum og fjölmörgum ám mun eyðast eða raskast verulega, einangruðum stofnum verður útrýmt eða þeim blandað saman við aðra stofna.``

Virðulegi forseti. Þetta var yfirlýsing þessara náttúrusamtaka. Undir hana rita: Anna Guðrún Þórhallsdóttir, SÓL í Hvalfirði, Árni Finnsson, Náttúruverndarsamtökum Íslands, Björn Þorsteinsson, Náttúruverndarsamtökum Vesturlands, Halla Eiríksdóttir, NAUST, Ingólfur Ásgeir Jóhannesson, SUNN, Jóhann Óli Hilmarsson, Fuglaverndunarfélagi Íslands, Ólöf Guðný Valdimarsdóttir, Landvernd, Steingrímur Hermannsson, Umhverfisverndarsamtökum Íslands, Þórhallur Þorsteinsson, Félagi um verndun hálendis á Austurlandi.

Virðulegi forseti. Frá því að þessi ályktun var samþykkt hafa komið fjölmargar aðrar ályktanir sem taka undir þau miklu varnaðarorð og mótmæli sem þarna voru reist. Ég held að okkur öllum sem höfum séð kvikmynd Ómars Ragnarssonar um hálendið fyrir norðan Vatnajökul sé dapurleiki í huga að vita til þess ef af framkvæmd Kárahnjúkavirkjunar verður. Eftir að kvikmyndin var sýnd í sjónvarpi hitti ég viðmælanda úti á götu sem sneri sér að mér og sagði: ,,Jón, ég horfði á myndina hans Ómars Ragnarssonar í gærkvöldi, og veistu hvað? Þegar myndinni lauk grét ég. Ég grét yfir því að þetta ætti yfir okkur að ganga.``

Já, á þetta yfir okkur að ganga, virðulegi forseti? Við í Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði leggjum til að þjóðin greiði atkvæði um það hvort þetta eigi yfir okkur að ganga. Við leggjum fram brtt. við þetta frv. um álverksmiðju í Reyðarfirði og framkvæmdir fyrir austan um að þjóðin fái tækifæri til þess að greiða atkvæði um hvort þessi náttúruspjöll, þessi gríðarlegu óafturkræfu náttúruspjöll, eigi yfir okkur að ganga, herra forseti. Það er skýlaus krafa í svo gríðarlega stóru máli sem þessu að þjóðin fái að greiða um það atkvæði. Það ætti ekki að vera áhætta fyrir neinn.