Fjármögnun sjóðs til að auka verðmæti íslenskra sjávarafurða

Þriðjudaginn 11. mars 2003, kl. 21:52:37 (4795)

2003-03-11 21:52:37# 128. lþ. 96.23 fundur 688. mál: #A fjármögnun sjóðs til að auka verðmæti íslenskra sjávarafurða# þál., ÁSJ
[prenta uppsett í dálka] 96. fundur, 128. lþ.

[21:52]

Árni Steinar Jóhannsson:

Virðulegi forseti. Við fjöllum hér um till. til þál. um fjármögnun sjóðs til þess að auka verðmæti íslenskra sjávarafurða. Ég þarf í sjálfu sér ekki að hafa mörg orð um þessa tillögu, ég held að hún sé allra góðra gjalda verð. Þetta eru einmitt tillögur sem við hjá Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði höfum viljað sjá verða að veruleika. Ég vil ekki vera með orðhengilshátt en ég held að e.t.v. þurfi nú að athuga innganginn að tillögunni þar sem Alþingi ályktar að lýsa stuðningi við stofnun sjóðs sem sjútvrh. hefur komið á fót og hefur það hlutverk að styðja verkefni, en við munum fjalla um þessa tillögu í nefnd. Það eru verulegar upphæðir sem eiga að fara í sjóðinn til styrktar verðmætaaukningu á sjávarfangi, 200 millj. árið 2004 og upp í 400 millj. árið 2008.

Ég held að það sé algjörlega nauðsynlegt að fjármagna nýsköpun á þessu sviði, auka verðmæti þeirra afurða sem við fáum úr hafinu. AVS-skýrslan gefur okkur vonir um gríðarlega mikla möguleika þar sem verið er að tala um 130 milljarða kr. verðmætaaukningu ef allt er talið. Aðilar í sjávarútvegi komu á fund sjútvn. fyrir stuttu og töldu að bara í þorskeldinu, ef vel tækist til, gætum við verið að tala um 50--60 milljarða í eldi á þorski. Þarna eru gríðarlegir peningar í húfi. En síðan verður að hafa í huga að það eru auðvitað margar tegundir og kannski afurðir sem nú eru úrgangur og fara kannski í mjöl eða vinnslu sem aðrar þjóðir nýta sér og við gætum unnið verðmætar afurðir úr. Til þess þarf þó að byrja og viðhafa rannsóknir til þess að byrja með og það er nauðsynlegt að hafa sjóð af þessu tagi sem hjálpar mönnum fyrstu skrefin til þess að auka verðmæti sjávaraflans.

Ég vil bara geta þess að á fundi sjútvn. á Dalvík í hittiðfyrra fengum við upplýsingar um að fyrirtæki á Dalvík sem selur herta þorskhausa til útlanda áætlaði á þeim tímapunkti að við værum að henda hausum í hafið fyrir rúmlega 3 milljarða króna. Víða eru því matarholurnar ef vel er að málum staðið.

Við munum fjalla um þessa till. til þál. í nefnd. Ég lýsi stuðningi við innihald hennar og við munum fá upplýst frekar hvað hún felur í sér. Ég tel að málið sé allra góðra gjalda vert og lýsi yfir stuðningi við að svona sé farið í málin, að þeir sem eru frumkvöðlar, þeir sem eru að þreifa fyrir sér, þeir sem eru að brydda upp á nýjungum, geti fengið einhvern stuðning á fyrstu metrum starfsemi sinnar sem síðan gagnast þjóðfélaginu öllu í aukinni verðmætaaukningu á sviði úrvinnslu sjávarfangs.