Samgönguáætlun fyrir árin 2003--2014

Þriðjudaginn 11. mars 2003, kl. 20:26:50 (4780)

2003-03-11 20:26:50# 128. lþ. 96.17 fundur 469. mál: #A samgönguáætlun fyrir árin 2003--2014# þál. 19/128, 563. mál: #A samgönguáætlun fyrir árin 2003--2006# þál. 20/128, LB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 96. fundur, 128. lþ.

[20:26]

Lúðvík Bergvinsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég fagna þeirri afstöðu sem mér fannst koma fram í máli hv. formanns samgn., Guðmundar Hallvarðssonar, um að með því að færa ferjurnar yfir til Vegagerðarinnar þá líti menn svo á að þær séu partur af þjóðvegakerfinu. Þess vegna held ég að mikilvægt sé að við fylgjum þeirri hugmynd áfram og skoðum það hvort ekki sé þá hægt að jafna aðstöðuna á þann hátt að þeir sem ferðast með ferjum greiði þá ekki hærra gjald en þeir sem ferðast á vegum. Það sé þá eitthvað sem menn líti á að sé bara partur af vegakerfinu og þetta sé samfélagsþjónusta. Ég fagna þeirri afstöðu og ég tel mig hafa skilið hana rétt á þennan hátt.

Aðeins um Bakkafjöruna. Þær hugmyndir sem hafa verið settar fram ganga út á það að einhvers konar bráðabirgðaskoðun sé í gangi, rannsókn á því hvort rétt sé að fara í þessar rannsóknir. Fram hefur komið að þær muni taka 2--3 ár, þ.e. þegar sú niðurstaða er komin sem menn eru að bíða eftir og ef í þetta verður farið. Það er þetta sem liggur fyrir. Að þeim tíma liðnum --- gefum okkur að þær niðurstöður yrðu jákvæðar, við skulum gefa okkur það og menn færu í framkvæmdir, þá er náttúrlega hönnun, verklegar framkvæmdir, fjármögnun og mjög margt eftir. Og það er kannski þetta sem gerir það að verkum að maður leyfir sér ekki, nema þá í einhverju bjartsýniskasti, að sjá neinar úrbætur í samgöngumálum raunverulega verða að veruleika fyrir samfélagið og bæjarbúa fyrr en í fyrsta lagi eftir 5--7 ár. Ég held ég taki ekki djúpt í árinni þegar ég segi þetta. Þetta átti ég við þegar ég sagði að tillögur hópsins hafi valdið miklum vonbrigðum vegna þess að það er einfaldlega krafa dagsins í dag að ráðist verði í samgöngubætur fyrir samfélag sem telur tæplega 5 þús. manns.