Almennar stjórnmálaumræður (útvarpsumræður)

Miðvikudaginn 12. mars 2003, kl. 21:27:14 (4872)

2003-03-12 21:27:14# 128. lþ. 98.1 fundur 493#B almennar stjórnmálaumræður (útvarpsumræður)#, LB
[prenta uppsett í dálka] 98. fundur, 128. lþ.

[21:27]

Lúðvík Bergvinsson:

Virðulegi forseti. Góðir landsmenn. Er það virkilega svo, þegar maður situr úti í sal og hlýðir á þessa umræðu að fólk haldi að til sé fólk sem trúi því að stór hluti af þeim sem starfa hér í stjórnmálum hafi ekkert annað hlutverk en að eyðileggja íslenskt samfélag, hafi ekkert annað hlutverk en að eyðileggja íslenskt efnahagslíf?

Ef marka mátti orð hv. þingmanna Ástu Möller, Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur og Sivjar Friðleifsdóttur þá má draga þá ályktun að stór hluti af því fólki sem er í stjórnmálum sé svo illviljað og vitgrannt að verði því hleypt í Stjórnarráðið í vor þá muni það forklúðra málum svo að það verði erfitt að taka til eftir það. Trúir einhver svona umræðu? (Gripið fram í.) Er þetta það besta sem spunameistarar flokkanna geta hannað upp í þetta fólk? Er þetta það einasta sem þeir geta kennt því? Þetta er alveg með hreinustu ólíkindum, virðulegi forseti.

Telja menn í raun og veru að Vinstri grænir séu á móti öllu, að þeir hafi ekkert til umræðunnar að leggja annað en andstöðu við hugmyndir og framfarir? Hvers konar skilaboð eru það þegar stjórnmálamenn tala með þessum hætti? Er nema von að menn spyrji hvort einhver nenni að horfa á umræður frá hinu háa Alþingi á svokölluðum eldhúsdegi ef ræðumenn gera fátt annað en endurtaka rulluna frá því í fyrra eða hittiðfyrra eða árin þar á undan.

Telja menn að slík orðræða dýpki skilning manna á því sem mestu skiptir í íslensku samfélagi? Telja menn að þessar innihaldslausu alhæfingar íhaldsins færi okkur skrefi framar?

Virðulegi forseti. Þá er ekki síður mjög fróðlegt að hlýða á umræðuna um að allir séu sammála um hinn mikla stöðugleika í íslensku efnahagslífi. Vita menn það ekki að undanfarna 18 mánuði eða svo hefur gengi íslensku krónunnar gagnvart dollar hækkað og lækkað um u.þ.b. 50%? Hafa menn ekki upplýsingar um þetta? Hafa menn ekki þekkingu á því að vextir hafa verið hér hærri en nokkurs staðar þekkist? Hafa menn ekki þekkingu á því að verðtryggingin hér og verðbólgan hafa verið hærri en annars staðar þekkist og bæði farið upp og farið niður? Hér ríkir enginn stöðugleiki, virðulegi forseti.

Útflutningsgreinar hafa þungar áhyggjur af samkeppnisstöðu sinni vegna styrkrar stöðu krónunnar, innflytjendur óttast óstöðugleika og hagfræðingar vara við þenslu og hættu á kollsteypu vegna stóriðjuframkvæmda. Þrátt fyrir þetta, þrátt fyrir þessar staðreyndir glymja gömlu lummurnar: ,,Við einir kunnum með fé að fara. Ef öðrum verður hleypt inn í Stjórnarráðið þá fer allt fjandans til.`` Er þetta það einasta sem stjórnarflokkarnir hafa inn í þessa umræðu að færa? Trúir þessu einhver, virðulegi forseti?

Íslenskt samfélag er um margt mjög gott. Það er þó langt í frá að það sé allt að þakka hinum algóða forsætisráðherra og föruneyti hans. Miklu stærri áhrifavaldar um þróun samfélaga eru frumkvöðlar, t.d. á sviði atvinnulífs og menningarlífs, og verkalýðsforingjar. Það er hins vegar alls ekki svo að stjórnmálamenn geti ekkert gert og það verður að virða það sem vel er gert.

Ég held að ekki geti lengur verið neinn ágreiningur um að allir hagnast á því að brjóta niður höft og einokun og gefa þannig sem flestum tækifæri til að taka þátt í því að byggja og treysta þróttmikið atvinnulíf.

Virðulegi forseti. Ég tel að það sem sú ríkisstjórn sem nú er vonandi að fara frá skilur helst eftir sig sé meiri gjá milli þeirra sem meira eiga og hinna sem minna eiga en þekkst hefur í íslensku samfélagi hingað til. Þetta birtist á mörgum sviðum. Þetta birtist t.d. í svokölluðu almannatryggingakerfi fjármagnseigenda, svokölluðu ábyrgðarmannakerfi fjárskuldbindinga. Það gengur út á það að fjármálastofnanir fá óviðkomandi einstaklinga til að ábyrgjast viðskipti sín fyrir aðra viðskiptamenn. Þetta kerfi þekkist hvergi í víðri veröld. Þrátt fyrir margítrekaðar tilraunir til breytinga á þessu kerfi hefur stjórnarmeirihlutinn hér staðið algerlega gegn því að þessu réttlætismáli verði náð fram.

Þá birtast áherslur núverandi stjórnvalda ekki síst í skattamálum. Skattbyrðin hefur verið færð af hátekju- og eignafólki yfir á millitekju- og lágtekjufólk. Þessar áherslur endurspegla áherslur ríkisstjórnarinnar að koma upp stéttskiptu samfélagi. Allt þetta ber að sama brunni. Við höfum heyrt hugmyndir þeirra um breytingar á heilbrigðiskerfinu. Við höfum heyrt hugmyndir þeirra um breytingar á menntakerfinu. Við höfum heyrt þessar hugmyndir sem ganga allar út á eitt og hið sama, þ.e. að koma upp stéttskiptu samfélagi. Þeir eru í raun og veru að kljúfa þá sátt sem hér hefur ríkt um áratugi um að hafa samfélag jöfnuðar þar sem gjáin milli þeirra sem meira eiga og hinna sem minna eiga verði eins lítil og kostur er. Þessa sátt hafa þeir verið að sprengja undanfarin missiri.

Viljum við að þjóðin haldi áfram á þessari braut? Viljum við kljúfa þá sátt sem lengi hefur ríkt í þessu samfélagi? Vilji menn stéttskipt samfélag þá kjósa menn þá flokka sem nú sitja að völdum. Vilji menn snúa af þessari braut þá velja menn þá flokka sem berjast fyrir jöfnuði.

Það hefur verið hlutverk jafnaðarmanna oft og tíðum að hreinsa til eftir íhaldið. Frammi fyrir þessari spurningu standa kjósendur í vor. Þeirra er valið. --- Góðar stundir.