Komugjöld á heilsugæslustöðvum

Miðvikudaginn 05. mars 2003, kl. 14:23:36 (4385)

2003-03-05 14:23:36# 128. lþ. 89.3 fundur 609. mál: #A komugjöld á heilsugæslustöðvum# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi KPál
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur, 128. lþ.

[14:23]

Fyrirspyrjandi (Kristján Pálsson):

Herra forseti. Ein helsta grunnþjónustan í heilbrigðiskerfi okkar er þjónusta heilsugæslustöðvanna. Starfsemi þeirra vítt og breitt um landið er til mikils sóma og má segja að uppbyggingin hafi verið einstaklega vel heppnuð á heilsugæslustöðvum síðustu áratuga og sannað gildi sitt, bætt öryggi og líðan fólks um allt land. Þessu hef ég sjálfur kynnst persónulega sem íbúi á Vestfjörðum og Vesturlandi og nú á Suðurnesjum.

Það hefur komið fram, herra forseti, í þeirri deilu sem hefur staðið yfir síðustu þrjá mánuði á Suðurnesjum milli heilsugæslunnar og heilsugæslulækna hvað fólkið á þessu svæði saknar að hafa ekki þessa tryggu þjónustu lækna í jafnríkum mæli og var áður en þessi deila hófst. Þó að það sé ekki málið sem hér er til umræðu fannst mér rétt að minnast aðeins á það.

Samkvæmt lögum, herra forseti, á grunnþjónustan í heilbrigðiskerfinu að vera ókeypis. Gjaldið sem nú er innheimt af viðskiptavinum heilsugæslustöðva var ætlað fyrir ýmsa aðra þjónustu. Til þess að átta sig á hvaða þjóðfélagshópar greiða þetta gjald hef ég lagt fyrir hæstv. heilbrrh. eftirfarandi fyrirspurn sem hljóðar svo:

1. Hve há eru komugjöld á heilsugæslustöðvum?

2. Hve háar hafa heildargreiðslur komugjalda verið árlega sl. þrjú ár?

3. Hvernig skiptast greiðslur þessara gjalda í krónum, sbr. 2. tölul., á milli:

a. aldraðra,

b. barna,

c. öryrkja og

d. annarra?

4. Hver er stefna ráðherra varðandi slík gjöld?