Staða íslenska táknmálsins

Miðvikudaginn 12. mars 2003, kl. 10:51:33 (4828)

2003-03-12 10:51:33# 128. lþ. 97.1 fundur 660. mál: #A staða íslenska táknmálsins# fsp. (til munnl.) frá forsrh., Fyrirspyrjandi KolH
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 128. lþ.

[10:51]

Fyrirspyrjandi (Kolbrún Halldórsdóttir):

Herra forseti. Ég hef beint til hæstv. forsrh. spurningu um stöðu íslenska táknmálsins. Tilefnið er ekki síst nýafstaðið málþing Félags heyrnarlausra undir yfirskriftinni ,,Réttindi, menntun, lífsgæði``. Ýmislegt kom fram á því málþingi sem var til þess fallið að vekja stjórnmálamenn af þeim þyrnirósarsvefni sem þeir hafa sofið, a.m.k. undanfarin tíu ár, þegar málefni heyrnarlausra eru annars vegar og á það kannski fyrst og fremst við um ríkisstjórnina og stjórnarflokkana. En þingi þessu var fylgt eftir með því að heyrnarlausir og aðstandendur þeirra, samtals á annað hundrað manns, fjölmenntu á Austurvöll í síðustu viku og kröfðust þess að ríkisstjórnin viðurkenndi íslenska táknmálið formlega í lögum og tryggði rétt heyrnarlausra til túlkaþjónustu.

Í kjölfar mótmælanna reiddi hæstv. forsrh. fram 4 millj. kr. til að bæta úr brýnum vanda túlkaþjónustunnar um stundarsakir. Það ber að þakka. Á hitt ber samt að líta, og það er gagnrýnisvert, að hér er um enn eina bráðabirgðalausnina að ræða í málefnum heyrnarlausra. Það eru einmitt bráðabirgðalausnir af þessu tagi sem heyrnarlausir eru búnir að fá sig fullsadda af.

Árið 1997 blésu heyrnarlausir til baráttu af sama tagi. Þá var nákvæmlega sömu aðferðum beitt af sama forsrh., 2 millj. kr. slett í túlkaþjónustuna og málinu svo vísað í starfshóp. Heyrnarlausir eru líka búnir að fá sig fullsadda af starfshópum. Á tíu árum hafa fimm stjórnvaldsskipaðar nefndir verið settar á til að fjalla um stöðu heyrnarlausra en af því starfi hefur nákvæmlega ekkert sprottið.

Enn eiga 250 heyrnarlausir Íslendingar í erfiðleikum með að taka þátt í daglegu lífi til jafns við aðra Íslendinga. Þeir geta ekki mætt í heimsóknir til sérfræðinga, lögmanna, endurskoðenda, fasteignasala eða bílasala án táknmálstúlks. Þeir geta ekki farið í viðtöl við vinnuveitendur, sótt foreldrafundi eða húsfundi án þess að hafa túlk, ekki sótt almenn námskeið eða fræðslufundi. Engar almennar fjárveitingar eða reglur eru til staðar til að tryggja þennan aðgang heyrnarlausra að táknmálstúlkun þrátt fyrir ýmis ákvæði í löggjöf okkar sem ættu að tryggja slíkt.

Eitt af því sem stjórnvöld hafa borið fyrir sig í þessum efnum er að áhöld séu um það hvar vista beri þessa þjónustu í stjórnsýslunni, undir hvaða ráðuneytí málefni heyrnarlausra eigi að heyra. Þetta er eitt málið sem starfshópar ríkisstjórnarinnar hafa gefist upp við að greina og síðast núna fyrir nokkrum dögum kom frétt um það í fjölmiðlum að a.m.k. átta heyrnarlausir einstaklingar hafi sent menntmrn. stjórnsýslukærur vegna synjunar á túlkaþjónustu. Svörin sem þetta fólk fær þar eru á þá lund að þetta sé ekki á könnu menntmrn., þessar kærur séu vegna þjónustu sem félmrn. beri að greiða.

Herra forseti. Það er með ólíkindum hvað stjórnvöldum hefur tekist illa upp við að höndla mál heyrnarlausra í samfélagi okkar. Mín bjargfasta trú er sú að það sé hægt að leysa þessi vandræði hratt og vel ef bara sett væru sérstök lög um íslenska táknmálið. Í ljósi þessa sem ég nú hef sagt vil ég spyrja hæstv. forsrh. eftirfarandi spurningar:

Hver er stefna ríkisstjórnarinnar varðandi íslenska táknmálið? Er þess að vænta að táknmálið verði viðurkennt með lögum þar sem tekið verður á rétti heyrnarlausra til menntunar á öllum skólastigum, fullorðinsfræðslu og réttinum til túlkaþjónustu?