Samgönguáætlun fyrir árin 2003--2014

Þriðjudaginn 11. mars 2003, kl. 17:21:58 (4752)

2003-03-11 17:21:58# 128. lþ. 96.17 fundur 469. mál: #A samgönguáætlun fyrir árin 2003--2014# þál. 19/128, 563. mál: #A samgönguáætlun fyrir árin 2003--2006# þál. 20/128, Frsm. minni hluta JB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 96. fundur, 128. lþ.

[17:21]

Frsm. minni hluta samgn. (Jón Bjarnason) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þm. og formanni samgn., Guðmundi Hallvarðssyni, fyrir góðar undirtektir við ábendingum sem ég setti fram í nál. mínu. Ég vildi inna þingmanninn frekar eftir því.

Í umræðunni um sjóflutninga og flutninga meðfram ströndum landsins er sú breyting að verða á að flutningarnir færast upp á land án þess að menn sjái endilega skýr hagkvæmnisrök fyrir því. Við þekkjum pakkaflutninginn, sem getur verið eðlilegur, en varðandi þungaflutninga er spurt hvort svo eigi að vera. Í fjölmörgum skýrslum, m.a. í þessum þingsályktunartillögum sem við höfum hér til meðferðar er kveðið á um að rannsaka þurfi og gera úttekt á samkeppnisstöðu sjóflutninga miðað við landflutninga, hagkvæmni þeirra og allt sem að þeim lýtur til að þróunin verði þá þáttur í þeirri þróun samgöngumála sem við viljum að verði.

Ég vil því spyrja hv. þm. hvort hann sé ekki sammála mér um að þessi úttekt þurfi að fara fram, nákvæm skoðun á samkeppnisstöðu og möguleikum sjóflutninga og stöðu þeirra í samgöngukerfi þjóðarinnar. Ég tel mjög mikilvægt að við förum í þá vinnu og skoðum hana. Ég spyr hv. þm. hvort hann sé ekki sammála mér um að þetta sé mjög brýnt.