Heilbrigðisþjónusta

Mánudaginn 10. mars 2003, kl. 21:48:28 (4650)

2003-03-10 21:48:28# 128. lþ. 94.33 fundur 453. mál: #A heilbrigðisþjónusta# (stofnkostnaður, stjórnir stofnana o.fl.) frv. 78/2003, JB
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 128. lþ.

[21:48]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Hér er til 2. umr. frv. til laga um breytingu á lögum um heilbrigðisþjónustu.

Eins og komið hefur fram ganga brtt. við frv. fyrst og fremst út á það að leggja niður stjórnir sem hafa verið við sjúkrahús og heilsugæslustöðvar vítt og breitt um landið. Þegar mælt var fyrir frv. fyrir jólin var gert ráð fyrir því að fella alveg brott þessar stjórnir en nú er verið að gera ráð fyrir eins konar innri stjórn sjúkrahúsanna, skipaðri af ráðherra. Það hefur verið rætt hvers vegna þetta hafi komið inn. Ég minnist þess að þegar hæstv. heilbrrh. mælti fyrir frv. hélt hann því fram að þetta væri hluti af samkomulagi við sveitarfélögin, við það að ákveðinn hluti í stofn- og rekstrarkostnaði sjúkrahúsanna færi undir ríkið og yrði létt af sveitarfélögunum. Áfram er þó um samrekstur að ræða því að áfram eiga sveitarfélögin þann hluta sem þegar er til kominn í stofnkostnaði á sjúkrahúsunum, áfram eiga þau lóðir og áfram eru þau með skuldbindingar varðandi gatnagerðargjöld og ýmislegt sem að því lýtur. Eignarlega og rekstrarlega er í sjálfu sér áfram um töluvert mikinn samrekstur og formlegt samstarf að ræða sem þarf að sjálfsögðu að vera í einhverjum farvegi á milli sjúkrahúsanna og sveitarfélaganna. Þó virðist sem verið sé að skera á það með þessu frv. hér.

Það þarf ekki að koma á óvart að frv. sem þetta líti dagsins ljós frá hæstv. ríkisstjórn, frá ríkisstjórn Framsfl. og Sjálfstfl., sem hefur mjög ötullega unnið að því að auka miðstýringu á hvers konar almannaþjónustu og færa þá stjórn og ráðslag inn í miðstýrt apparat í höfuðstöðvunum í Reykjavík. Þetta frv. er einn liður í því sem þar er verið að gera, að færa valdið, tengslin og nándina frá almannaþjónustunni við umhverfi sitt til framkvæmdarvaldsins. Stjórnir sjúkrahúsanna hafa verið tengiliðir á milli viðkomandi stofnunar og umhverfisins við sveitarfélögin, við íbúa á viðkomandi svæðum, og hafa gegnt þar gríðarlega miklu hlutverki. Menn geta velt því fyrir sér hversu afdrifaríkt það er á hverjum tíma, en til þessara stjórna getur verið hægt að grípa, þær geta haft þau afskipti sem þær vilja af áætlanagerð og rekstri sjúkrahúsanna.

Það frv. sem hér er flutt miðar að því að skera verulega á þessi tengsl. Þó að nú við 2. umr. sé lagt til að boðað verði til einhverra samráðsfunda milli sjúkrahúsanna og sveitarstjórna, a.m.k. tvisvar á ári, er það ekki sama aðkoman og sama nándin og var, og er, með því að hafa stjórnir sem eru tilnefndar af sveitarfélögunum, eins og nú er.

Ég vil vekja athygli á því að í 15. gr. núgildandi laga stendur, með leyfi forseta:

,,Kveðið skal á um skiptingu landsins í heilsugæsluumdæmi í reglugerð. Þar skal einnig kveðið á um fjölda og flokkun heilsugæslustöðva og starfssvæði þeirra, að höfðu samráði við hlutaðeigandi sveitarfélög og Samband íslenskra sveitarfélaga.``

Hv. þm. Þuríður Backman gerði grein fyrir því hvað þetta væri mikilvægt einmitt þegar fleiri en ein heilsugæslustöð eru á sama starfssvæði, eins og er á Austurlandi. Þar gegndi stjórnin lykilhlutverki þegar rekstur sjúkrahúsa og heilsugæslustöðva á því svæði var sameinaður og samræmdur, og einmitt vegna þess að stjórnin, skipuð heimamönnum, naut þess trúnaðar sem til þurfti við að láta þá hluti ganga.

Ég þekki hliðstæð dæmi hjá okkur, bæði í Skagafirði og í Húnavatnssýslum. Í Húnavatnssýslum er t.d. sjúkrahús á Blönduósi og heilsugæslustöð á Skagaströnd. Í Skagafirði er það hliðstætt, sjúkrahús og heilsugæslustöð á Sauðárkróki og svo er líka lítil heilsugæslustöð á Hofsósi. Hvað eftir annað hafa komið upp umræður um að leggja þessar litlu stöðvar niður, loka þeim í hagræðingar- og sparnaðarskyni. En þar hefur einmitt viðkomandi stjórn, sem hefur verið skipuð fulltrúum úr byggðarlaginu, stjórn sem þekkti þar vel til og bar hag íbúanna þar fyrir brjósti, getað stýrt því á þann veg að af því hefur ekki orðið. En þrýstingur hins opinbera framkvæmdarvalds í svokallaða hagræðingu og jafnvel ómarkvissan niðurskurð á þjónustu getur bitnað hart á litlum sjúkrahúsum og heilsugæslustöðvum.

Þess vegna vil ég bara ítreka það hér að sú breyting sem lögð er til, þrátt fyrir nokkrar lagfæringar sem gerðar eru í nál. meiri hlutans, miðar að því að auka miðstýringu á rekstri þessarar mikilvægu þjónustu úti um landið, og reyndar hvar sem er. Hún miðar að því að rjúfa mikilvæg tengsl og mikilvæga nánd sem hefur verið á milli íbúanna, milli sveitarstjórnanna og viðkomandi sjúkrahúsa og heilsugæslustöðva. Hún miðar að því sem er andstætt stefnu okkar í Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði enda er fulltrúi Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs í heilbrn. 1. flm. að brtt. við þetta frv. þar sem lagt er til að þessum stjórnum verði viðhaldið en hlutverk þeirra skýrt.

Ég tel, virðulegi forseti, að einmitt þetta eigi að gera. Við eigum að færa valdið, nándina og tengslin út til héraðanna, út til þeirra sem treysta á þessa þjónustu, njóta hennar og geta þá líka fylgst með því að hún sé með þeim hætti sem þeir óska eftir og vilja.

Fyrir dyrum stendur heildarendurskoðun á skipan heilbrigðismála. Hæstv. heilbrrh. hefur tekið frumkvæði í því að skipa nefnd, sem allir stjórnmálaflokkar á þinginu munu eiga aðild að, til þess að gera tillögur um endurskoðun og endurskipan á heilbrigðisþjónustunni. Í ljósi þeirrar umræðu sem við höfum farið í gegnum hér varðandi heilbrigðismálin á undanförnum missirum er mjög brýnt að þessi nefnd vinni hratt og skili sem allra fyrst tillögum sem hægt er að byggja á til að styrkja og efla velferðarkerfi okkar. Þá er það alveg út í hött að mínu mati að grípa til aðgerða, eins og hér er verið að gera, að leggja niður stjórnir sjúkrahúsanna.

Ímyndum okkur t.d. styrk Sjúkrahússins á Selfossi vegna þeirrar góðu stjórnar sem þar hefur verið. Nú missir það af henni ef af þessum breytingum verður, og stendur frammi fyrir fullkominni óvissu um framhaldið. Hér hefur verið vitnað í umsagnir margra aðila sem einmitt hafa bent á hversu mikilvægt það er að halda þessum stjórnum.

Virðulegi forseti. Ég árétta það sem hv. þm. Þuríður Backman hefur sagt um mikilvægi þessara stjórna fyrir tengslin og samstarfið á milli sjúkrahússtofnananna og umhverfisins sem hafa gefist vel og reynst mikilvægar. Því skyldum við vera að skera á þá hluti sem hafa reynst vel? Það er svo fráleitt. Það er alveg hárrétt, það mætti styrkja og skýra hlutverk þeirra en að klippa á þær með þeim hætti sem hér er gert, þó að það komi tillaga um einhverjar innri framkvæmdastjórnir, er það allt annar hlutur og ekki það sama og hér er verið að klippa á. Ég óska eftir því á hv. Alþingi að tillögur okkar, hv. þm. Þuríðar Backman, Steingríms J. Sigfússonar og þess sem hér talar, um að stjórnirnar fái að vera óbreyttar fái brautargengi á hv. Alþingi.