Meistaranám iðngreina

Miðvikudaginn 12. mars 2003, kl. 11:50:51 (4851)

2003-03-12 11:50:51# 128. lþ. 97.6 fundur 656. mál: #A meistaranám iðngreina# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., Fyrirspyrjandi BjörgvS
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 128. lþ.

[11:50]

Fyrirspyrjandi (Björgvin G. Sigurðsson):

Herra forseti. Það er pottur brotinn í iðnmeistaranámi. Það er langt nám í flestum tilfellum samanborið við lengd þess í nágrannalöndum okkar þar sem það er allt að þrefalt styttra. Halda má því fram að umfang námsins sé í mörgum tilfellum allt of mikið samanborið við réttindin sem það gefur. Í þessu felst sú hætta að nýliðun verði lítil og eftir ákveðinn tíma verði um alvarlegan skort á iðnmeisturum að ræða. En fyrst og fremst er þetta réttlætismál þar sem það er ósanngjarnt að námið sé miklu lengra og þar með miklu dýrara hér en annars staðar. Meginmálið er samræmi á milli landa. Ef námið er óþarflega langt er verið að eyða tíma og fjármunum og fæla fólk frá því að innritast í námið en svo er í mörgum tilfellum.

Mikilvægt er að meistaranám í íslenskum iðngreinum þróist í takt við það sem gerist erlendis og lengd og umfang námsins sé svipað og í löndum EES og ESB. Íslenskir iðnaðarmenn eru á heimsmælikvarða og bera af hvað varðar fagmennsku og þekkingu og er brýnt að umgjörð námsins sé rétt. Hérlendis er í flestum tilfellum um að ræða 50--60 eininga nám sem tekur iðnmeistara fjórar annir í kvöldskóla að ljúka. Þó er lengd iðnmeistaranáms mislöng á milli greina. Í Noregi, svo dæmi sé tekið, tekur iðnmeistaranám í sumum tilfellum a.m.k. aðeins eina önn en fjórar hér.

Vinnuafl flæðir frjálst á milli landa og því verður að vera svipað umfang á bak við nám af þessu tagi á Íslandi og í Evrópusambandslöndunum. Því tel ég það mikilvægt hagsmuna- og framfaramál fyrir íslenskan iðnað og íslenska iðnaðarmenn að meistaranám verði endurskoðað í þá veru að það sé sambærilegt við það sem best gerist erlendis og áhersla lögð á að stytta námið til samræmis við það sem gerist í Evrópu. En halda má því fram að námskrá iðnmeistaranáms og samsetning hennar sé röng og þar kenndar greinar sem lítið hafa með iðnmeistaramenntun að gera. Því spyr ég hæstv. menntmrh.:

Stendur yfir eða stendur til að hefja endurskoðun á námskrá meistaranáms iðngreina til samræmis við það sem víðast gerist í Evrópu og á Norðurlöndunum, bæði hvað varðar lengd námsins og áherslu á rekstrarnám?