Heilbrigðisþjónusta

Mánudaginn 10. mars 2003, kl. 20:56:23 (4640)

2003-03-10 20:56:23# 128. lþ. 94.33 fundur 453. mál: #A heilbrigðisþjónusta# (stofnkostnaður, stjórnir stofnana o.fl.) frv. 78/2003, Frsm. JBjart (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 128. lþ.

[20:56]

Frsm. heilbr.- og trn. (Jónína Bjartmarz) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil fyrst og fremst og í upphafi máls míns fá að vísa á bug orðum hv. þm. Kristjáns L. Möllers um að þetta frv. sé til vitnis um það að hæstv. heilbrrh. hafi gleymt landsbyggðinni, það sé einhvers konar atlaga að heilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni, þetta frv. sem við erum hérna að ræða um. Það er náttúrlega öllum ljóst að valdsvið og ábyrgð forstöðumannanna og stofnana var heilmikið aukið með setningu laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Á sama tíma hefur það verið viðurkennt að valdsvið þessara stjórna sjúkrahúsanna var eiginlega eingöngu eftirlit og ráðgjöf, og hlutverk þeirra og ábyrgð öll var ákaflega óljós.

Þar sem hv. þm. Kristján L. Möller hefur lesið hérna upp úr nokkrum ágætum umsögnum og vel unnum vildi ég vekja athygli á því að af öllum þeim aðilum sem sent var þetta ágæta frv. til umsagnar held ég að ég geti staðhæft og það sé rétt með farið að einungis 11 sáu ástæðu til að svara því og þar af voru a.m.k. sex umsagnir sem studdu það að þessi leið væri farin. Þær studdu frv. og þá breytingu að leggja stjórnirnar niður.

Hv. þm. hefur orð á því að sú breyting sem hv. heilbr.- og trn. leggur til að verði gerð við frv. sé skömminni skárri en það að leggja stjórnirnar alfarið niður. Þess vegna langar mig að inna hann eftir því hvaða hlutverk þessar stjórnir eigi að hafa. Hann eftirlætur ráðherra í reglugerð að kveða á um hlutverk stjórnarinnar en ég tek fram að í þeirri brtt. sem ég mælti fyrir fyrr í dag frá hv. heilbr.- og trn. er ítarlega gerð grein fyrir því hvað þessar framkvæmdastjórnir, sem við leggjum til, eigi að gera og hvert verksvið þeirra sé. Þar er talað um að þær skuli vera framkvæmdastjóra til ráðgjafar um rekstur, bæði heilsugæslustöðva og sjúkrahúsa eftir því sem við á, og hann skuli hafa samráð við þær um allar mikilvægar ákvarðanir varðandi þjónustu og rekstur stöðvarinnar.