Heilbrigðisþjónusta

Mánudaginn 10. mars 2003, kl. 22:04:08 (4652)

2003-03-10 22:04:08# 128. lþ. 94.33 fundur 453. mál: #A heilbrigðisþjónusta# (stofnkostnaður, stjórnir stofnana o.fl.) frv. 78/2003, JB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 128. lþ.

[22:04]

Jón Bjarnason (andsvar):

Herra forseti. Ráðgefandi stjórnir geta haft þau áhrif sem þær vilja og þetta fer að sjálfsögðu eftir samstarfi þeirra sem með stjórnirnar fara.

Ég geri mér alveg grein fyrir valdi og ábyrgð framkvæmdastjórans. En ég bendi bara á að í minni skólastjóratíð var ég líka með ráðgefandi skólanefnd sem var skipuð fulltrúa heimamanna af svæðinu. Hún starfaði mjög náið og mjög sterkt og í henni var mikill styrkur fyrir starfsemi stofnunarinnar og tengslin út í héraðið. En að sjálfsögðu bar ég ábyrgð á því sem síðan var gert.

Ég tel að menn eigi ekki að vera svona bundnir í hinu formlega valdi. Menn eiga að horfa meira á tengslin og hlutverkið og hvernig megi nýta það. Það sem vel er gert er ekki alltaf fólgið í valdinu, sem hv. þm. Jónína Bjartmarz vill trúa á, þó að ábyrgðin þurfi að vera fyrir hendi. Ég held að svona ráðgefandi stjórnir við sjúkrahúsin, skipaðar heimafólki, fólki sem þekkir vel til, fólki sem er hluti af því samfélagi sem þarna er verið að starfa með og þjóna, séu þessu starfi til styrktar. Ég tel þær mikilvægar og að það sé missir í þeim ef þær hverfa.