Álbræðsla á Grundartanga

Fimmtudaginn 13. mars 2003, kl. 10:36:34 (4881)

2003-03-13 10:36:34# 128. lþ. 99.11 fundur 671. mál: #A álbræðsla á Grundartanga# (stækkun, skattlagning) frv. 85/2003, Frsm. meiri hluta HjÁ
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur, 128. lþ.

[10:36]

Frsm. meiri hluta iðnn. (Hjálmar Árnason):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir nál. frá meiri hluta iðnn. um frv. til laga um breytingu á lögum nr. 62/1997, um heimild til samninga um álbræðslu á Grundartanga, með síðari breytingum.

Nefndin hefur fjallað allítarlega um þetta mál. Fengið fjölmarga gesti á sinn fund og eins skriflegar umsagnir. Frá því er greint í nefndarálitinu á þskj. 1281.

Frv. sem hér er til umræðu byggir á því markmiði að ríkisstjórn og iðnrh. verði veitt heimild til að gera samninga við Norðurál hf. um stækkun álvers félagsins á Grundartanga í allt að 300 þús. tonn. Þetta markmið hefur verið til umræðu nokkuð lengi og búið að fara í gegnum allt löglegt og eðlilegt ferli hvað varðar starfsleyfi og annað slíkt.

Nefndin skoðaði ýmsar hliðar þessa frv. Í byrjun vil ég sérstaklega víkja að þeim þætti sem kalla má skattalegan og efnahagslegan. Um hinn skattalega þátt þarf í sjálfu sér ekki mikið að fjalla. Skattahlið frv. er í megindráttum sambærileg við þann samning sem nýlega var gerður við Alcoa og fékk mjög ítarlega umfjöllun í nefndinni og umræðum hér á Alþingi. Þessi samningur er að öðru leyti byggður á samkomulagi fyrirtækisins Norðuráls við sveitarfélögin umhverfis og ríkisvaldið. Ég tel að segja megi að umræðan um skattahlið málsins hafi þegar farið fram.

Um hin efnahagslegu áhrif framkvæmdanna má margt segja. Það tengist sambærilegri umræðu um Alcoa og efnahagsleg áhrif af þeim framkvæmdum. Þar horfa menn fyrst og fremst til þenslunnar og hafa lýst áhyggjum af því að þensla í okkar litla efnahagskerfi geti orðið mikil. Rétt er að hafa í huga að það er markmiðið að þær framkvæmdir sem hér um ræðir í álbræðslu á Grundartanga byggist á stækkun í tveimur hlutum. Mikill vilji er til að framkvæmdir að fyrri hlutanum geti hafist sem fyrst og verði að mestu lokið um það leyti sem framkvæmdirnar fyrir austan ná hámarki. Það kom fram í máli efnahagssérfræðinga sem nefndin kallaði til sín, m.a. frá Seðlabankanum, fjármálaráðuneytinu og atvinnulífinu, þ.e. ASÍ og Samtökum atvinnulífsins, að með þessum hætti og strangri og skilvirkri efnahagsstjórn mætti koma í veg fyrir að þensla yrði of mikil. Þensluáhrifin þurfa ekki að verða óeðlileg og leiða til að þenslan fari út fyrir eðlileg mörk.

Það var samdóma álit sérfræðinga, sem rétt er að árétta, að markmiðið er að fyrri hlutanum verði að mestu lokið á árinu 2005, þ.e. þegar framkvæmdirnar fyrir austan fara nærri því að ná hámarki. Síðari hlutinn ætti svo að koma til framkvæmda eftir að þenslunni fyrir austan er lokið, þ.e. í framhaldi af því.

Það var athyglisvert að heyra mál fulltrúa þeirra sveitarfélaga sem liggja umhverfis Grundartanga og lýsingu þeirra á þeim áhrifum sem starfsemi Norðuráls hefur haft á á Vesturlandi, allt upp í uppsveitir Borgarfjarðar. Það var samdóma álit þeirra allra að öll samskipti við fyrirtækið Norðurál hefðu verið til einstakrar fyrirmyndar í einu og öllu. Samráðsvettvangur þessara aðila, þ.e. sveitarfélaganna og fyrirtækisins, virðist skilvirkur og var athyglisvert hversu jákvæðir fulltrúar sveitarfélaganna voru í garð fyrirtækisins.

Það þarf svo sem ekki að fara mörgum orðum um það, svo oft sem það hefur verið gert, hvaða áhrif þetta hefur haft á atvinnulíf á Vesturlandi. Á það var m.a. bent að fyrirtækið Norðurál býður þau störf sem gefa hæst meðallaun á öllu Vesturlandi. Því er e.t.v. ekki að furða að þetta sé eftirsóttur vinnustaður fyrir allar þær fjölmörgu atvinnustéttir sem þangað sækja störf.

Það kom fram að sveitarfélög á Vesturlandi styðja almennt þessa stækkun eindregið, ekki síst með vísan til þeirra jákvæðu áhrifa sem starfsemin hefur haft til þessa. Það var líka athyglisvert að heyra frá fulltrúa Umhverfisstofnunar. Frá því Norðurál hóf starfsemi hefur verið mjög markviss umhverfisvöktun á svæðinu og var staðfest af fulltrúa Umhverfisstofnunar að útblástur og umhverfisleg áhrif frá fyrirtækinu hafi verið langt innan viðmiðunarmarka, enda hefur fyrirtækið lagt áherslu á að hafa allar upplýsingar uppi á borðinu og ræða bæði við þá sem hafa verið tilnefndir til þessarar umhverfisvöktunar og eins fulltrúa sveitarfélaganna á svæðinu.

Það var mjög fróðlegt að heyra hve jákvæð viðhorf þessara fulltrúa voru enda mæla þeir eindregið með því að frv. verði samþykkt þannig að Norðurál geti gripið til þessarar stækkunar. Talið er að stækkunin muni, þegar fram í sækir, gefa af sér allt að 200 störf, viðvarandi störf. Reikna menn með að þessi störf verði fyrst og fremst skipuð Vestlendingum, enda munu um 85% starfsmanna Norðuráls vera íbúar á Vesturlandi.

Sveitarfélögin telja sig vel í stakk búin til að taka við þessari stækkun, ekki síst þeim áhrifum sem hún kann að hafa á íbúaþróun. Það hefur komið fram í máli manna að eftir að Norðurál hóf starfsemi sína hafi orðið mikill viðsnúningur. Mikil bjartsýni er ríkjandi og íbúum hefur fjölgað. Gert er ráð fyrir því að íbúum muni enn fjölga á Vesturlandi og þess muni gæta í uppsveitum Borgarfjarðar, auk þeirra sveitarfélaga sem næst liggja Grundartanga.

Um þetta þarf ekki að segja mikið meira. Greinargerðin með frv. er nokkuð ítarleg. En það var niðurstaða meiri hluta iðnn. að mæla með því að frv. verði samþykkt óbreytt. Undir nál. skrifa auk mín hv. þm. Guðjón Guðmundsson, Pétur H. Blöndal, Árni Ragnar Árnason, Kjartan Ólafsson og Ísólfur Gylfi Pálmason.