Starfslokasamningar hjá varnarliðinu á Keflavíkurflugvelli

Miðvikudaginn 12. mars 2003, kl. 11:14:17 (4837)

2003-03-12 11:14:17# 128. lþ. 97.2 fundur 672. mál: #A starfslokasamningar hjá varnarliðinu á Keflavíkurflugvelli# fsp. (til munnl.) frá utanrrh., utanrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 128. lþ.

[11:14]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Hér er á engan hátt verið að brjóta nýgerða samninga heldur er verið að taka upp nýja sveigjanlega stefnu sem er á margan hátt í takt við tímann. Ég tel að það sé mjög mikilvægt fyrir starfsmenn hvar sem er í landinu að geta átt kost á sveigjanlegum starfslokum.

Það er nú svo að því er varðar varnarliðið eins og aðra starfsemi í landinu að þar þarf að leita hagræðingar. Við Íslendingar þurfum að standa með varnarliðinu í því sambandi að leita eftir því að þessi rekstur verði sem ódýrastur. Það eru ekki aðeins hagsmunir þeirra heldur líka hagsmunir okkar að sú starfsemi kosti sem minnst en allrar sanngirni sé gætt.

Á undanförnum árum hefur nokkur fækkun verið hjá varnarliðinu og ljóst er að það verður áfram þörf á því að vinna að frekari hagræðingu á þessu sviði. Það er öllum til hagsbóta að mínu mati og nauðsynlegt í þeim samskiptum sem við eigum í varðandi varnarliðið og ég tel að það þjóni jafnframt hagsmunum starfsmanna. En það er mjög mikilvægt að þetta sé rætt opið við starfsmennina og það mun verða gert og tekið á málinu í samræmi við það.