Samgönguáætlun fyrir árin 2003--2014

Þriðjudaginn 11. mars 2003, kl. 20:32:57 (4783)

2003-03-11 20:32:57# 128. lþ. 96.17 fundur 469. mál: #A samgönguáætlun fyrir árin 2003--2014# þál. 19/128, 563. mál: #A samgönguáætlun fyrir árin 2003--2006# þál. 20/128, KVM
[prenta uppsett í dálka] 96. fundur, 128. lþ.

[20:32]

Karl V. Matthíasson:

Herra forseti. Ég vil taka undir orð hv. þm. 1. þm. Norðurl. e., Halldórs Blöndals, þar sem hann talaði um þýðingu þess að stytta leiðir og hafa leiðir á milli staða sem stystar þar sem því væri vel við komið. Ég tek undir þau orð.

Menn geta reyndar deilt um það, eins og fram hefur komið í umræðunni, hvar eigi að fara í vegstyttingar. Það sem ég tel að menn verði að hafa í huga í sambandi við það þegar rætt er um styttingar á vegum er hversu víðtæku hlutverki styttingin gegnir. Þegar talað er um að búa til nýjan góðan veg á milli Akureyrar og Reykjavíkur með því að fara yfir hálendið kemur sú stytting Akureyringum og höfuðborgarbúum best sem fara þessa leið, og náttúrlega líka þeim sem eru kannski að fara lengra austur, austur á land eða til Húsavíkur eða á Melrakkasléttu í kannski væntanlega ferðamannaparadís sem gerð hefur verið þáltill. um, herra forseti. Auðvitað er það gott. Svo eru aðrar leiðir sem geta skipt mun meira máli í byggðalegu tilliti. Það er ein leið í umræðunni sem ég er mjög hrifinn af og margir fleiri en ég, og það er leiðin á milli Strandasýslu og yfir í Dalasýslu, þ.e. frá Húsavík í Steingrímsfirði og yfir Arnkötludal, að leggja nýjan veg sem kallaður er Arnkötludalur þar sem nú er Tröllatunguheiði. Það er í mínum huga, herra forseti, sambærilegt við það þegar Vatnaleiðin var gerð á móti Kerlingarskarði. Að vísu var ekki um verulega styttingu að ræða varðandi Vatnaleiðina, það voru bara gífurlega miklar vegabætur, og held ég að allir sem nota þann veg séu mjög þakklátir fyrir hann og glaðir og ánægðir, auk þess sem leiðin er alveg sérstaklega fögur þótt maður fari nú á mis við kerlinguna sem maður sá alltaf á leiðinni í skarðinu þegar sú leið var ekin. Á móti koma nú vötnin og þessi blíða og fagra náttúra. Ég hugsa að margir umhverfissinnar séu einmitt mjög ánægðir með þessa leið því þeir geta fengið að njóta náttúrunnar á þessu svæði. (GAK: Þeir voru það nú ekki þegar hann var lagður.) Það er svo. En nú er það, hv. þingmaður, að fólk lýsir almennt ánægju sinni með þessa framkvæmd.

Sveitarstjórnir á norðanverðum Vestfjörðum hafa líka verið með ályktanir um þennan veg, Arnkötludalinn, ég minni á það, og eru samdóma um nauðsyn þeirrar vegagerðar þótt hún kosti, ja ég er nú ekki kominn með alveg endanlegar tölur um það en það er talað um allt frá 400 millj. og upp í 700 eftir því hver mælir. En það er ljóst að ef þessi vegur yrði gerður mundi hann þjóna mjög vel hagsmunum Dala og Stranda, íbúum Hólmavíkur og Drangsness. Þeir ættu skjóta og greiða og góða leið niður í Dali og til Reykhóla og mundi það auka samskipti og alls konar þjónustu. Menn gætu nýtt sér sameiginlega þjónustu þar, það hefur verið talað um læknisþjónustu og ýmislegt annað. Þetta styttir auk þess leiðina til Reykjavíkur, herra forseti, um 40 km og það finnst mér vera nokkuð mikið.

Mig langar að segja frá þeirri reynslu, herra forseti, að ég var einhverju sinni á leið til Reykjavíkur seint um kvöld, það var eiginlega komið fram á nótt, ók niður Hvalfjarðargöng en hafði farið á mis við upplýsingar um að búið væri að loka þeim. Þó vil ég taka fram, herra forseti, að það var ekki vegna mikils hraða, heldur að ég einbeitti mér kannski fullmikið að því að horfa á veginn þannig að ég sá ekki tilkynninguna á skilti um að Hvalfjarðargöngin væru lokuð. Þá gat ég ekki hugsað mér að fara að keyra allan Hvalfjörðinn svo að ég fór niður á Akranes og fékk þar hótelherbergi á hóteli sem heitir Barbro og var ágætt að gista þar. En þetta segir heilmikið. Hér áður fyrr hefði maður ekki látið sig muna um að fara allan Hvalfjörðinn. Þetta er nákvæmlega sama vegalengdin og við erum að tala um. Þegar þessi vegur verður kominn, Arnkötludalurinn, styttir hann leiðina fyrir 6.000--7.000 manns um 40 km.

Ég tek undir það, herra forseti, sem 1. þm. Norðurl. e. var að tala um, að stytting vega minnkaði hætturnar, slysahættu. Ef vegalengd er stytt um 40 km minnka náttúrlega líkurnar á slysum. Það liggur í hlutarins eðli.

Ég hefði gjarnan viljað sjá meira um þessa vegaframkvæmd í vegáætluninni, herra forseti. Auðvitað er hægt að tala endalaust um Skötufjörð og Mjóafjörð og Hestfjörðinn (HBl: Seyðisfjörðinn.) og Seyðisfjörðinn, þakka þér fyrir, hv. þingmaður, og Kjálkafjörð og alla þessa firði, og Kollafjörð í Austur-Barðastrandarsýslu og hvort leggja eigi veginn svona eða hinsegin. Ég ætla ekkert að fara út í það, það er búið að gera það mjög mikið í þessari umræðu en ég vildi sérstaklega nefna Arnkötludalinn og lýsa yfir einlægum stuðningi mínum við þá vegaframkvæmd, bæði vegna þeirra byggðasjónarmiða að fólkið sem er á Ströndunum á auðveldara með að fara yfir á Reykhóla og niður í Dali, sem og öfugt, og enn fremur yrði auðveldara --- við getum t.d. hugsað okkur að það væri þorrablót á Ströndum --- fyrir Dalamenn að skreppa þangað og fá sér (Gripið fram í.) sviðakjamma að bíta í og eiga góðar stundir og það mundi efla ýmiss konar góð og jákvæð kynni sem slík vegagerð hefði í för með sér.

Mig langar til að koma með samlíkingu í þessu sambandi þar sem ég er að tala um veg á milli byggðasvæða og það er t.d. þegar búið var að gera veginn á milli Ólafsvíkur og Grundarfjarðar, þegar búið var að laga Búlandshöfða --- ég nýt þess að segja þetta hér, herra forseti, þegar hv. þm. Jóhann Ársælsson, þingmaður Vesturl. einn ágætur, gengur hér í salinn (Gripið fram í.) --- þetta var mjög góð framkvæmd og hefur gert það að verkum að Ólsarar sjá Grundfirðinga miklu oftar og er það þeim til ánægju (Gripið fram í.) og samskiptin eru meiri á milli þessara staða. Þá á ég við að það er báðum hópunum til ánægju. Svona vegagerð skiptir máli.

Það eru sem sagt tvíþætt markmið með þessum vegi um Arnkötludal, það er tengingin á milli Stranda og Dala og einnig sú mikla stytting sem næst með þessu.

Ég vil taka það fram, herra forseti, að það fiskveiðistjórnarkerfi sem við búum við hefur haft þær afleiðingar að sum pláss hafa átt undir högg að sækja og það hefur leitt til þess að margir íbúar landsins hafa flutt úr byggðunum og sérstaklega vestan af Fjörðum. Vestfirðir væru náttúrlega komnir í eyði ef ekki hefðu verið glufur í þessu kerfi og smábátaútgerð vaxið og dafnað. Síðan skulum við vona að þær aðstæður og þau skilyrði komi í byggðunum að fólk vilji flytja aftur vestur. Eitt af því sem fólk hugsar um í sambandi við gæði staða er hversu langt er til Reykjavíkur. Menn spyrja: Hversu lengi erum við að aka til Reykjavíkur? Umræðan í vegamálunum öllum hefur helgast af þessu. Reykjavík er höfuðborgin okkar og þar er náttúrlega mikil þjónusta sem allir landsmenn verða að sækja. Þess vegna er einn af kostum hverrar byggðar að leiðin í höfuðborgina sé greiðfær og að ferð þangað taki stuttan tíma.

Þess vegna nefni ég enn og aftur þennan veg, herra forseti. Ég veit að það er í bígerð hjá Vegagerðinni og ég vona að það sé áhugi á að skoða þessa leið mun betur, horfa betur á hana en gert hefur verið. Þetta langaði mig til að segja í þessari umræðu.

Þegar brúin yfir Gilsfjörð var gerð, herra forseti, það var mjög góð framkvæmd og til blessunar, en einmitt sú framkvæmd hafði þær afleiðingar að þegar þessi mikla stytting á vegalengd var komin fór fólk að horfa á aðra samgöngumöguleika en gert hafði verið í áratugi. Það var búið að ákveða að vegurinn suður ætti að vera frá Ísafirði um Ísafjarðardjúp og svo niður Strandir, en síðan kemur þessi ágæta brú og þá fara menn bara að horfa öðruvísi. Og það er mjög eðlilegt að menn geri það og við eigum að hafa dirfsku og hugrekki til að vera djörf í vegagerð þegar upp koma nýjar aðstæður. Þá eigum við að hugsa um hvað er hagkvæmast núna en ekki hvað var hagkvæmast fyrir 20 eða 30 árum. Á það vil ég líka benda.

Þetta er framkvæmd sem hægt er að gera skjótt og vel eins og ég þekki best til, herra forseti. Ég hef náttúrlega þann fyrirvara á að auðvitað þekki ég þetta ekki algjörlega til hlítar en eins og hún blasir við í umræðunni og heimamenn tala um hana á þetta að vera nokkuð auðveld framkvæmd og hún hefði þær afleiðingar að leiðin styttist um 40 km. Hver vill það ekki á vorum dögum þó að við horfum stundum allt of mikið á hraðann og að allt eigi að ganga svo hratt fyrir sig? Auðvitað má ýmislegt ganga hægar fyrir sig í samfélaginu og líka í sálum okkar mannanna.

Þetta vildi ég nú sagt hafa, herra forseti, í þessari umræðu.