Álverksmiðja í Reyðarfirði

Miðvikudaginn 05. mars 2003, kl. 13:45:42 (4365)

2003-03-05 13:45:42# 128. lþ. 88.5 fundur 509. mál: #A álverksmiðja í Reyðarfirði# frv. 12/2003, KolH (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 88. fundur, 128. lþ.

[13:45]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Virðulegi forseti. Kárahnjúkavirkjun er forsenda fyrir álveri í Reyðarfirði. Virkjunin mundi valda óbætanlegum skaða á verðmætum víðernum norðan Vatnajökuls, virkjun sem Skipulagsstofnun hefur lagst gegn á grundvelli óafturkræfra umhverfisáhrifa, virkjun sem eyðilegga mundi friðlandið í Kringilsárrana og fjölda náttúrugersema sem gætu orðið komandi kynslóðum jafndýrmætar og Alparnir eru Austurríkismönnum, Manhattaneyja er New York búum og pýramídarnir eru Egyptum. Vilji þjóðarinnar við þessari tillögu er skýr. Hann kemur fram í nýlegri skoðanakönnun þar sem hún er studd af 64% þjóðarinnar. Þeir þingmenn sem greiða atkvæði gegn tillögunni eru því að greiða atkvæði gegn vilja meiri hluta þjóðarinnar. Ég spyr því þjóðina: Er ekki tímabært að þessir alþingismenn fái pokann sinn í næstu kosningum? Ég styð tillöguna og að þjóðin fái tækifæri til að hafna Kárahnjúkavirkjun í almennri þjóðaratkvæðagreiðslu og segi því já.