Skógrækt 2004--2008

Þriðjudaginn 11. mars 2003, kl. 21:11:34 (4788)

2003-03-11 21:11:34# 128. lþ. 96.24 fundur 689. mál: #A skógrækt 2004--2008# þál. 39/128, KVM
[prenta uppsett í dálka] 96. fundur, 128. lþ.

[21:11]

Karl V. Matthíasson:

Herra forseti. Hér er til umfjöllunar till. til þál. um skógrækt fyrir árin 2004--2008. Það er ágætt að sjá þetta plagg hér vegna þess að þær áætlanir sem höfðu verið gerðar áður og þau fjárframlög sem ætluð höfðu verið til þessara verkefna, landshlutabundinna skógræktarverkefna, stóðust stundum ekki alveg og það var erfitt fyrir þau verkefni að gera samninga við bændur, ræktendur og fleiri, ef ekki var hægt að reiða sig á það fjármagn sem ætlað var til verkefnanna. Þess vegna er það kostur að þessi þáltill. skuli koma fram. Hún á að tryggja að verkefnin, þessi landshlutabundnu skógræktarverkefni eins og t.d. Skjólskógar á Vestfjörðum, geti gert samninga við bændur sem standast og halda. Því er þetta nú komið fram og er það vel að minni hyggju. Málinu verður vísað til landbn. og mun hún væntanlega fara yfir málið og skoða það og má reikna með því, herra forseti, að það fái góðan hljómgrunn þar að öllu leyti, a.m.k. flestu leyti.

Það er ágætt að sveitir og byggðir landsins skuli fá aukin verkefni, að meiri möguleikar séu í byggðunum úti á landi, í sveitinni, að fólk geti fengið aukna atvinnu þar. Ekki veitir nú af, sérstaklega þegar við hugsum til nýlegra frétta um stöðu t.d. sauðfjárbænda sem er afar slæm. Því er gott ef þeir geta komið inn í þetta verkefni með meiri krafti og fengið vinnu í sambandi við þetta og þar með meiri tekjur, sem um leið tryggir búsetu á þeim jörðum þar sem þeir eru. Það er vel. Og ég veit að sumir bændur sem taka þátt í þessu hafa verið mjög ánægðir yfir því.

En eins og ég segi, herra forseti, ég tel það vera gott að hægt sé að gera svona áætlanir fram í tímann eða til ársins 2008. Og svo ég haldi mig við það verkefni sem ég nefndi áðan, Skjólskóga, þá fá þeir 10% af fjárhæð hvers árs og er það í samræmi við þá umræðu og samkomulag sem hefur átt sér stað á milli þessara verkefna og vonast ég til að þeir fjármunir eigi eftir að koma að góðum notum, bæði til að efla atvinnu og styrkja byggðina og svo náttúrlega til að draga úr gróðurhúsaáhrifum. Einnig fegrar þetta landið og skapar fjölbreytni í útliti þess, auk þess sem margt ágætis fólk kemur að þessu og gætir þess vonandi og að öllum líkindum að minni hyggju að skógum verði ekki dritað niður bara hér og þar, heldur að það verði gert skipulega og á ákveðinn hátt.

Herra forseti. Ég reikna með að landbn. muni að flestu leyti samþykkja þetta plagg, þessa þáltill. og á ekki von á öðru en að það verði kannski í mesta lagi einn eða tveir fyrirvarar sem ekki yrðu þá miklir. Þetta vildi ég segja hér.