Hvalveiðar

Miðvikudaginn 12. mars 2003, kl. 11:30:25 (4843)

2003-03-12 11:30:25# 128. lþ. 97.4 fundur 467. mál: #A hvalveiðar# fsp. (til munnl.) frá sjútvrh., sjútvrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 128. lþ.

[11:30]

Sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen):

Herra forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir fyrirspurnina en hann var eins og kunnugt er fyrsti flutningsmaður tillögunnar og ég reyndar einn af meðflutningsmönnum hans. Í fyrrgreindri þál. er kveðið á um að ríkisstjórnin skuli hefja undirbúning að hvalveiðum, m.a. með því að kynna stefnu Íslands í hvalamálum meðal viðskiptaþjóða landsins. Í samræmi við þál. hefur verið lögð sérstök áhersla á að kynna stefnu Íslands í hvalamálum á fundum sjútvrh. með fulltrúum annarra þjóða, fulltrúum frjálsra félagasamtaka og blaðamönnum. Í þessu máli sem öðrum hefur verið náið og gott samstarf milli sjútvrn. og utanrrn.

Þá hefur sérstök kynning á málstað Íslands í hvalamálum átt sér stað í Bandaríkjunum. Stefna Íslands hefur verið rædd í báðum deildum Bandaríkjaþings og við háttsetta embættismenn í bandaríska stjórnkerfinu. Áhersla hefur verið lögð á að fulltrúar Íslands sæki fundi alþjóðastofnana er varða hvalamál og kynni þar stefnu Íslands í hvalamálum fyrir fulltrúum annarra ríkja. Í þessu sambandi má nefna fundi aðildarríkjaþings samnings um alþjóðaverslun með tegundir villta dýra og plantna sem eru í útrýmingarhættu, CITES, fundi Alþjóðahvalveiðiráðsins og Norður-Atlantshafsspendýraráðsins. Til að ná fram því markmiði þál. um að hefja aftur hvalveiðar við Ísland hefur einnig verð gengið að nýju í Alþjóðahvalveiðiráðið með fyrirvara varðandi bann ráðsins við hvalveiðum í atvinnuskyni. Ísland mun vinna að því innan ráðsins að vinnu við endurskoðun á stjórnkerfi Alþjóðahvalveiðiráðsins (Revised Management Scheme) muni ljúka sem fyrst með ásættanlegum hætti. Fyrirvarinn tryggir að til lengri tíma hefur Ísland þjóðréttarlegan rétt til að stunda hvalveiðar í atvinnuskyni þótt ekki fáist niðurstaða í viðræðunum um RMS (Revised Management Scheme) en þetta er í samræmi við þál. En um þessar mundir er framgangur í þeim viðræðum og standa vonir til þess að hvalveiðiráðið muni í framtíðinni sinna því hlutverki sínu að stjórna hvalveiðum.

Aðild Íslands að Alþjóðahvalveiðiráðinu er nú almennt viðurkennd en ekki umdeild eins og hún var fram á sl. haust. Skiptir það vissulega máli fyrir svigrúm okkar til að vinna með eðlilegum hætti innan ráðsins. Einstök ríki hafa einhliða mótmælt fyrirvara Íslands. Slíkt hefur hins vegar ekki áhrif á stöðu Íslands sem aðildarríkis að Alþjóðahvalveiðiráðinu. Með mótmælum sínum eru ríki að gera nákvæmlega það sem við höfum frá upphafi þessa máls talið rétt að ríki gerðu ef þau eru ósátt við íslenska fyrirvarann. Eins og kunnugt er hafa aðildarríki Alþjóðahvaleiðiráðsins skýlausan rétt til að stunda hvalveiðar í vísindaskyni. Slíkar veiðar hafa ekki verið stundaðar hér við land síðan 1989 og ljóst er að ærin verkefni eru fyrir vísindarannsóknir á hvölum. Hvalveiðar í vísindaskyni eru mál sem hefur verið til skoðuar í sjútvrn., ekki síst vegna skorts á þekkingu á hlutverki hvala í vistkerfi sjávar við Ísland og þar með skort á þekkingu á áhrifum hvala á fiskstofnana sem við byggjum afkomu okkar á.

Hafrannsóknastofnun hefur mótað rannsóknaáætlun og nú hefur verið ákveðið að leggja hana fyrir Alþjóðahvalveiðiráðið seinna í þessum mánuði og mun áætlunin verða tekin til umfjöllunar á næsta fundi vísindanefndar ráðsins sem hefst í lok maí.

Starfsreglur Alþjóðahvalveiðiráðsins gera ráð fyrir því að áður en ríki nýta rétt sinn til hvalveiða í vísindaskyni sé fjallað um viðkomandi rannsóknaáætlun á vettvangi vísindanefndarinnar. Ekki er því hægt að taka ákvörðun um hvalveiðar í vísindaskyni fyrr en eftir fund vísindanefndarinnar sem stendur til 6. júní og eftir fund hvalveiðiráðsins sjálfs sem stendur til 19. júní nk. Það að vísindaáætlunin sé lögð fram til umfjöllunar á vettvangi Alþjóðahvalveiðiráðsins felur alls ekki sjálfkrafa í sér að hvalveiðar í vísindaskyni verði hafnar á þessu ári. Auk þess sem áætlunin þarf að fara í gegnum umfjöllun á vettvangi Alþjóðahvalveiðiráðsins áður en ákvörðun verður tekin um framhaldið er ljóst að ýmsir aðrir þættir koma til með að verða mikilvægir þegar ákvörðun verður tekin um hvenær veiðar verða hafnar. Þar ber helst að nefna milliríkjaverslun með hvalaafurðir þótt aðrir þættir skipti einnig máli. Íslandsmarkaður er mjög lítill og því er það forsenda þess að hægt sé að stunda umtalsverðar hvalveiðar hér við land að hægt sé að flytja hvalafurðir út og koma þeim á Japansmarkað.

Horfur varðandi milliríkjaverslun við Japan með hvalafurðir eru óljósar. Norðmenn hafa í nokkurn tíma verið í viðræðum við Japana til að fá það í gegn að þeir hefji innflutning og af hálfu Íslands hafa verið haldnar óformlegar viðræður við Japana um málið. Milliríkjaverslun hófst aftur eftir áralangt hlé á síðasta ári þegar Norðmenn fluttu hrefnuafurðir til Íslands en Japan hefur ekki enn tekið þátt í þessum viðskiptum. Á meðan þessi staða er óbreytt eru ekki forsendur fyrir hvalveiðum sem neinu nema við Ísland. Því er ljóst að ákvörðun um að leggja fram rannsóknaáætlun um hvalveiðar í vísindaskyni nú felur ekki í sér að hefja slíkar hvalveiðar á þessu ári þar sem ýmis ljón eru enn á veginum.

Mikið hefur verið unnið að hvalveiðimálum og málið þokast vel fram á við undanfarin missiri. Þessi vinna mun að sjálfsögðu halda áfram þar til hvalveiðar hefjast að nýju við Ísland.