Almenn hegningarlög

Mánudaginn 10. mars 2003, kl. 12:41:47 (4603)

2003-03-10 12:41:47# 128. lþ. 93.36 fundur 353. mál: #A almenn hegningarlög# (brot í opinberu starfi) frv. 54/2003, JB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 93. fundur, 128. lþ.

[12:41]

Jón Bjarnason (andsvar):

Herra forseti. Ég bara ítreka að ég met og virði þessa viðleitni og þau markmið sem verið er að setja við þessa lagabreytingu, þ.e. að skýra ábyrgð aðila gagnvart opinberri þjónustu sem er skilgreind í lögum.

Að mínu viti stendur hins vegar þarna enn eftir óvissa um réttarstöðu þess fólks sem vinnur hjá fyrirtækjum sem hafa tekið að sér ábyrgð á þessari þjónustu. Póstmenn voru opinberir starfsmenn og þeir sem starfa á pósthúsunum á vegum Íslandspósts t.d. eru þá sjálfkrafa með þetta vafalaust í sínum ráðningarsamningi. En svo eru þeir sem starfa hjá öðrum aðilum sem hafa tekið að sér þessa þjónustu, hvort sem það er banki, kaupfélag, bensínafgreiðsla eða verslun. Þar getur verið breytilegt hvaða starfsmaður sinnir póstþjónustu, þ.e. einn í dag og annar á morgun. Því mun þurfa að skýra þessa ábyrgð gagnvart bæði neytandanum og þeim sem innir þessa þjónustu af hendi.

Virðulegi forseti. Ég vildi bara draga þessi mál inn í umræðuna. Ég tel að þarna þurfi að huga að því að þessi ábyrgð sé skýr þegar framseld er framkvæmd á opinberri þjónustu eins og t.d. póstþjónustu.