Almannavarnir o.fl.

Mánudaginn 10. mars 2003, kl. 23:16:40 (4659)

2003-03-10 23:16:40# 128. lþ. 94.34 fundur 464. mál: #A almannavarnir o.fl.# (breyting ýmissa laga) frv. 44/2003, JBjart (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 128. lþ.

[23:16]

Jónína Bjartmarz (andsvar):

Herra forseti. Vegna orðaskipta hv. þm. Lúðvíks Bergvinssonar og hv. formanns allshn. vil ég árétta það sem fram kom í ræðu formannsins. Á fundi nefndar með starfsmönnum Almannavarna, sem m.a. fór fram í björgunarmiðstöðinni, kom skýrt fram að þeir sérhæfðu starfsmenn sem þar eru og hafa starfað, einn þeirra um áratuga skeið, að þessum málum hafði orð á að það hefði verið haft samráð um þessar tillögur og auk þess hefði hann undanfarnar vikur unnið ásamt starfsmönnum ríkislögreglustjóra að undirbúningi þess að hrinda þessari breytingu í framkvæmd, ef svo skyldi fara að frumvarpið yrði samþykkt. Hins vegar er það miður ef framkvæmdastjóri Almannavarna til margra ára upplifir það svo að samráð við hana hafi ekki verið nægjanlegt. Ég ætla ekki að rengja að henni hafi fundist samráðið við hana of lítið og reynsla hennar ekki nýtt til fulls. Það finnst mér miður og ætla ekki að mæla því bót ef svo hefur verið.

En það sem vekur athygli við ræðu hv. þm. Lúðvíks Bergvinssonar er að hann getur einungis um þá aðila sem gagnrýna þessa breytingu. Fjölmargir aðilar komu á fund nefndarinnar og skiluðu umsögnum sem studdu að stjórnskipun Almannavarna yrði breytt á þann veg sem lagt er til í frv., segi ég þó með smá fyrirvara. Eins vekur það furðu að menn skuli ekki sætta sig betur við þá breytingu sem allshn. er þó búin að leggja til vegna aðalgagnrýnisefnis þeirra sem gagnrýndu frv., að leggja almannavarnaráð niður. Nú stendur til að almannavarnaráð verði áfram starfrækt, ef eitthvað er verði það eflt. Menn mega aðeins horfa til þess hvar verið er að efla þetta starf með því að halda almannavarnaráðinu eins og verið hefur.